31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

215. mál, millisíld úr búi Síldareinkasölu Íslands

Sveinn Ólafsson:

Mér þykir nokkur vandi fyrir n. að taka við þessu frv. og gera því viðeigandi skil. Ég verð að segja, að mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að farið skuli fram á að veita einstöku skuldheimtumönnum í þrotabúi Síldareinkasölu Íslands forréttindi fram yfir aðra skuldheimtumenn. En það er það, sem fyrst og fremst liggur í frv. þessu.

Nú er ég ekki svo vel kunnur högum síldareinkasölunnar eða viðskiptum hennar við einstaka menn og félög til og frá á landinu, að ég geti gert grein fyrir því, hve samþ. þessa frv. myndi hafa mikil áhrif á aðrar skuldakröfur eða reynast ranglatt gagnvart þeim. En þess verð ég að geta, að eftir því sem ég bezt veit, mun síldareinkasalan eiga ógreidda bæði millisíld og sumarsíld frá Austfjörðum, — ekki einungis síldina sjálfa, heldur einnig umbúðirnar, því að á Austfjörðum hafa ýmsir þurft að afla sér umbúða að mestu sjálfir. Einkasalan hefir ekki tekið við Austfjarðasíld til söltunar eða verkunar. Mér finnst því viðurhlutamikið að samþ. slíka ráðstöfun sem þessa og gefa á þann hátt einstökum skuldheimtumönnum forréttindi á kostnað annara.

Þessi orð mín má skoða eins og fyrirboða þess, hvernig ég mun snúast við málinu, ef það kemur til sjútvn. Mér þykir frv. tortryggilegt í þessum búningi og vænti, að hv. flm. átti sig á því að hér er um óeðlilega kröfu að ræða.

Skal ég svo ekki tefja frekar umr. að sinni.