06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Jónsson:

Mér þykir það ekki nema að líkum, þó að hv. 2. landsk. hafi gaman af að tala hér í þinglokin um það mál, sem búið er að taka upp jafnmikinn tíma og tefja jafnmikið fyrir framgangi aðalmála þingsins eins og þetta mál hefir gert, sem hann hefir nú gert að umtalsefni. Ég mun ekkert blanda mér inn í þá ádeilu, sem hann var hér með á félaga sína, hv. sjálfstæðismenn, en ég vil víkja örfáum orðum að eitthvað tveimur setningum, sem komu fram í ræðu hans

Hv. þm. sagði, að það væri ekki nema eðlilegt, að við Framsóknarmenn þyrftum að friðmælast við kjósendur okkar út af því, að nú værum við á leiðinni að hlaupa frá einhverju, sem við hefðum haldið fram í kosningunum í fyrra. Ég get sagt hv. þm. það, að framsóknarmenn líta ekki svo á, hvorki ég né aðrir, að þingflokkur Framsóknar þurfi að neinu leyti að friðmælast við kjósendur sína; það er öðru nær en að svo sé. Í fyrra heldum við framsóknarmenn því fram, að núv. sveitakjördæmi ættu að haldast framvegis, og að við vildum beita okkur fyrir því, að þau héldust framvegis eins og þau hafa verið. Í öðru lagi vildum við heita okkur fyrir því, að áhrifavald sveitanna rýrnaði sem minnst frá því, sem það er nú og hefir verið að undanförnu. Þetta er það, sem við sögðum kjósendum okkar í fyrra, og ég get fullyrt, að þessu hvortveggja höfum við haldið eindregið fram á þessu þingi, og við erum ekki líklegir til að hvika frá þessu.

Nú er svo komið, að enginn ágreiningur er lengur milli flokkanna um að halda núv. kjördæmum, og ég fyrir mitt leyti eygi hann möguleika, sem Framsóknarflokkurinn beitir sér að sjálfsögðu öflugast fyrir, að áhrifavald sveitanna rýrni lítið frá því, sem nú er, í hlutfalli við aðra staði landsins. Þess vegna held ég, að það sé engin ástaeða fyrir okkur til að friðmælast við kjósendur okkar út af framkomu okkar í þessu máli. Við höfum starfað þar í fullu samræmi við það, sem við höfum haldið fram áður. Annað mál er það, og því höfum við aldrei borið á móti, að kjördæmaskipunarmálið þyrfti að leysa og gera einhverjar umbætur á þeim lögum, sem nú gilda þar um. Við höfum engin loforð gefið á þingi um þá hluti, hvorki flokkurinn í heild sinni né einstakir þm. innan hans. En vitanlega þarf að leysa málið, og ég þykist eygja möguleika til þess, svo að ég hygg, að því megi treysta, að málið verði leyst nú á næstu árum. (JBald: Næstu árum?). Já, næstu árum, því að jafnvel þótt stjórnarskrárbreyting yrði samþ. á næsta þingi, þá verða kosningar að fara fram áður en málið er að fullu leyst, og er því engin fjarstæða að tala um fleiri en eitt ár.

Ég vil láta það koma skýrt fram, að Framsóknarflokkurinn heldur fast við þessi tvö atriði, sem ég áðan minntist á, en að því leyti sem breytingar á stjskr. og kosningalögum gætu samrýmzt við þetta, þá álit ég það vel farið og vona, að það takist svo, að vel megi við una.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 2. þm. Árn sagði. Hann var eitthvað að gefa í skyn eftir ummælum hv. 1. landsk., að það stæði til að sprengja Framsóknarflokkinn. Ég get sagt fyrir mig, að mér er ekki kunnugt um neitt í þá átt. Þær aðdróttanir, sem hann var með til hæstv. forsrh., eru með öllu ástæðulausar. Hæstv. ráðh. er á engan hatt í ósamræmi við þingflokkinn. Flokkurinn hefir sýnt honum það mesta traust, sem hann hefir sýnt nokkrum manni á þessu þingi, þar sem hann einróma fól honum að mynda ráðuneyti. Er þar með sýnt, að flokkurinn trúir honum fullkomlega og gerir ekki ráð fyrir, að hann sitji á svikráðum við flokkinn eða hugsi sér að sprengja hann. Flokkurinn veit, að það er hin mesta fjarstæða, að nokkur sviksemi búi hér á bak við.

Að endingu skal ég geta þess um þá möguleika, sem ég sagðist eygja til að leysa þetta mál svo, að allir megi vel við una, að þeir eru einmitt þannig vaxnir, að Framsóknarflokkurinn álítur, að hann geti vel sætt sig við þá.