05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

1. mál, fjárlög 1933

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er nú svo algengt að fá tækifæri til að ávarpa hv. alþm. Nd., en hinsvegar svo nýstárlegt að fá að áheyrendum þúsundir manna um land allt, að ég vil byrja mál mitt með því að bjóða ykkur velkomin á áheyrendasvið Alþingis. Það væri óskandi, að kjósendur landsins ættu yfirleitt hægra að fylgjast með, bæði sjá og heyra það, sem fram fer, því að þá væri margt öðruvísi en það nú er. Og mér væri nær að halda, að þá þyrftum við ekki að standa nú í því að halda eldhúsdag yfir þessari stjórn. Hún væri þá fyrir löngu hrunnin til agna og ekki annað eftir af henni en sú stybba, sem ávallt verður eftir, þegar rusli er brennt. Það er fjarlægð kjósendanna, sem veldur því, að menn sjá ekki eins og er. Það má nefna sem dæmi þessa ófagra leiks það, hverjar skýrslur hafa verið gefnar um fjárhag ríkisins. Á árunum 1924–27 var borgað meira af skuldum en nokkur dæmi eru til hér á landi. En um kosningar báru andstæðingar þáv. stj. Það út um allt land, að skuldirnar hefðu hækkað á þessum árum, sem þær lækkuðu um framt að helming. En hvað segja þeir nú, þegar þær eru aftur á ný komnar upp í hæðirnar, og meira að segja upp úr gamla metinu? Nú má ekki heyrast, að skuldir hækki. — Mér er sagt, að hæstv. forsrh. hafi glatt landsmenn með þeirri fregn á nýjárinu, að nú hefðu skuldirnar lækkað að miklum nnm vegna kreppunnar. Það er þá með oðrum orðum orðið þannig á síðari árum, að borgi maður af skuldum, þá hækka þær og vaxa manni yfir höfuð, en taki maður ný lán, þá minnka skuldirnar. Þessu eru menn beðnir að trúa, og skyldi þá ekki geta verið, úr því að skrökvað er um svona augljósa hluti, að eitthvað sé málum blandað víðar?

Ég hafði hugsað mér að svara hér nokkrum orðum hinum fimm ræðum ráðherranna í gær. En ég verð að segja, þegar ég lít í huganum á þessar ræður, þá sé ég þar ekki standa stein yfir steini, nema í ræðu hæstv. fjmrh. Hæstv. forsrh. varði sínum 27 mínutum til þess að endurtaka í sífellu með dálítið breyttum orðum og sívaxandi raddstyrk og ósköpum andmæli sín og hneykslun yfir einhverju voðalegu þingmannaverkfalli, sem stæði fyrir dyrum. Hann nefndi sí og æ hv. 3. þm. Reykv., formann Dagsbrúnar og formann verkamálaráðsins. Ég veit ekki, hve oft hann las upp þennan langa titil, en ég taldi það tuttugu sinnum. Og svo komst hann í þessu draumarugli út í samúðarverkfall líka og virtist vilja biðja okkur sjálfstæðismenn að gera nú ekki stj. neinn óleik á þessu þingi. Ég verð nú að segja, að mér er ekki kunnugt um þetta þingmannaverkfall. En mér er kunnugt um eitt þingverkfall, og það var gert af þessum sama forsrh. í fyrra. Þá gerði hann sér hægt um hönd og rak allt þingið frá störfum og bannaði þingmönnum að inna af hendi þá frumstæðustu skyldu sína, eins og hann myndi orða það, að fylgja stjórnarskrá landsins og afgreiða fjárlög. Og svo kemur þessi sami ráðh. og er að krossa sig hér og tala um verkföll og samúðarverkföll, af því að hann grunar, að einhverjir þm. muni ætla að fella einhver frv. fyrir stj. Hann, sem rak allt þingið burt í fyrra frá öllum störfum! Þetta kalla ég brjóstheilindi, og fáir munu hirða um hans skoðun á þessu.

