17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

557. mál, sjúkrasamlög

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég var ekki að segja, að það væri undrunarefni, að berklavarnastyrkurinn hefði hækkað í ár. En það er hlutur, sem vert er að benda á, þegar það skeður á sama tíma sem allir tollar og skattar lækka. Það dregur úr getu ríkissjóðs til að bæta á sig nýjum styrkjum að íbreyttri tollalöggjöf. Ég hygg, að ekki sé hægt að flytja yfir á ríkið allar hækkanir og að það verði að finna önnur ráð, nema hugarfar manna verði svo, að þeir fengjust til að ganga inn á einhverja óhófsvörutolla til að vega í móti nýjum nauðsynjaútgjöldum, sem ríkið tæki á sig. Án þess að fallast á nýja tolla á ýmiskonar óþarfa er ógerningur að óska eftir nýjum útgjöldum, sem nokkru nema. Það var þetta, sem ég sagði, og það hefir ekki verið hrakið af hv. 1. landsk. eða öðrum, sem talað hafa. Hv. 1. landsk. sagði, að orsakirnar til þess, að ríkið gæti ekki tekið þetta á sig, væru þær, hvernig farið hefði verið með fé ríkisins undanfarin ár. Ég býst við, að það sé nokkuð sama um það, hvernig stj. fer í ár með fé ríkisins. Það er núv. ástand, sem þarf að taka tillit til og beygja sig fyrir. þ. m. k. mundi hv. 1. landsk. telja það nauðsynlegt, ef hann sæti í stjórn. Tollar eru sízt meiri nú en 1926 nema síður sé. Ég hygg, að ef farið væri nákvæmlega yfir þá hluti, þá muni heldur hafa dregið úr tollum síðan, þegar tillit er tekið til alls. En síðan 1926 hafa lögbundin útgjöld aukizt um 2 millj. Í öðrum löndum er það talið nauðsynlegt að sjá fyrir auknum tekjum jafnframt því, sem útgjöldin eru aukin, og erum við ekki undanþegnir þessari reglu. Hvaða þjóðarmeirihluti og hvaða stj., sem að völdum situr, er bundin af þessari reglu. Þetta gildir jafnt fyrir alla þá, sem ábyrgðina bera í þessum efnum. Og ég vil ráðleggja hv. 1. landsk. að segja ekki of margt, sem gæti verið óþægilegt fyrir hann að hafa sagt, þegar hann sjálfur tekur við bráðum, ef svo vill verða. Það gæti orðið óþægilegt fyrir hann að láta mig síðar geta flett upp ýmsum ummælum, sem hann hefir freistingu til að segja nú, og ætti hann því sjálfs sín vegna að reyna að sigrast á þessari freistingu.

Þegar hv. 1. landsk. lætur svo um mælt, að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að beita fjármálunum til þess að fá fram meira réttlæti um kosningar og kjördæmaskipun, er það annað mál út af fyrir sig, og ætla ég ekki að fara að ræða hér réttmæti þessara orða nú, enda gefst vafalaust tækifæri til þess síðar, en í heim orðum hv. þm. lá þó viðurkenning á því, að ekki væri hægt að standa á móti þessum málum í sjálfu sér, og að Sjálfstæðisflokkurinn mundi taka öðruvísi í þau, ef hann væri ekki að berjast fyrir einhverju öðru.

Sú viðurkenning liggur glöggt í þessum orðum hv. 1. landsk.