03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég skal geta þess, að þessi brtt. mín er flutt eftir tilmælum barnakennara hér í Rvík og nokkurra utan af landi. Ég hygg, að ef meta skal dýrtíðina í kaupstöðum landsins, þá sé ekki hægt að finna sanngjarnari grundvöll heldur en húsaleiguna. Hitt er annað mál, að sumum kann að þykja of vel í lagt að miða þá uppbót, sem hér er um að ræða, við þriggja herbergja íbúð með eldhúsi. Það er atriði, sem lengi má deila um. En ég held, að tæplega sé hægt að gera ráð fyrir, að minni íbúð nægi þeim kennurum, sem fjölskyldu hafa fyrir að sjá. Nú telja sumir, að þó kennurum, sem fjölskyldu hafa, væri greitt þetta upp í húsaleigu þeirra, þá væri fjarri sanni, að einhleypir kennarar fengju sömu uppbót á laun sín. Þetta kann nú í fljótu bragði að virðast sanngjarnt. En eftir því, sem ég veit bezt, er hvergi gerður munur á launakjörum fjölskyldumanna og einhleypra manna. Ég viðurkenni, að ástæða væri til þess að taka það til athugunar, en yfirleitt eru laun manna enn sem komið er aldrei miðuð við slíkan aðstöðumun, og væri því ósanngjarnt að taka kennarana eina út úr í því efni. Þar að auki er nú oft fljótur að breytast hagur manna. Kennari, sem í fyrstu er einhleypur, getur allt í einu tekið upp á því að gifta sig og eignast börn.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ekki er hægt að finna sanngjarnari grundvöll undir launauppbót til þeirra kennara, sem till. mín nær til, heldur en húsaleiguna. En það eru kennarar við kaupstaðarbarnaskólana, sem hafa 1500 kr. kaup, og auk þess kennarar við fasta barnaskóla utan kaupstaða, sem taldir eru undir d-lið. Í 1. frá 1919 segir, að forstöðumenn barnaskóla utan kaupstaða skuli hafa ókeypis húsnæði, ljós og hita; eru þá aðeins eftir aðrir kennarar við þá skola, sem eiga að hafa 1300 kr. laun. Fyrir þá, sem ætlað er að hafa kennsluna að aðalstarfi, eru þetta svo lag laun, að ekki er við þau unandi. Og þó bætt væri við sem svarar hálfri húsaleigunni, sem þeir þurfa að greiða, þá væri að mínu áliti svo skammt gengið sem Alþ. framast getur sóma síns vegna.

Hv. þm. N.-Ísf. hélt fram, að það yrði aðeins til þess, að felld yrði niður dýrtíðaruppbót annara starfsmanna bæjanna, ef samþ. væri sú uppbót til kennara, sem hér er um að ræða. En ég vil benda á, að þetta nær ekki til till. minnar, því eftir henni á ekki að miða launauppbót kennara við dýrtíðaruppbót annara starfsmanna, heldur á að ákveða hana sem húsaleigustyrk.