17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

557. mál, sjúkrasamlög

Frsm. (Pétur Magnússon):

Þetta frv. er borið fram af allshn. Nd. samkv. tilmælum frá stj. Sjúkrasamlags Rvíkur, og fylgdi frv. mjög ýtarleg grg. frá stj. sjúkrasamlagsins, ásamt bréfi frá landlækni um málið. Vil ég ekki þreyta hv. d. með því að fara að rekja hér efni frv., og tel það enda óþarft, því að nýmæli frv. eru skýrð mjög rækilega í grg. þeirri, sem frv. fylgir og ég gat um. Allshn. þessarar d. hefir athugað frv. og orðið sammála um afgreiðslu þess í öllum aðalatriðum, en greinir hinsvegar á um 1. gr. frv., sem gerir ráð fyrir því, að tillag ríkissjóðs til sjúkrasamlaganna verði hækkað allverulega frá því, sem nú er. Samkv. gildandi ákvæðum nemur tillag ríkissjóðs 75 aur. fyrir hvern samlagsmann, og er hér farið fram á að breyta þessu, svo að tillagið nemi 1,50 kr. fyrir hvern legudag. Verður að geta þess í þessu sambandi, að Sjúkrasamlag Rvíkur, sem er elzta og fjölmennasta sjúkrasamlag landsins, hefir komizt í mikla fjárhagsörðugleika, og er ástæðan aðallega sú, að með landsspítalanum var bætt úr þeim mikla skorti, sem áður var á sjúkrahúsum hér í bænum, og jukust útgjöld sjúkrasamlagsins vegna spítalavistar samlagsmanna gífurlega af þessum ástæðum, eftir að landsspítalinn var tekinn til starfa. Áður gátu hvorki meðlimir sjúkrasamlagsins né aðrir fengið spítalavist, nema þeim lægi lífið við og gera þyrfti á þeim operationir, sem enga bið þoldu, en ella urðu menn að bíða oft svo mán. skipti til þess að fái inni á sjúkrahúsunum. Eftir að landsspítalinn var kominn, varð sú mikla breyt. á þessu, að hægt var að flytja þá sjúklinga á spítala, sem ella hefðu orðið að liggja í heimahúsum, og fór spítalakostnaður sjúkrasamlagsins gífurlega upp af þessum ástæðum, eins og ég áður sagði, svo að ef ekki verður eitthvað að gert, er ekki útlit fyrir annað en að samlagið geti ekki starfað áfram. Á síðasta ári námu skuldir samlagsins um 50 þús. kr., og hefir verið reynt að semja um skuldirnar, og eru miklar líkur til þess, að það muni takast og samlagið geta starfað áfram á heilbrigðum grundvelli, ef þessi ákvæði frv. komast til framkvæmda. Sá kostnaður, sem þetta mundi baka ríkissjóði fram yfir það, sem nú er, mun nema um 15 þús. kr. á ári, og er þá gengið út frá sama meðlimafjölda og nú er. Þó að þetta sé að vísu talsverð upphæð; verður að gæta að því, að ríkissjóður fær allmiklar óbeinar tekjur á móti, vegna þess, hve viðskipti samlagsins við landsspítalann eru mikil. Tekjur landsspítalans mundu rýrna ekki lítið, ef samlagið legðist niður, svo að hér er í raun og veru ekki um annað að ræða en það, hvort ríkið eigi ekki að veita sjúkrasamlaginu önnur skilyrði en einstaklingum um sjúkrahúskostnaðinn, og verði frv. samþ., mundi það í aðalatriðum þýða það fyrir sjúkrasamlagið, að það fengi 25% afslátt frá venjulegum legukostnaði.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur sé um það, að sjúkrasamlögin séu þjóðþrifafyrirtæki, og mikil afturför, ef þau skyldu þurfa að leggjast niður. Fátt þess, sem gert er af opinberum ráðstöfunum, miðar eins að því að halda niðri fátækraframfærslunni eins og starfsemi sjúkrasamlaganna, því að fyrir þessa starfsemi komast menn hjá því að leita á náðir hins opinbera vegna þess kostnaðar, sem sjúkdómar kunna að leiða yfir þá. Þegar þess er ennfremur gætt, að sjúkrasamlögin fá minni styrk til starfsemi sinnar en annarsstaðar í löndum, sýnist ekki óhóflega langt gengið í þessum till. Hv. 3. landsk. hefir þó ekki séð sér fært að mæla með því, að 1. gr. frv. verði samþ., og hv. 2. þm. Eyf. hefir áskilið sér óbundið atkv. um þetta, eins og tekið er fram í nál. Að öðru leyti er enginn ágreiningur í n. um afgr. frv., eins og ég líka tók fram í upphafi, og ég vil eindregið leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt, og vænti þess, að d. geri sér það vel ljóst, að það getur oltið á frv., hvort Sjúkrasamlag Rvíkur getur haldið áfram starfsemi sinni eftirleiðis eða ekki.