06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Baldvinsson:

Mér finnst það eiga vel við nú í þinglokin að ræða nokkuð almennt um þá atburði, sem gerzt hafa síðustu dagana, nú við þessa einu umr. fjárl. í Ed., og þá jafnframt þær breyt., sem orðið hafa á viðhorfi mála hér á þingi.

Síðan fjárl. voru samþ. hér við 3. umr., hefir verið gerð á þeim breyt., sem ég tel talsvert til bóta, þar sem samþ. hefir verið sú till. Alþýðuflokksins, að veita fé til atvinnubóta. Nemur sú upphæð alls rúmlega 1 millj. kr. Þetta fé er þannig veitt í fjárl., að það er skylt að greiða það, það er bein útgjaldaskipun, en ekki aðeins um greiðsluheimild að ræða. Féð á að nota til atvinnubóta og einnig á að hjálpa þeim sveitarfélögum, sem eiga við erfiðleika að stríða vegna atvinnukreppunnar.

Þessi fjárhæð, sem hér á að leggja fram, er vitanlega of lág, og ég gæti bezt trúað, að stj. þyrfti að grípa til meira fjár heldur en hér er veitt, ef ástandið verður jafnvont og það hefir verið nú að undanförnu og lítur út fyrir, að verði á þessu sumri og næsta vetur. En því er verr, að stj. og stóru flokkarnir í þinginu hafa ekki viljað fallast á að veita heimild til að framkvæma ýmis nauðsynjaverk eða fá til þess lagaheimild, en út í þetta ætla ég ekki að fara lengra nú, heldur víkja að öðru.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa í sameiningu gengið til stjórnarmyndunar og afgr. í sameiningu þau mál, sem safnazt hafa fyrir hér í Ed. og eigi hafa fengizt afgr. til þessa; en þetta skilst mér hafa það í för með sér, að nú sé viðhorf til mála öðruvísi en áður. Því að hingað til hafa Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hér í Ed. haldið málum fyrir framsóknarstj., svo sem fjárl. og tekjuöflunarfrv., an tillits til þess, hvort þau væru í samræmi við stefnu þeirra eða ekki. Þeir hafa haldið þeim með tilliti til þess eins að knýja fram lausn kjördæmaskipunarmálsins. Þessu hefir verið lýst yfir af flokkunum á þingi dögunum oftar og mánuðum saman á þessu hinu langa þingi. Því hefir einnig verið lýst yfir í hlöðum þessara flokka daglega að heita ná og ekki klipið úr, að þessu skyldi haldið til streitu. Kjördæmaskipunarmálið var það mál, sem þeir lögðu mesta áherzlu á, og kjósendur þessara flokka víðsvegar um land höfðu safnað saman áskorunum til þingsins um að leysa þetta mál nú. Alls voru komnar áskoranir frá milli 20 og 30 þús. kjósendum að leysa þetta mál í samræmi við þær till., sem fyrir lágu frá þessum flokkum, og það er hægt að segja, að í aðalatriðunum hafi Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn orðið sammála um tillögur til úrlausnar á málinu, þó að þeir hvor í sínu lagi hefðu sínar sértillögur í kjördæmaskipunarnefndinni. Ég ímynda mér, að óhætt sé að segja, að þeir geti báðir eða hafi hingað til sætt sig við þá úrlausn malsins, sem fólst í því stjórnarskrárfrv., sem var lagt fyrir þingið af þessum flokkum. (Forseti: Þetta er ekki viðkomandi því máli, sem nú er til umr.). Ég álít, að hæstv. forseti geti nú leyft umr. um almenn mál, af því að Ed. hefir á þessu þingi ekki notað þann rétt, sem hún hefir til ai5 halda eldhúsdag. hér hafa því á þessu þingi ekki farið fram neinar almennar umr. um stjórnmálin. Þetta er ein umr. fjárl., og menn þurfa ekki að halda sér við einstök atriði.

