05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Um frystihúsið á Sauðárkróki tel ég ástæðulaust að ræða frekar. Það var rætt mikið um það mál fyrir tveimur árum, og kom þá allt fram í málinu, sem þurfti að koma fram, og ég vísa til þess. Það er rétt, sem ég sagði um frystihúsið á Húsavík; það hefir ekki komizt undir lánskjör viðlagasjóðs.

Út af kjöttollssamningnum vil ég segja það, að það er um mjög margt önnur aðstaða nú en 1924. Ég er sannfærður um, að það hafi verið nauðsynlegt að vekja nokkurn storm um málið hér heima þá, enda var þá þannig ástatt, að við Íslendingar áttum miklu meira undir því að fá tollinn framlengdan þá en nú. Annars vil ég geta þess, að sú stj., sem fór þá með völd, beindi ekki neinni ósk til þáv. ritstjóra „Tímans“ um að skrifa ekki um kjöttollssamninginn.