Þá minntist hann á viðburðina, sem gerðust hér í fyrra um þetta leyti. Kom það í ljós í ræðu hans, að hann hefir þá verið afskaplega hræddur. Það var eins og honum fyndist það eitthvað afarmerkilegt, að hann skyldi ekki mega reka þingið burt án þess að því væri mótmælt. En það verð ég að segja, að mér fannst hann játa bera óþarflega mikið á hrollinum, sem er í honum nú, þegar afmælisdagur þingrofsins nálgast. Það er sagt, sennilega í gamni, að það sé nú verið að smíða nokkur hundruð eikarkylfur til þess að berja á Reykvíkingum, ef þeir skyldu taka upp aftur þann leiða ósið að hefja mótmæli og biðja um fullan kosningarrétt. Hann vill kannske feta í fótspor rússnesku lögreglunnar sællar minningar, sem skaut á mannfjöldann fyrir framan vetrarhöll keisarans í Pétursborg. Nei, æsingarnar herna í Reykjavík í fyrra voru sannarlega ekki um skör fram eftir málefni, þó að nokkur þúsund stilltra borgara gengju hér um göturnar. Og það er alveg óparft af hæstv. forsrh. að vera nú að rifja þá atburði upp og egna menn til frekari aðgerða — þó að ráðh. aldrei nema kunni að treysta sínum eikarkylfum og stálhjálmum.

Hæstv. dómsmrh. þarf ekki að svara. Þó að hann læsi hér upp gamla Íslandsbankareikninga, þá býst ég ekki við, að menn hafi fundið samhengið milli þeirra og fjárstjórnar ríkisins á síðustu árum. Hann var að segja frá, að Copland og Stefán Th., sem hann svo kallar, hefðu orðið gjaldþrota. Ræða hans minnti helzt á skopvísuna um hafnaringeniörinn, sem mældi út og mátaði upp á hár,

að höfnin okkar hefði ekki hreyfzt

í þúsund ár.

En eitt atriði verð ég að minna á. Hann gerði mér þann heiður að nefna mig í sambandi við grein, sem ég skrifaði um uppsögn ritsímasamningsins við Mikla norræna ritsímafélagið. Sú hneykslissaga er nú alkunn, en skal einhverntíma verða enn betur kunn, sagan af því, hvernig íslenzka stj. lá hundflöt frammi fyrir Svensson, forstjóra þessa milljónafélags, og varð að biðja um náð og miskunn, af því öllum peningum var eytt og ekki hægt að losna af klafanum. Þetta um mig gerði nú ekki mikið til. En svo flutti hann miklu verra um látinn mann, Gísla Ólafson landssímastjóra, sem hafði undirbúið þetta mál. Það hefði leitt til 200–300 þús. kr. sparnaðar á ári, og fé hafði hann útvegað með ágætum kjörum. hennan mann lét hæstv. ráðh. sér sæma að óvirða og baknaga í gröfinni, og öfunda ég hann ekki af því frægðarorði. Gísli Ólafson var einn af allra ástsælustu og inndælustu mönnum og framúrskarandi röskur og samvizkusamur embættismaður. En hann fékk landssímastjórastöðuna móti vilja dómsmrh., og það var syndin, sem ekki má fyrirgefa. Þess vegna leggst nú ráðh. á náinn og eys ósönnum óvirðingarorðum á þennan látna ágætismann. Ég á ekki um þetta önnur orð sterkari en að segja: Það var dómsmrh. og engum öðrum líkt.

