13.04.1932
Efri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

365. mál, eftirlit með skipum og bátum

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv. Þetta er flutt að tilmælum hæstv. forsrh., og ástæðuna til þess, að það er fram komið, er að finna í grg. frv., en hún er sú, að árið 1929 var alþjóðafundur haldinn í Lundúnum til þess að koma á samningum um öryggi mannslífa á sjónum og aðrar ráðstafanir viðvíkjandi siglingamálum þjóðanna. Af þessum samningi hefir það leitt, að fjölmargar siglingaþjóðir hafa samþ. hann og staðfest. Það var leitað til íslenzku stjórnarinnar um þátttöku í þessum samningi, og stjórnin svaraði því tilboði játandi. En til þess að þetta megi verða, þarf að samræma siglingalög okkar við siglingalöggjöf annara þjóða, er að þessu standa. En þessar breyt. eru örfáar, af því að siglingalöggjöf okkar er ekki gömul. Þetta frv. er því aðeins samræming á siglingalöggjöfinni, í tilefni af þessum samningi, sem gerður var í London 1929, og ætlazt er til, að íslenzka ríkið verði aðili að, og í framhaldi af því var annar samningur gerður í London 1930, um hleðslumerki skíða o. fl., og er einnig ráðgert, að Ísland verði þar samningsaðili.

Ég geri ráð fyrir því, að þó að þetta frv. sé ekki fjölþætt, þá ætti að vísa því til n., og þó það eigi að efni til heima í sjútvn., þá sé fullt svo eðlilegt, að það fari til allshn., vegna þessara samræmisatriða, sem sérstaklega snerta hina lögfræðilegu hlið málsins. Ég legg því til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til allshn.