14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Jón Jónsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. er flutt af menntmn. Nd. og fer fram á það, að gera þeim bæjarfélögum, sem hafa ákveðið að greiða starfsmönnum sínum hærri dýrtíðaruppbót á laun sín en ríkið greiðir sínum starfsmönnum, að skyldu, að þau skuli einnig greiða barnakennurum, sem hjá þeim starfa, mismuninn á dýrtíðaruppbót ríkisins og bæjarins. Þetta verður því einskonar staðaruppbót fyrir þessa kennara.

Eins og kunnugt er, eru barnakennarar í kaupstöðum mjög láglaunuð stétt, og þá sérstaklega í Rvík. Það er þess vegna ekki ósanngjarnt, að þeir njóti sömu hlunninda og aðrir starfsmenn bæjarins. En því hefir verið haldið fram í bæjarstj. Rvíkur, þar sem þetta aðallega kæmi til framkvæmda, — og það er orsökin til þess, að þetta frv. hefir verið flutt —, að bæjarstj. gæti ekki gert þetta, af því að kennararnir hefðu sín laun að mestu leyti frá ríkinu, og að þess var synjað að greiða kennurunum þessa uppbót, stafaði, að því er mér hefir skilizt, aðallega af því, að bæjarstj. taldi sig tæplega hafa lagaheimild til að greiða þetta.

Menntmn. þessarar hv. d. hefir athugað frv. og vill fyrir sitt leyti ekki spyrna við því, að það verði leitt í lög, og þar sem hún hefir ekki ástæðu til að halda annað en að bæjarfél. vilji gjarnan greiða þetta, sé það heimilt, vill hún mæla með því, að það standi ekki í vegi. Ef bæjarfél. ákveður að lækka sína dýrtíðaruppbót niður í sama og ríkið, kemur þetta vitanlega ekki til neins.

Þetta er ekki neinn útgjaldaliður fyrir ríkissjóð, enda er það sanngjarnt, að bæjarfélögin taki nokkurn þátt í launagreiðslum til þessara starfsmanna sinna, fyrir það, að það er dýrara að lifa hjá heim en annarsstaðar á landinu.

Ég vil geta þess, að einn nm. hafði í upphafi áskilið sér óbundið atkv. um frv., en hann mun nú hafa, við nánari athugun, ákveðið að fylgja því óbreyttu. Legg ég því til fyrir hönd n., að frv. verði samþ. óbreytt.