06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

1. mál, fjárlög 1933

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mér er sagt, að hv. 2. þm. Árn. hafi borið fram þá fyrirspurn, hvort ég hafi samið um það við sjálfstæðismenn að sprengja Framsóknarflokkinn. (MT: Ég beindi því að gefnu tilefni til hv. l. landsk., hvort hann vildi gefa þetta í skyn). Fyrirspurnin er mér þó talsvert viðkomandi, svo að það er ekki undarlegt, þó að ég vilji gefa henni mitt svar.

Hv. þm. er vorkunn, þó að hann heri fram slíka fyrirspurn, vegna þess að hann hefir aldrei komið á flokksfundi í vetur og hefir með því gert sína litlu tilraun til að sprengja flokkinn. Af þessu mun ókunnugleiki hans á þessu máli stafa. Annars get ég sagt honum það, þar sem hann er svo ófróður um þá hluti, sem gerzt hafa, að mér var upphaflega falið af Framsóknarflokknum að mynda flokksstjórn með heim hætti, að jafnframt fengist lausn nauðsynjamála. Þetta mistókst. Síðan var mér falið af miklum meiri hluta flokks og án mótmæla að mynda samsteypustjórn með sjálfstæðismönnum. Ég tók það að mér, þó að ég hefði mínar efasemdir í þessu sambandi um það, hvort mönnum væri almennt ljós sú nauðsyn að mynda samsteypustjórn, en án þess að almenningur finni nauðsynina getur slík ráðstöfun ekki orðið að fullu gagni. Ég þykist sjá fyrir, að ástæðurnar verði svo erfiðar, að slíkt samstarf milli þingflokkanna verði óhjákvæmilegt, en ég var hræddur um, að sú nauðsyn væri ekki orðin svo heyrum kunnug ennþá, að það væri fulltraustur grundvöllur fyrir samsteypustjórn. En mikill meiri hl. míns flokks virtist vera þeirrar skoðunar, að ástandið væri orðið slíkt, að full ástæða væri til aukins samstarfs með þingflokkunum. Að þeirri ályktun fenginni tók ég að mér að reyna að mynda samsteypustjórn, og það tókst.

Það, sem ég hefi gert, er það eitt, sem Framsóknarflokkurinn hefir skorað á mig að gera. En hv. 2. þm. Arn. hefir staðið fyrir utan þessar ráðagerðir og ákvarðanir síns flokks, sem hann þó telur sig til, á sama hátt og hann var utangátta, þegar greidd voru atkv. um vantrauststill. í gær.