05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það gladdi mig að heyra, að hv. 2. þm. Skagf. er meðmæltur þessu frv., og bjóst ég nú reyndar við því áður.

Að því er snertir fyrirspurn hv. þm., þá vil ég fyrst leiða athygli hans að því, að hér er ekki um styrkaðstoð að ræða frekar en var, þar sem viðlagasjóðsaðstoðin var, heldur ábyrgð, og er þessi aðstoð þannig að vísu að þessu leyti minni viðlagasjóðsaðstoðinni, því að hún var fólgin í beinum lánum. Fyrirspurn hv. þm. var um það, hvort tilgangurinn væri að láta þetta ná einnig til þeirra frystihúsa, sem þegar hafa verið reist. Tilgangurinn með frv. er nú að vísu fyrst og fremst sá, að koma upp nýjum frystihúsum, en þetta má hinsvegar taka til athugunar í þeirri n., sem málið fær til meðferðar. Annars held ég, að eins sé ástatt um fleiri hús en þetta eina, sem hv. þm. nefndi, t. d. húsið á Húsavík. Hvort landbn. teldi rétt að láta þessi tvo hús koma undir ákvæði þessara laga, er atriði, sem n. athugar. Ég er sammála hv. 2. þm. Skagf. um, að í rauninni hefði það verið hlutverk Búnaðarbankans, og það hefði verið æskilegt, ef það hefði verið mögulegt, að beina meira fjármagni í þessa átt, þó að það sé orðið allmikið. En það er svo með Búnaðarbankann, að hann getur ekki nema að nokkru leyti innt af hendi þessa starfsemi, þegar svo mikið kallar að í einu eins og nú er.

Hv. þm. vék að norsku samningunum og sagði, eins og rétt er, að það hefði verið hljótt um það mál. En ég vil geta þess, að það er ekki af tilviljun, sem hefir verið hljótt um það mál. Það er eftir eindregnum ráðleggingum sendiherrans í Kaupmannahöfn. Hann lítur svo á, að það væri líklegra til að ná samningum að hafa hljótt um málið og gefa norskum blöðum ekki tilefni til að vitna í íslenzk ummæli, eins og agitationin er sterk í Noregi. Og ég get sagt hv. þm. það, að af hálfu stj. er gert allt til að reyna að fá farsælan enda á samningana.