Svar mitt til hæstv. fjmrh. verð ég að láta bíða, þar til ég tek til máls næst. Ég ætla nú ekki að verja þessum mínútum til þess að rifja upp að neinum verulegum mun hinar gömlu syndir. Meginafbrot stj. er að mínu viti fjármálasukkið. Það er hörmulegt til þess að vita, að allt viðreisnarstarf áranna 1924–27, sem unnið var af svo mikilli óserhlífni af hendi þeirra, sem hinar þungu byrðar báru, og með svo mikilli skapfestu og viturleik af þeim, sem með það fóru, það er hörmulegt, átakanlegt, grátlegt, að allt þetta starf skuli vera gersamlega þurrkað út og miklu meira en það. Skuldirnar eru komnar langt upp fyrir það, sem áður var, skattarnir stórum hækkaðir og ekki minnzt á annað í þeim efnum en ýja skatta og aukna skatta. Það var ódæmi, að eftir allra mestu góðæri til lands og sjávar, sem yfir þetta land hafa gengið, skuli heimskreppa hitta þjóðina á barmi ríkisgjaldsþrots. Fyrir heimskulega og óráðvandlega meðferð opinbers fjár er þjóðin nú orðin það fátækust og bágast stödd, sem hún hefir nokkru sinni orðið síðan hún fékk sjálfstæði, og síðasta ár, eitthvert inndælasta ár að allskonar árgæzku, allt snýst upp í hörðustu kreppu og vandræði fyrir óvit þeirra, sem þjóðin hefir falið forustuna. Það má segja um illa stjórn svipað og gert var um Attila Húnakonung, að þar, sem hestur hans sté fæti niður, greri aldrei gras framar. Ég vildi óska, að þið, góðir landsmenn, mættuð sjá sporin stjórnarinnar eins skýrt og við gerum hér í Reykjavík, þá mundi ykkur ekki langa til, að þau yrðu mörg hér eftir. En þó að nú blasi átakanlegast við manni fjármálarústirnar, þá eru það svo sem ekki einu sorglegu minnisvarðarnir, sem marka feril þessarar stjórnar. Það eina, sem kemur í veg fyrir, að ég lýsi því hér, er sú staðreynd, að þetta er orðið öllum lýðum ljóst. Það dettur engum lengur í hug að halda, að dómsmrh. okkar geri það, sem rétt er, heldur ævinlega það, sem hann telur vænlegast fyrir sjálfan sig og flokkinn. Það dettur engum lengur í hug, að embætti í opinberar stöður sé veitt eftir verðleikum. Það var einu sinni svo, en það er ekki lengur. Þetta lagast nú bráðum. En hitt lagast því miður ekki, að hugsunarhætti fjölda manns hefir verið umsnúið. Það er því miður svo komið, að kröfur um hinar fornu dyggðir réttsýni og skyldurækni í opinberum störfum eru stórum sljóvgaðar. Mennirnir eru svona gerðir, að þeir venjast öllu. Menn geta orðið samdauna öllu, og þetta er því miður einnig svo í andlegum efnum. Þetta er nú meginábyrgð þeirra, sem í æðstu stöðum eru. Þegar farið er að eins og stj. sú, sem undanfarið hefir ráðið ríkjum hér, að hafa opinbert velsæmi að engu, að verjast með því einu að endurtaka ósiðina í sífellu, svo að menn gefist upp á að eltast við þá, þá er með þessu athæfi svo mögnuðu eitri og ólyfjan seitlað út til fólksins, að það hreinsast ekki fyrr en eftir langan tíma. En ég ætla ekki að orðlengja um þetta. Ég hefi lýst stjórnarfarinu áður í útvarpið og ég hefi ekki heyrt neitt af því hrakið. Þó að margt hafi síðan skeð, þá er svipurinn sá sami.

En það er annað, sem ég ætla mér að gera dálítið að umtalsefni hér. Og það er sú staðreynd, að þessi óhæfa stj. situr nú í trássi við vilja mikils meiri hl. þjóðarinnar, eða mestum því tveggja þriðjunga allra kjósenda í landinu. Ef stj. hefði farið vel með völdin, ef hún hefði nú verið búin að brynja þjóðina með öðru en ósannindum og blekkingum, ef þessi stj. hefði brynjað þjóðina og búið undir kreppuna með því að halda áfram stefnunni frá 1924–27, ef hún hefði nú verið búin að borga skuldirnar og átt fé í sjóði, ef hún hefði getað komið fram nú og sagt við þjóðina: Nú steðjar að kreppa, nú skulum við lækka skatta, en verja samanspöruðu fé til atvinnubóta og heilbrigðra framkvæmda, sem sagt, ef stj. hefði farið að eins og ráðvandur og skynsamur ráðsmaður, þá býst ég ekki við, að raddirnar um breytingar hefðu orðið háværar. En þegar hún bætir því ofan á rangfengin völd, að hún fer illa með þau, þá getur ekki verið annars að vænta en að eigandinn heimti sitt, eða með öðrum orðum, að meirihl. þjóðarinnar heimti þau völd, sem hann á.