Ég finn sérstaklega ástæðu til að tala nú við hv. sjálfstæðismenn í þessari d., sem mér finnst blatt áfram, að hafi svikið gefin loforð í kjördæmaskipunarmálinu, sem kjósendur væntu af þeim, eftir því sem þeir töluðu á þingi og eftir því sem blöð þeirra hafa skrifað og eftir því sem þeir lofuðu sínum kjósendum, og ennfremur hafa þeir brugðizt því að verða við þeim áskorunum, sem menn sumpart hafa sent þinginu ótilkvaddir og sumpart voru fram komnar fyrir tilverknað þeirra flokka, sem vildu lausn kjördæmamálsins á þessu þingi, þar á meðal Sjálfstæðisflokksins. Nú verða þeir vitanlega að standa kjósendum reikningsskap gerða sinna og þeirrar brigðmælgi, sem þeir hafa sýnt í þessu máli.

Sjálfstæðismenn hafa algerlega brugðizt því, sem haldið var fram sameiginlega af Sjálfstæðisflokknum og Alþýðuflokknum, að láta skriða til skarar um kjördæmaskipunarmálið á þessu þingi og koma því í höfn. Um þetta hafa þessir tveir flokkar verið sammála, og þær yfirlýsingar, sem þeir hafa gefið, eru alveg ótvístraður. Sjálfstæðisfl. hefir gefizt upp við það, að halda föstum málum í efri deild til að knýja fram réttlætismálið. Nú er stíflan tekin úr og flokkarnir fara þá að vinna að framgangi sinna mála, þeirra, sem nú hafa verið látin þvíla vegna kjördæmamalsins, hver eftir sinni stefnu, en stefnur þeirra eru ólíkar, og fyrir utan kjördæmamálið eru fá mál, sem þeir geta unnið saman að.

Ég get ekki stillt mig um að víkja ofurlítið að því, sem hv. sjálfstæðismenn hafa sagt áður hér í þinginu um stjórnarskrármálið. Það skortir ekki stórar yfirlýsingar frá þeim. T. d. sagði hv. 1. landsk. 14. apríl síðastl., á afmæli þingrofsins: „Við látum ekkert upp á krít“. M. ö. o.: þeir (þ. e. sjálfstæðismenn) ætluðu ekkert að láta laust af málum stjórnarinnar nema viðunandi lausn fengist í kjördæmaskipunarmálinu. En nú sé ég ekki betur en að þeir hafi látið allt upp á krít, fjárlögin, tekjuaukafrumvörpin og svo Magnús Guðmundsson í ofanálag. Þeir hafa gefið Framsókn „krít“ á kjördæmaskipunarmálinu til næsta þings og lagt auk þess ráðherrann inn í reikning Sjálfstæðisflokksins hjá Framsókn.

Sama dag sagði hv. 1. landsk. í ræðu, pegar ég hafði að gefnu tilefni brýnt hann á því, hvort sjálfstæðismenn mundu ekki slaka til í kjördæmaskipunarmálinu: „Hitt má hann vita með vissu, að svo verður haldið á þessum málum, að vörur verða ekki teknar úr búðinni fyrr en full trygging er fengin fyrir því, að andvirðið verði greitt“.

Enn segir hv. 1. landsk. sama daginn: „Framsóknarmenn mega vita það, að þessu máli verður haldið til streitu hvað sem það kostar“. Þannig talaði hv. form. Sjálfstæðisflokksins 14. apríl. Hann ætlaði að halda kjördæmaskipunarmálinu til streitu hvað sem það kostaði, þó það yrði að knýja fram þingrof og nýjar kosningar. En hvernig er aftur viðhorfið nú? Nú hafa sjálfstæðismenn frestað málinu a. m. k. til næsta þings; hv. 1. landsk. er horfinn frá að halda því til streitu.

Ég læt nú þetta allt saman vera, ef trygging hefði verið fyrir því, að kjördæmamálið verði leyst á viðunandi hátt á næsta þingi. En það er síður en svo, að nokkur vissa sé fyrir því. Hv. 1. landsk. hefir orðið að játa, að hann hefir enga tryggingu fyrir lausn málsins á næsta þingi, og hæstv. forsrh. hefir lýst yfir, að hann gæti ekki lagt fram neinar slíkar tryggingar. Hann hefir engu lofað.

