17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

557. mál, sjúkrasamlög

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Mér skildist það á hv. þm. Hafnf., að honum fyndist lítið til um það, sem við legðum til heilbrigðismála. Ég hefi ekki rannsakað það og borið saman við aðrar þjóðir, en ég efast um, að nágrannaþjóðir okkar leggi meira í sjúkrakostnað miðað við tekjur ríkisins en við hér, því það er ekki svo lítið, sem við borgum til þeirra hluta, og það sérstaklega til berklavarna. Hvað viðvíkur því sem hv. þm. Hafnf. og hv. 4. landsk. sögðu, að þetta væri til þess að útvega ríkinu tekjur gegnum landsspítalann, þá efast ég um það, því mér er sagt, að aðsóknin að spítalanum væri nóg, og það hefir heyrzt hér, að vandræði væru að ráðstafa vissum flokki sjúklinga, vegna þess að sjúkrarúm vantaði. Enda hugsa ég, að aðsóknin fari ekki eftir því, hvað sjúklingarnir eru styrktir, heldur eftir sjúklingafjöldanum. En vitanlega yrði þetta til þess, ef sjúkrasamlögin geta ekki styrkt eins og áður, að auka fátækrakostnað sveitanna, en hvort það yrði aftur á móti til þess að auka útgjöld ríkisins til fátækramála, er ekki gott að segja. Ég viðurkenni, að það væri æskilegt að geta styrkt sjúkrasamlögin meira. En mér finnst þó við styrkja sjúklinga sómasamlega, og á svona tímum er ekki hægi að bæta neitt við það.