Um þetta mál hafa nú farið fram ýtarlegar umr. í dag og þeim verið útvarþað, en mér fannst þetta mál gnæfa svo hátt, að ekki sé hægt að ganga framhjá því hér á eldhúsdegi. Og vil ég þá byrja á því, sem einhverjum kann að koma á óvart, að það er stj. sjálf, sem byrjar þetta mál. En stj. hefir látlaust borið það út um borg og bý, að andstæðingar hennar hafi ætlað með einhverju skyndiáhlaupi að breyta kosningatilhöguninni.

En Alþingistíðindin segja annað. Við sláum upp í Alþt. 1931. Þar er m. a. stjórnarfrv. eitt, sem fer fram á breyting á kosningatilhöguninni, og það er frá forsætisráðherranum. Það er stjórnarskrárfrv., þar sem lagt er til, að landskjörið falli niður.

Nú er það þannig, eins og öllum landslýð er kunnugt, að landskjörið er eina brúin í kosningatilhöguninni hér á landi. Það er eina kosningin til Alþingis, þar sem kjósendur eru allir jafnréttháir. Gallinn á því er sá, að of fáir þm. eru kosnir þar í einu, til þess að kjósendaviljinn fai notið sín, en sjálf kosningin er hlutfallskosning og því alveg laukrétt eftir þingræðisreglum. Þetta kemur þá líka fram í því, að stjórnarflokkurinn, sem lifir af náð ranglátrar kosningatilhögunar, varð fyrir barðinu af landskjörinu. Réttlætið er ótrúlega erfiður andstæðingur. Þegar stjórna á með ranglæti, hljóta menn að meiða sig á hverjum anga, sem eftir er af réttlæti. Og hér rak nú réttlætið upp höfuðið í efri deild Alþingis. Það var svo sem ekki furða, þó að forsrh. sýndist hað ófrýnilegur selshaus og vildi berja hann niður í gólfið, eins og heimilismennirnir á Fróðá forðum. Það er æðinapurt örlaganna það, sem þessi stj. hefir orðið fyrir og það á margvíslegan hátt. Það er napurt háð í því, að hún skyldi hefja feril sinn með loforði um fækkun embætta og allskonar sparnað og skipa nefnd til að undirbúa fækkunina og sparnaðinn. Það er háð í því, að núv. dómsmrh. skyldi árum saman vera búinn að predika velsæmi í opinberum málum. Það er háð örlaganna í því, að hann skyldi skrifa bókina „Komandi ár“, þar sem hann predikar gegn því, sem hann hefir nú sjálfur gert, en með því, sem hann hefir barizt móti. Hann vildi láta Eimskipafélagið annast alla útgerð fyrir ríkið, en stj. hans verður fyrst til að taka þetta af Eimskipafélaginu. Hann vildi láta kjósa með hlutfallskosningu í stórum kjördæmum, en þegar hann var orðinn ráðh., varð þetta einhver stórkostlegasti pólitíski glæpurinn í hans augum, og á andstöðu gegn því komst hann inn í ráðherradóminn aftur. En naprasta háð örlaganna er það, að forsætisráðherrann, einmitt forsætisráðherrann, hann skyldi verða til þess að byrja baráttuna fyrir breyttri kosningatilhögun.

Auðvitað var það strax tekið fram af okkur andstæðingum stj., að ef afnema ætti landskjörið, yrði fleira að fylgja með. Og þar sem nú hefir verið komið á hlutfallskosningum, beinlínis og óbeinlínis, í öllum löndum, þar sem kosningalög eru komin í rétt horf, þá varð svarið eðlilega þetta: Við skulum afnema landskjörið, en þá verðum við líka að afnema það algerlega óeðlilega og dæmalausa bann, sem nú er í stjórnarskránni gegn hlutfallskosningum nema í Reykjavík. Slíkt bann þekkist hvergi á byggðu bóli nema hér á Íslandi, og hér komst það áreiðanlega inn í stjórnarskrána óvart í sambandi við landskjörið.

