06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Þorláksson:

Það gladdi mig að heyra það, að hv. 2. landsk. skyldi neita þeim orðrómi, sem ég hefi getið um, að á hann hafi fallið, að hann hafi á þessu þingi gengið að mjög miklum afslætti frá réttlætiskröfunni. Ég tók það fram, að ég hefði engan trúnað á það lagt, og það gladdi mig, þegar ég heyrði, að það hugboð mitt var rétt.

Ég vil leiða athygli hv. þm. að því, að þegar hann er að ámæla Sjálfstæðisflokknum fyrir, að hann hefir ekki látið kjördæmamálið ganga fram á þessu þingi, þá vekur hann með þeim ámælum grun um það, að hann hafi nú ekki verið alveg heill í málinu sjálfur, því allir landsmenn vita, að engir möguleikar voru til að láta málið ganga fram á þessu þingi, nema þá með verulegum afslætti af réttlætiskröfunni. þegar hann því er að ámæla sjálfstæðismönnum fyrir, að þeir hafi ekki gert þetta, þá get ég sagt honum, að þrátt fyrir sína yfirlýsingu, sem ég trúi fyllilega, þá vekur það þó þann grun, að sjálfur hafi hann viljað vinna það, sem þurfti til þess að afgr. málið á þessu þingi, en það var, eins og allir vita, ekki hægt nema með afslætti. Hv. þm. veit það vel, að því er snertir þetta mál nú, þá lá aðeins tvennt fyrir, og hvorttveggja fól í sér frestun á málinu til næsta þings. Annað var að knýja fram þingrof og kosningar, hitt var að láta málið líða kosningalaust í örmum þessarar stjórnar. Ég veit vel, að flokkur hv. 2. landsk. vildi heldur þann kostinn, sem tekinn var. Ég veit það vel, að kosningum óskaði hann ekki eftir. Hann sá það eins vel og hinir flokkarnir, að kosningar gátu ekki skorið úr um þetta mál. Það gat engin höfuðbreyting orðið á afstöðu þingsins til þess.

En hv. þm. orðaði í seinni ræðu sinni einn möguleika til, en það var frestun á þinginu. Það er rétt, ég minntist ekki á þetta atriði áðan, af því að ekkert tilefni var til þess. Áður en við gengum að því að velja mann í samsteypustjórnina, en láta kosningar ekki fara fram, þá fórum við þess á leit, að stj. leti sér nægja að fresta þinginu og málinu yrði svo framgengt, en það var engin leið til að fá það. Það hefði verið hægt að fá frestinn tilgangslaust eins og kunnugt er, í höndum fyrrv. stj., sem alls ekki vildi beita sér fyrir afgreiðslu málsins og engin loforð vildi gefa í þá átt. Þessi leið var því ekki farin, eða réttara sagt, hún var ekki fær eða fáanleg.

Það hefir þess vegna ekki við nein rök að styðjast, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi breytt um stefnu eða brugðizt þessu máli með því að slá því á frest til næsta þings, af því fyrst og fremst, að það er ekki Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefir ráðið þessum fresti til næsta þings, heldur er það Framsóknarflokkurinn einn. Að við höfum ekki breytt um stefnu eða brugðizt málinu, það höfum við einmitt sýnt með því að vilja ekki ganga inn á neinn afslátt frá réttlætiskröfunni til að fá málið leyst á þessu þingi, og ég vanti, þegar hv. þm. hefir áttað sig á þessu, að þá hætti hann að ámæla Sjálfstæðisflokknum fyrir það, að hann vildi ekki vinna það til afgreiðslu málsins á þessu þingi að slá af kröfunum. Ég er viss um, að hv. þm. er fullkomlega sannfærður um það í hjarta sínu, að það hefði ekki átt að gera.