31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

215. mál, millisíld úr búi Síldareinkasölu Íslands

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Ég get að mesti leyti látið nægja að vísa til grg. frv. við þessa fyrstu umr. Þó vil ég fylgja frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Þegar síldareinkasalan var stofnuð, var henni ákveðið það aðalstarfssvið að annast um verkun og sölu síldar, og þá fyrst og fremst hafsíldar, sem veidd er á sumrin. En eins og kunnugt er, veiðist oft á haustin svokölluð millisíld. Er sú veiði svo takmörkuð, að telja mátti það með öllu óþarft, að einkasalan hefði sölu þeirrar síldar með höndum. Þó hefir það undanfarin ár orðið svo í framkvæmdinni, að einkasalan hefir tekið að sér sölu á þessari síld, en látið söltun hennar afskiptalausa. Hefir þessi veiði alls ekki verið afhent einkasölunni fyrr en hún var fullbúin til útflutnings, enda mun einkasalan nánast hafa litið á afskipti sín af vöru þessari sem hreina umboðssölu. Sést það m. a. glöggt af því að einkasalan hefir jafnan greitt andvirði þessarar síldar til eigendanna jafnskjótt og borgun kom frá kaupendunum. Á síðastl. hausti tók einkasalan eins og að undanförnu nokkuð af millisíld til sölu. En með bráðabirgðalögunum um skiptameðferð á búi síldareinkasölunnar var í 5. gr. þeirra 1. ákveðið, að sú síld, sem veidd var hér við land eftir 15. nóv. síðastl. og ekki var þegar í vorzlum einkasölunnar, er bráðabirgðalögin voru staðfest, skyldi vera einkasölunni óviðkomandi og því að sjálfsögðu ekki falla undir skiptameðferð á búi hennar. Það er kunnugt, að allmikið af síld var veitt eftir 15. nóv. síðastl. haust, en það er mjög erfitt að gera skil á því, hve mikið var veitt fyrir og hve mikið eftir þann tíma, því það er ekki venja að skrifa söltunardag á hverja tunnu af millisíld, eins og af hafsíld, um leið og síldin er söltuð. Nú fór það þannig, að ekkert af þeirri millisíld, sem veiddist á Norður- og Austurlandi, lenti í búi einkasölunnar, þegar til skiptameðferðar kom, nema einn farmur, sem sendur var með Íslandi seint í nóv. til Kaupmannahafnar, en andvirði þeirrar síldar mun eigi hafa verið greitt fyrr en eftir að bú síldareinkasölunnar var tekið til skiptameðferðar. Einnig mun eitthvað lítið af millisíld hafa verið tekið á Austurlandi um líkt leyti og farmurinn, sem fór með Íslandi, og þá einnig lent í gini einkasölunnar. Nú er á það að líta, að þar sem einkasalan veitti millisíldinni ekki móttöku jafnóðum og hún veiddist, eins og hafsíldinni, heldur krafðist afhendingar hennar um leið og hún skyldi flutt um borð í flutningaskip, og ennfremur þar sem afhendingar var krafizt af fáum mönnum, sem sumir afhentu alla þá síld, er þeir höfðu, en aðrir aðeins lítinn hluta, þá var það vitanlega algert handahóf, hverjir voru krafðir afhendingar hverju sinni, og eins hve gömul síldin var. Umræddur farmur, er for með Íslandi seint í nóv. síðastl., mun að vísu hafa verið allur veiddur eftir 15. nóv., en þar fyrir gat þá vel hafa verið eftir millisíld, er veidd var áður, en svo síðar seld af eigendunum, sem voru svo heppnir að þurfa eigi að afhenda hana einkasölunni. Það er því ákaflega ósanngjarnt, að umrædd síldarsending, er fór með Íslandi seint í nóv. og eingöngu mun hafa verið veidd eftir 15. nóv., skuli, fyrir það eitt, að einkasalan tók hana til flutnings einmitt með þessu skipi, verða að lenda inn í bú einkasölunnar, enda hefi ég ástæðu til að ætla, að það stafi meira af vanga en að það hafi verið með vilja gert að stofna til þessa ósamræmis með ákvæðum 5. gr. bráðabirgðalaganna.

Að vísu hefði mátt með lítilfjörlegri orðabreyt. á því frv., sem borið er fram nú til staðfestingar á bráðabirgðalögunum, kippa þessu í lag, en þar sem ekki er ólíklegt, að sumir kynnu að skoða þá orðabreyt. sem efnisbreyt., sem ekki verður gerð á bráðabirgðalögum, þá hefi ég kosið heldur að bera fram sérstakt frv., þar sem stefnt er að sama marki, án þess að leggja bráðabirgðalögin í hættu.

Í trausti þess, að hv. d. taki þessu frv. vel, læt ég hér staðar numið, en óska, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.