Með þessu var ekki einu sinni farið fram á að lögbjóða hlutfallskosningar. Það var yfirleitt ekki farið fram á að hrófla neitt við grundvelli kosningatilhögunarinnar. Öll ósköpin voru þau, að það var farið fram á, að stjskr. yrði í þessu efni eins og hún hafði verið frá upphafi og fram til 1917 og eins og hún er í þessu efni í öllum löndum, öðru en Íslandi. En hvað skeði? Það skeði ekkert annað en það, að konungsvaldinu, sem ekki er sérlega sterkt hér, var beitt til þess að reka þingmenn heim fyrirvaralaust og án þess að þeir gætu innt af hendi þá skýlausu skyldu sína samkv. stjskr. að ganga frá fjárlögum. Og út um landið var þeyst með þá tröllasögu, að nú væru sjálfstæðsmenn og sócíalistar búnir að sameina sig um það hermdarverk að leggja niður hin fornu kjördæmi. Og í þessum buslugangi var svo reynt að fela allar syndir stj. frá undanförnum árum. Og þetta tókst að nokkru leyti. Það mistókst að vísu að villa meiri hl. þjóðarinnar sýn. En það tókst að skrökva að nægilega mörgum til þess að hið úrelta kosningafyrirkomulag skilaði stjórnarflokknum í höfn með meiri hl. þingmanna. Þegar kjósendur á einum stað fá 4 þingmenn, þegar jafnmargir kjósendur annarsstaðar fá 15 þm., þá getur útkoman orðið nokkuð skrítin mynd af þjóðarviljanum í heild. Þegar 4900 framsóknarkjósendur í austurhluta landsins fá 10 þingmenn kosna, en nálega helmingi færri sjálfstæðiskjósendur í þessum sama hluta landsins fá engan þingmann, fer að verða skiljanlegt, að stjórnarflokkurinn geti sigrað, þó að málstaðurinn sé ekki vel hreinn. Þegar þriðjungur fólksins, sem er stjórnartrúar, fær 23 þm., en sem eru andstæðingar stj., fá ekki nema 19 þm., þá fer það að verða ónotalega líkt gamla fyrirkomulaginu, þegar stj. gat lafað á fylgi konungkjörinna þingmanna einna, þ. e. þingmanna, sem hún útnefndi sálf.

Stjórnin situr því í krafti eða réttara sagt kraftleysi eins þriðjungs þjóðarinnar, og það þess þriðjungsins, sem var lengst að atta sig á því, sem var að gerast. En ég veit, að nú hefir stj. ekki líkt því þennan þriðjung að baki sér, í þessu máli að minnsta kosti. Forsrh. sagði í gær, að hann bæri málið öruggur undir þjóðina. Það er ekki í fyrsta sinn, sem hann óvirðir þjóðina með því að treysta henni til þess að fylgja röngu máli. Það er svo margt komið í ljós síðan síðustu kosningar fóru fram og það hafa svo margir greindir og góðir menn fylgt stj. fram til síðustu kosninga, að það er ekki nema eðlilegt traust á dómgreind þeirra, að ég er viss um, að fjöldi hefir nú snúið baki við henni. Þetta má m. a. sjá hér í Reykjavík. Hér hafa nú á fáum dögum skrifað undir áskorun um að breyta kosningatilhöguninni í réttlátara horf fleiri kjósendur en þeir, sem greiddu atkv. við síðustu kosningar alls, og var þó sú kosning afarfast sótt af öllum flokkum. Þá átti stjórnin hér á 13. hundrað atkv., og það er því alveg augljóst, að mikill fjöldi þeirra hafi skrifað undir. Og í tveim stöðum, hér og í Hafnarfirði, hafa skrifað undir þessar áskoranir fast að því eins margir kjósendur eins og stj. átti yfirleitt um allt land við síðustu kosningar.

