14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Pétur Magnússon:

Hv. 2. þm. N.-M. talað um, að framleiðendafélög væru óvíða orðin og ekki líkindi til, að þau yrðu stofnuð. Taldi hann því tormerki á, að þau yrðu til þess að reisa frystihús. Það er að vísu rétt, að þessum félögum hefir farið fækkandi og hafa víða verið sameinuð kaupfélögunum. Þó eru þau enn til á nokkrum stöðum á landinu. En þessi breyt. hefir orðið í seinni tíð, og efast ég um, að hún sé til góðs. Ég held, að hitt sé heppilegra, að hafa neytenda- og framleiðendafélög sér, þannig að mönnum væri ekki skylt að vera í öðru félaginu, þótt þeir væru í hinu. Þessi félög geta eigi að síður verið í náinni samvinnu, og hafa líka verið það þar, sem hvorttveggja félögin hafa verið til. Þótt hreyfingin hafi verið í þá átt, að framleiðendafél. hafi fækkað, þá ætla ég, að gjarnan mætti verða breyt. á því til hins gagnstæða, og ef þetta frystihúsmál gæti orðið til þess að snúa straumnum við, þá hygg ég, að það væri til góðs. Mér finnst þess vegna, að þessi röksemd hv. þm. vegi ekki á móti því, sem ég hefi haldið fram um þetta efni.