30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég býst við, að ef hv. 4. þm. Reykv. vill gera kerfið minna og draga á hann hátt úr kostnaðinum, þá sé ekki til nema eitt ráð til þess, sem er einhlítt, en það er að draga úr barneignum — stemma á at ósi. Önnur ráð eru ekki til. Þau börn, sem á annað borð fæðast og alast upp, verða að fá kennslu. Og hana fá þau ekki á annan ódýrari hátt en þann, sem nú er.

Kennararnir eru starfsmenn bæjanna. Þótt þeir fái ákveðin lágmarkslaun og partur af þeim komi úr ríkissjóði, þá er sá hluti launanna greiddur í einu lagi til bæjargjaldkera og er því styrkur til bæjanna, sem að vísu er bundinn við þetta starf. Þetta eru aðeins lágmarkslaun. Það má ekki greiða kennurunum minna en þau. En það má greiða þeim meira, en þá kemur umframgreiðslan eingöngu á bæina. Aldursuppbótin er öll greidd úr ríkissjóði. Er það gert til þess að sveitareða bæjarfélögin þurfi ekki að vera að athuga það í sambandi við ráðningu kennara, hvort hann hafi kennt lengi eða stutt. Gæti það orðið til baga fyrir þá kennara, sem lengi hafa stundað kennslu. Þetta er eina ástæðan fyrir því, að ríkissjóður greiðir allar aldursuppbætur barnakennara. Hitt þótti öllu vafasamara, þegar l. voru gerð, hvort ríkissjóður ætti að greiða alla dýrtíðaruppbótina. En af því búizt var þá við, að dýrtíðaruppbót stæði ekki lengi í lögum, þá var ákveðið, að hún greiddist öll úr ríkissjóði. Var það því gert af þessari ástæðu og af hlífð við bæjarfélögin, í stað þess, að ríkissjóður greiddi dýrtíðaruppbótina í samræmi við launin, eða aðeins að 1/3. Svo er talað um, að hér sé verið með hótanir. Þegar ríkissjóður hefir tekið á sig 2/3 af uppbótargreiðslunni, þá er kallað, að Alþ. sé með hótanir til þeirra bæjarfélaga, sem greiða hærri dýrtíðaruppbót en ríkið. Þegar svo er gert, þá er ekki hægt að láta vera út undan fjölmenna stétt manna. Ég vil segja, að ekki verður komizt hjá að greiða staðaruppbætur þar, sem dýrara er að lifa en annarsstaðar, og hana verða bæjarfélögin að greiða starfsmönnum sínum. Þetta er vísir að því, að vísu lítill, en þó eingöngu slíkur vísir. Þetta hefir verið framkvæmt við og hefir þótt nauðsynleg ráðstöfun og hvergi verið litið á slíkt sem hótun. Ég hefi átt tal við nokkra bæjarfulltrúa hér um þetta, og það menn af öllum flokkum. Hafa þeir verið þessu máli velviljaðir og telja nauðsynlegt, að þingið leggi úrskurð á, að bærinn eigi að greiða þetta. Ég hygg, að bæjarstj. taki þessu einmitt sem úrskurði, en ekki skipun, en hér stóð svo á, að þennan úrskurð varð að gefa.

Vænti ég, að þingið komist að sömu niðurstöðu og hv. menntmn., sem einhuga hefir lagt til, að frv. verði samþ.