Hvað veldur breytingunni? Það veldur, sem ég sagði áðan, að síðan um seinustu kosningar hafa komið í ljós svo mikilvæg atriði, sem menn þá voru ekki búnir að átta sig á. Vil ég þar nefna fyrst fjárhagsástandið. Þó að við værum búnir að segja þetta fyrir löngu, t. d. fyrir landskjörið 1930, að allt væri að sökkva í skuldir, og svo í síðustu kosningabaráttu, þá var eins og einhver herfjötur væri á hugsun margra. En nú er það bert. Nú er hægt að þreifa á því. Nú verða allir að kannast við ósköpin, að eftir að sópað hefir verið inn í ríkissjóðinn góðærisgróða með hásköttum og lánum tugum milljóna umfram allt, sem áður hefir þurft, er ekki til grænn túskildingur, þegar kreppan skellur á. Hvað myndi bóndi gera við ráðsmann, sem hefði farið svona með hann? Hann hefði fengið honum nægan vinnukraft við heyskap, og svo hefði komið hver gæðaveturinn eftir annan, svo að eftir allri reynslu hefði átt að vera safnaðar geysilegar fyrningar, og ráðsmaðurinn hefði skrifað honum hvert bréfið eftir annað, heilar bækur um það, hve vel hann stjórnaði búinu. En svo kemur harður vetur. Bóndinn kemur til eftirlits, og þá er enginn heytugga nokkursstaðar. Ráðsmaðurinn hefir eytt heyinu öllu í sína eigin sauði og hlöðukálfa í gersamlegu óleyfi. Hvað halda menn nú, að bóndinn myndi gera við þennan ráðsmann? Halda menn, að hann mundi pakka honum fyrir tilskrifin og biðja hann að halda áfram að stjórna svona vel? En þetta er nákvæmlega það, sem menn um allt land hafa nú séð til ráðsmannsins á þjóðarbúinu. Og þetta hefir komið nú, síðan um seinustu kosningar.

Annað, sem komið hefir í ljós síðan, hefir þó ef til vill sært enn fleiri af fylgismönnum stj. og snúið hugum þeirra frá henni. Hæstv. forsrh. sagði, að nú hefði sannast, að sagan um samband sjálfstæðismanna og sósíalista um að afnema kjördæmin hefði verið sönn. En þetta er svo fjarri sanni, að hún hefir fullkomlega afsannazt með nál. sjálfstæðismanna í hv. Ed. En það hefir annað komið upp úr dúrnum, og það var sagan, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér um samningamakk Framsóknar við sócíalista um það að gefa þeim 2–3 þingsæti frá sjálfstæðismönnum. Fylgismönnum stj. hefir sárnað, þegar þeir hafa nú séð svart á hvítu, að það voru allt saman ósannindi, sem stj. og lið hennar bar út um landið til þess að þvo af sér þingrofshneykslið, þetta um sambandið milli sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna um að afnema hin sérstöku kjördæmi: Ég veit um góða og gilda framsóknarmenn, sem ekki geta fyrirgefið stj. þetta, að gera ómengaða skröksögu að meginkosninganúmeri, og ekki geta fyrirgefið sjálfum sér það, að þeir skyldu láta blekkjast af þessari skröksögu.

Ég vil svo víkja ofurlítið að því, hvað það er, sem er um barizt, því að á því veltur að miklu leyti, á hvern kemur þungi ábyrgðarinnar á því að láta nú samvinnu í þinginu stranda. Eru það nú einhverjar harðskeyttar kröfur — einhverjar einhliða kröfur? Þetta skulum við athuga dálítið nánar, til þess að sjá, hvort stj. hefir nokkra afsökun.

Málið, sem um er barizt, er stjórnarskrárfrv., þar sem farið er fram á, að Alþingi sé rétt mynd af vilja þjóðarinnar. Annað er það nú ekki. Það er ekki farið fram á að afhenda neitt vald frá einum til annars. Það er aðeins farið fram á það, að þegar þjóðin velur fulltrúa á Alþingi, þá komi vilji hennar sem bezt fram á þessari fulltrúasamkomu. Er nú hægt að hugsa sér nokkra kröfu eðlilegri, sanngjarnari og sjálfsagðari en þessa? Er mögulegt fyrir nokkurn mann að rísa upp og segja: Alþingi á ekki að vera rétt mynd af skoðunum þjóðarinnar? Er nokkur sá ódrengur eða heimskingi til, að hann vilji og geti kinnroðalaust haldið því fram, að kosningum skuli hagað þannig, að þjóðin vilji eitt, en fulltrúar þeir, sem hún velur, vilji annað, og þeir ráði? Það getur vel verið, að slíkir ódrengir séu til, því að það er misjafn sauður í mörgu fé. En eiga þeir að ráða — og dettur nokkrum í hug, að þeir fái að ráða?

