17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

557. mál, sjúkrasamlög

Fjmrh:

(Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]: Það er að vísu rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að hér á landi fer miklu minna fé úr sjóði ríkisins — og þá bæjarfélaganna engu síður — til styrktar sjúkrasamlögum en í öðrum löndum. Þeim málum er í öðrum löndum skipað betur en hér. Það skal ég fúslega játa. En það verður ekki sagt, að þessir tímar séu heppilegir til að kippa þessum hlutum í lag. Það eru a. m. k. engir óendanlegir möguleikar á þessum tímum til þess að breyta reglunum um styrki til samlaganna, sem þó hafa gilt lengi og ekki hafa á góðærunum verið afnumdar eða breytt. Vitanlega verða sjúkrasamlögin að gjalda þess, eins og svo margar aðrar þarfir landsmanna, að hafa ekki sagt til sín á góðærunum, þegar möguleikarnir voru meiri. En það er sjálfsagt að gera fyrir þessi samlög allar þær lagabreyt., sem þeim megi verða stoð að, án þess að auka kostnað ríkisins. Það er áætlað í frv., hvað kostnaðaraukinn mundi verða mikill, en það er ekki hægt að gera áætlanir um það, hvað sjúkrasamlögin mundu vaxa í tilefni af þessum nýju l. Það má að vísu segja, að öll aukin sjúkrasamlagsstarfsemi sé til góðs, en það gildir sama um hana og svo marga aðra þarfa starfsemi, að ekki er hægt að styrkja hana eins og æskilegt væri. En ég vil benda á það, að þetta þing sinnir þó einni kröfu sjúkrasamlaganna, þó að styrkurinn verði ekki hækkaður, sem sé þeirri kröfu, að meðlimir sjúkrasamlaganna njóti berklastyrks eins og aðrir landsmenn. Þessu hefir ekki verið sinnt fyrr en á þessu þingi, og þrátt fyrir örðuga tíma er tekið tillit til samlaganna og þeim gefnar eftir skuldir á komandi ári. Ég verð, eins og tímarnir eru og eins og undirtektirnar eru undir alla hluti, að telja, að það sé kappnóg fyrir þol ríkissjóðs að sinna sjúkrasamlögunum að þessu leyti, þó styrkurinn sé ekki hækkaður. Ég verð því að leggja eindregna áherzlu á það, að útgjöld ríkisins séu ekki hækkuð að þessu sinni í þessu efni. Þó við gerum fremur lítið að því að styrkja sjúkrasamlög og sjúklinga yfirleitt, þó má samt benda á það, að í einu efni gerum við meira að því en aðrar þjóðir, sem sé að styrkja berklasjúklingana. Það er geysileg fjárhæð, sem fer til slíkra sjúklinga, og er vafasamt, hvort allt það fé er til gagns. Aðrar þjóðir hafa ekki séð sér fært að setja svona öfluga styrktarlöggjöf eins og hér er á komin. Nú er allt útlit fyrir það, að berklavarnastyrkurinn verði mun hærri í ár en hann var síðasta ár. Miðað við síðustu mánaðamót mun hafa verið búið að útborga eitthvað 70–80 þús. kr. meira en á sama tíma á síðasta ári. En eins og útlitið er nú með fjárhag ríkisins, megum við ekki við því að bæta neinu verulegu á ríkissjóð. Þessi rök mín beinast ekki gegn heim rökum, sem hér hafa verið flutt, að æskilegt væri að styrkja betur sjúkrasamlögin. Þetta er framtíðarmálefni, sem verður að leysa, þegar ástæður leyfa. En hver maður hlýtur að sjá, að á þessum tímum er ekki hægt að leysa þessi vandræði, enda hefði þetta átt að koma fyrr, meðan betur áraði.