30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. getur vitanlega sett um skringilegar setningar um það, hvernig draga eigi úr kennarafjöldanum, svo sem með því að fækka börnum. En hæstv. ráðh. er væntanlega svo sögufróður, að hann veit, að það er ekki svo ýkjalangt síðan séð var fyrir sæmilegri fræðslu barna án þess að hafa þann kennarafjölda, sem nú er. En ég var þó ekki að tala um þetta. Ég var að lýsa því, hve algengt það væri að setja upp kerfi, sem ekki væri vitað fyrirfram, hve mikið mundu kosta. Alþ. er oft og einatt að skrökva því að sjálfu sér, að þetta, sem sett er af stað, muni kosta svo og svo lítið, en reynslan vill oft verða nokkuð önnur, þegar farið er að starfrækja þessi kerfi. En það var ekki meining mín með þessum orðum að fara að gerast nokkurskonar Heródes barnamorðingi eða kennaramorðingi, eða þá að draga úr kerfinu.

Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ákvörðunin um, að ríkið borgi aldursuppbótina alla, er gerið vegna skólahéraðanna af þeim ástæðum, sem hann lýsti. En það er aldrei nema rétt, að þar sem ríkið ákveður slíkt, þá borgi það líka. En hitt væri þá ósamræmi, ef ríkið ákveður staðaruppbót, að láta greiðsluna alla lenda á heim fræðsluhéruðum, þar sem svo er ástatt, að rétt sé að veita staðaruppbót. Ég veit varla, hvar lenti, ef svo færi um alla starfsemi innan bæjarfélagsins, sem svo væri ástatt um. Ég er hræddur um, að erfitt gæti orðið með fjármál þess bæjar, ef Alþ. kæmi með kröfu um staðaruppbót fyrir alla þá opinbera starfsmenn, sem þar eiga heima. í Danmörku hefir staðaruppbót verið ákveðin og greidd, en að öllu leyti úr ríkissjóði. Miðlun á launum milli staða, eftir dýrleika að lifa þar, er réttmæt, en þá á líka hver stofnun að greiða sínum starfsmönnum þær uppbætur, sem af því leiðir.

Hæstv. fjmrh. fannst engin hótun liggja í þessu frv. Jú, í því liggur sit hótun, að ef eitt bæjarfélag er að derra sig og greiða starfsmönnum sínum hærri uppbót á laun en ríkið greiði, þá eigi það að bæta við sig uppbótargreiðslu á laun fjölda annara starfsmanna. Þetta er hótun, sem hæglega gæti leitt til þess, að bæjarfél. sæi sér ekki annað fært en að lækka uppbót á laun allra sinna starfsmanna, til þess að komast hjá þessu. Aðþrengt bæjarfélag getur trauðlega aukið útgjaldabyrðar sínar. Það á því ekki nema um tvennt að ræða, að taka upp dýrtíðaruppbót ríkisins, eða að lækka tölu kennara sinna. Þótt ég vilji gjarnan unna kennurunum hæfilegra launa, þá vil ég samt eigi, að tilraun til að bæta laun þeirra sé gerð á kostnað annara, svo niðurstaðan verði sú, að laun kennaranna hækki ekki neitt, en aðrir starfsmenn bæjanna tapi á þeirri tilraun.