06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Baldvinsson:

Það var gott, að hv. 1. landsk. hafði ekkert annað til þess að afsaka sig með heldur en eitthvert einkasamtal, sem hann hefði átt við menn úr Alþýðuflokknum. Þegar ég talaði áður, fór ég ekki inn á neitt annað en það, sem var opinbert í málinu, og það, sem sagt hefir verið á þingi og í blöðunum. En hv. 1. landsk. fór að draga hér inn í umr. samræður, sem höfðu orðið milli hv. 1. þm. Reykv. og hans annarsvegar og mín og hv. 3. þm. Reykv. hinsvegar. (JónÞ: Og ég er þakklátur fyrir tilefnið). Ég vil leyfa mér að spyrja hv. 1. landsk., hvort hann óski þess, að allar þær umr., sem orðið hafa manna á milli í þinginu út af þessu máli, verði birtar hér? (JónÞ: Ég veit ekki um þær allar.). Að því leyti þá, sem hv. þm. veit um þær. En ég get gjarnan tekið það fram, að við Alþýðuflokksmenn ætlum okkur að halda fram kröfunum í þessu máli, þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi bilað. Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að við munum alltaf halda fram þessum kröfum, og raunar var það ekki annað, sem hann vitnaði til úr viðtalinu við okkur Héðinn Valdimarsson en það, að við myndum ekki bregðast þessu máli. Spurningin, sem lá fyrir af hendi hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. landsk., getur, eftir orðum hv. þm., hafa verið á þessa leið: Ætlið þið að svíkja í kjördæmamálinu, þótt við svíkjum?

Ég mótmæli því sem alröngu, að ég hafi gert nokkurt það tilboð, sem sé lægra en þær kröfur, sem við höfum farið fram á. En ég ætla að benda hv. 1. landsk. á möguleika, sem lá fyrir í vetur út úr þessu máli, og sem ég einnig átti einkasamtal við hann um. Það var um frestun þingsins. Hv. hm. man e. t. v. eftir því, að hann skýrði mér frá því, að uppi væri ósk hjá Framsóknarmönnum um að fresta þinginu, þangað til seinna í sumar, t. d. til ágústmanaðar. Til þess gátu verið margar ástæður. M. a. óvissan um utanríkismálin. Ég sagði hv. þm., að ég væri þessu alls ekki fráhverfur og gæti trúað, að það gæti bjargað kjördæmamálinu. Og ég held, að þetta hafi verið leið, sem hefði mátt fara an þess að hv. 1. landsk. hefði þurft að taka upp krítina og skrifa hjá Framsóknarflokknum öll tekjufrv. til næsta árs, því að hefði þinginu verið frestað, þá hefði mátt halda fjárl. og tekjuaukafrv. ósamþykktum, en framsóknarmönnum hefði gefizt tækifæri til þess að fara heim til sinna kjósenda. Og ég skil það vel, að ýmsum framsóknarmönnum þyki nauðsyn til slíkrar farar, til þess að friðmælast, jafnvel þegar eftir það frv., sem þeir hafa nú boðið, eftir umtal þeirra við kosningarnar í fyrra. En sérstakl. væri þó ástæða til heimfarar, ef þeir hefðu þurft að ganga inn á kröfur Alþýðufl. og Sjálfstæðisfl. í kjördæmamálinu. Þá gat sannarlega verið réttmæt ástæða til að fara heim og sannfæra kjósendur sína um, að þeir hefðu haldið fram röngu máli í fyrra, og óverjandi væri að ganga nú ekki að réttlátri kjördæmaskipun. — Ég er ekki frá því, að þessi leið hefði e. t. v. verið fær.

Ég get ekki annað en vitnað ofurlítið í það, sem sjálfstæðismenn hafa sagt um tryggingarnar fyrir framgangi þessa máls og hve litlar og veikar þær eru og lítilfjörlegt allt það, sem þeir hyggja þennan frest á. Því er bezt lýst með því, sem hv. hm. G.-K. sagði í ræðu á fundi hér um daginn og var eitthvað á þá leið, að honum (ÓTh) hefði Magnús Guðmundsson sagt, að Ásgeir Ásgeirsson hefði sagt sér frá einhverju, sem þó ekki mætti segja. (JakM: Er þetta eftir Alþýðublaðinu?). Þetta eru umæli Ólafs Thors á fundi í barnaskólaportinu. Þannig er nú tryggingin. Hv. 1. þm. Reykv. hefir verið ákaflega harður í þessu máli og í einkasamtölum, sem ég ætla ekki að fara út í, hefir ekki skort yfirlýsingarnar. Í blaði sínu hefir hann einnig verið mjög harðorður, og 25. maí síðastl. segir hann svo: „Stjórnin mun nú loks komin að raun um, að andstæðingum hennar sé full alvara í kjördæmamálinu. Fjárlög fást ekki samþ. nema stjórnarskrármálinu sé ráðið til lykta að vilja andstöðuflokkanna. Og sama máli gegnir um tekjuaukafrv., svo sem gengisviðauka, verðtoll o. fl.“.

Þetta var nú 25. maí. Hv. þm. var full alvara þá, — en hvað er nú langt síðan? Einnig sagði hv. 1. þm. Reykv. í Vísi 22. maí: „Málstaður stjórnarliðsins er vonlaus, en andstæðingunum er sigurinn vís, ef þeir gæta þess að játa áhuga sinn fyrir því, að réttlætið nái fram að ganga, eflast með hverjum degi, unz fullnaðarsigur er unninn“. (JónÞ: Heyr! ). Nú hefir áhugi hv. 1. þm. Reykv. eflzt svo mjög (JakM: Ég er ekki þarna uppi á pöllunum.) að hann hefir slegið málinu á frest, gegn algerlega ófullnægjandi yfirlýsingum um framgang þess.

Sami snúningurinn, sem orðið hefir hjá þingflokknum, hefir og orðið hjá blöðum Sjálfstæðisfl. Í blaði hv. l. þm. Reykv. eru það nú kölluð „læti“ í jafnaðarmönnum, þegar þeir eru að halda fram sömu kröfum og hv. 1. þm. Reykv. hefir áður haldið fram. Það er nú kallað „þrái“, „stífni“ og „stórlæti“ að halda fram því, sem í allan vetur og síðast fyrir nokkrum dögum var í blaði þm. (JakM) kallað „réttlætismálið mikla“. Mætti mörg ummæli til tína, ef þurfa hætti til að sýna snúninginn.

Það er því hægt að slá því föstu, að Sjálfstæðisflokkurinn hefir breytt um stefnu í þessu máli. Hann hefir algerlega brugðizt sínum yfirlýsingum, sem hann hefir gefið kjósendum og borið fram á þessu þingi og haldið á lofti í blöðunum. Allt þetta hefir hann svikið með því að slá málinu á frest á svo óákveðinn hátt eins og hann hefir gert.