14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Jón Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vil geta þess út af orðum hv. 1. þm. Reykv. um að dýrtíðaruppbótin væri heldur of lág en hitt, að ég tók það fram í framsöguræðu minni, að ég vissi það vel, að þessir menn, eins og þjóðin öll, þyrftu að fá einhverskonar tekjuuppbót. Það er kunnugt, að atvinnuvegirnir bera sig illa og framleiðendurnir eru ekki eimt sinni matvinnungar, en það er bara ekki hægt að benda á neitt ráð til þess að auka tekjur almennings, og þá sýnist það ekki nema eðlilegt, að þessi almenna kreppa snerti þessa stétt manna eins og aðrar stéttir. Þess vegna vil ég ekki viðurkenna, að dýrtíðaruppbótin sé of lág, þegar litið er á kjör þessara manna í hlutfalli við kjör alls almennings. Hitt er annað mál, að æskilegt hefði verið að hækka laun almennings, og þessarar stéttar þá einnig, en á því eru engir möguleikar fyrir ríkið. Ef bæirnir hinsvegar treysta sér til að greiða hærri dýrtíðaruppbót sínum starfsmönnum, þá er ekkert við því að segja.