30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Við jafnaðarmenn fluttum hér snemma þings frv. um breyt. á þessum lögum, sem ég ætla, að hafi verið vísað til menntmn: Það hefir ekkert bolað á nál. um það frv., og ég hygg, að það sé ætlun n. að láta þetta ómerkilega frv. koma í staðinn.

Á þskj. 588 flyt ég brtt. við frv. Þetta. Efni hennar er það, að þeir kennarar, sem ekki njóta nú húsaleigufjár, skuli fá það, 50% af leigu eftir meðalíbúð.

Ég verð að segja það, að fyrir menn, sem líta sömu augum á kjör kennaranna og hv. frsm. gerði, er það nánast sagt að gera gys að þeim að flytja annað eins frv. og hann mælti fyrir. Ég hygg, að þessi uppbót komi ekki öðrum kennurum til góða en þeim, sem eru í Rvík. Í mínu kjördæmi er starfsmönnum bæjarins engin staðaruppbót greidd, ekki heldur á Ísafirði, og ég hygg, að það sé eins um Akureyri. Hún mun hvergi vera greidd nema í Rvík, og á þeim eina stað njóta kennarar því þessarar uppbótar.

Ég leyfi mér strax við þessa umr. að benda hv. n. á þessa brtt. mína og það, að samkv. till. hennar kemur þessi uppbót engum til góða nema kennurum í Rvík.