En hvað er svo um Framsóknarflokkinn? Hann hefir að gefnu tilefni — þar sem sjálfstæðismenn hafa undanfarna daga sagt meira heldur en þeir hafa getað sagt samkv. því samkomulagi, sem á milli þessara tveggja flokka varð — látið útvarpa yfirlýsingu, sem ég tel rétt, að komist hér inn í þingtíðindin, og vil því leyfa mér að lesa hana upp:

„Að gefnu tilefni, vegna yfirlýsingar þingflokks sjálfstæðismanna í gær, óskar þingflokkur framsóknarmanna þess getið, að í sambandi við myndun samsteypuráðuneytisins hafa ekki af hálfu Framsóknarflokksins verið gefnar neinar yfirlýsingar né neinar ákvarðanir teknar um lausn kjördæmamálsins.

Að öðru leyti skal tekið fram, að Framsóknarflokkurinn fól Ásgeiri Ásgeirssyni að mynda ráðuneytið, enda fengist þá afgreiðsla á fjárlögum og öðrum nauðsynlegum fjáraflalögum.

Alþingi, 3. júní 1932.

Þingflokkur framsóknarmanna“.

Hvað er þingflokkur Framsóknar“ Það eru allir framsóknarþingmennirnir, líka hæstv. forsrh. Sjálfur forsrh., ásamt öllum sínum flokksmönnum, lýsir yfir, að engar ákvarðanir hafi verið teknar um lausn kjördæmaskipunarmálsins. Mér virðist því málið liggja þannig fyrir nú, að engar tryggingar og engar ákveðnar vonir séu um það, að viðunandi lausn fáist á kjördæmaskipunarmálinu á næsta þingi.

Hv. 1. landsk. hefir nú skrifað langa grein um kjördæmaskipunarmálið í Morgunblaðið (JónÞ: Sem verður þó lengri). Ég get þá vel trúað, að hv. þm. eigi enn eftir að koma með ymsar afsakanir fyrir undanhaldi sínu. Í því, sem komið er af greininni, er undanhaldið svo augljóst, að á það þarf ekki að benda. Hv. 1. landsk. er þar farinn að tala hér um bil eins og hv. þm. Str., fyrrv. forshr., talaði í vetur um stjórnarskrármálið. Hann kallar það harðræði að standa við yfirlýsingar í kjördæmaskipunarmálinu og knýja það fram með þeim vopnum, er flokkarnir í efri deild gátu beitt. En það er einmitt orð, sem hv. þm. Str. var mjög tungutamt í sambandi við umr. um stjórnarskrármálið.

Eitt af því, sem hv. 1. landsk. ber fram í þessari Morgunblaðsgrein til afsökunar á tilslökun hans flokks, er það, að þetta mál sé svo ungt, réttlætismálið, sem hann er þó búinn að berjast fyrir í eitt og hálft ár. Baráttan fyrir málinu er nú eldri hjá Alþýðufl., en sleppum því. Hann segir, að aðrar þjóðir hafi orðið að berjast miklu lengur fyrir slíkum umbótum, sem hér er um að ræða, oft átta eða tíu ár og jafnvel áratugi. Ég hlýt að skilja þessi ummæli þannig, að hv. þm. geti sætt sig við, að ekkert væri gert í kjördæmaskipunarmálinu næstu 8 til 10 árin. (JónÞ: Þetta ber alls ekki að skilja þannig). Eftir því, sem á undan er gengið, finnst mér mjög líklegt, að hv. þm. komi með svipaðar skýringar á næsta þingi, að málið sé ekki orðið nógu gamalt til þess að koma til framkvæmda.

Ég ætla svo ekki að svo stöddu að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi nota tækifærið við þessa umr. fjárl. til þess að tala dálítið almennt um málin, lýsa því, hvað hv. sjálfstæðismenn hafa herfilega gengið á svig við yfirlýsingar sýnar og hvernig þeir hafa algerlega fallið frá því að heimta lausn kjördæmamálsins, og meira að segja an þess að hafa nokkrar tryggingar fyrir lausn þess siðar. Ég þykist nú nokkurnveginn hafa sannað það með ummælum mínum og því, sem ég hefi vitnað í ræður hv. 1. landsk., að hann hefir algerlega gengið frá sinni fyrri stefnu í málinu, að sinni að minnsta kosti. (JakM: Samvizkan!).