Og ef svo er litið á það, hvernig sjálfstæðismenn hafa hugsað sér að koma þessu í framkvæmd, þá verður það sama uppi á teningnum, að allt hefir verið gert til þess að bjóða framrétta hönd til samkomulags. Stj. hefir alltaf látið svo sem hennar megináhugamál væri það, að hin einstöku kjördæmi heldu áfram að vera til og eiga sína sérstöku fulltrúa. Á þeim grundvelli var barizt við síðustu kosningar. Stjórnarliðið barðist þar á móti sinni eigin skröksögu um það, að við ætluðum að afnema hin sérstöku kjördæmi. Og nú er þetta einmitt boðið fram af okkar hálfu. Báðir fá eftir þessum till. það, sem þeir hafa lagt áherzluna á, við það meginatriði, að Alþ. verði rétt mynd af skoðunum landsmanna, og þeir það, sem þeir hafa sagt, að væri meginatriði, að hin sérstöku kjördæmi haldist. En þegar þetta er boðið fram, þá er það allt í einu orðið alveg óaðgengilegt og óhafandi. Og skín í þessu í úlfinn innan í sauðargærunni. Það var skröksaga um sjálfstæðismenn, að þeir vildu afnema kjördæmin — en það var líka skröksaga um stjórnarflokkinn, að hann bæri það fyrir brjósti að halda kjördæmunum. Þeim er umhugað um, að ranglætið haldist. Það er þetta, en ekki kjördæmaskiptingin, sem þeir bera fyrir brjósti. Það þýðir ekki fyrir hæstv. forsrh. að berja sér á brjóst og segja: Ég er ekki að hugsa um flokkinn minn. — En um hvað hugsar hann annað, eða hefir hugsað?

Og fyrir þetta forna þeir svo landsins heill. Á þessum voðalegu erfiðleika tímum, sem þeir eiga drýgstan þáttinn í að hafa leitt yfir þjóðina, forna þeir allri samvinnu við aðra flokka þingsins, fórna þeirri samvinnu, sem helzt gæti leitt til þess, að vandamálin yrðu leyst. Fyrir þetta láta þeir viku eftir viku af starfstíma þingsins fara í súginn, og málin komast nær ófærunni. Ég á bágt með að trúa því, að þeir rísi undir þeirri ábyrgð frekar en Kain gat risið undir synd sinni.

En sannast að segja trúi ég því ekki, að nokkur flokkur geri aðra eins óhæfu og þessa: Að láta fjárhagslega ógæfu og hrun atvinnuveganna dynja yfir þjóðina heldur en sleppa í hendur þjóðarinnar því valdi, sem hún á að hafa. Meðal annars trúi ég þessu ekki af því, að þetta er svo gersamlega vonlaus barátta. Eins og það þykir nú sjálfsagt, að menn kjósi, þó að þeir eigi ekki ákveðna fasteign, að konur kjósi og að engin forréttindi í þessum efnum fylgi aðli eða neinu slíku, eins sjálfsagt þykir þetta eftir örskamma stund, að menn hafi jafnmikil áhrif á gang málanna, hvaða stjórnmálaflokki, sem þeir fylgja. Spurningin er því aðeins um það, hve mikil nátttröll þeir vilja verða, þessir menn, sem kalla sig í háði framsóknarmenn, hvað mörg ár þeir vilja komast aftur úr straumnum áður en þeir steypast fyrir einhuga dómi þjóðarinnar.

Ég vil nú enda þessi orð mín með því að óska þess, þeirra vegna, að þeir vitkist sem fyrst, því að það er ákaflega hætt við, að eftir því sem þeir standa lengur á móti, því hærri verði dynkurinn þegar þeir detta.