28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Þegar rætt var um ábyrgð á sparifénu í Útvegsbankanum, tók ég það fram, að ég væri henni andvígur, þó að ég greiddi ekki atkv. á móti henni, og að búast mætti við, að þetta væri ekki fyrsta skrefið í því að taka ábyrgðina á öllum skuldbindingum bankans. Sest á frv. því, sem hæstv. fjmrh. þar fram, að þetta er rétt og að menn ganga nú enn lengra, því að ríkissjóður á ekki einungis að taka ábyrgð á rúmlega 2 millj. kr. skuldum bankans, heldur líka á rekstrarláni, þrátt fyrir þá yfirlýsingu Landsbankans, að hann taki ekki slíkt viðbótarrekstrarlán, sem í frv. getur. þótt hér sé um að ræða ábyrgð á aðeins rúmlega 2 millj. kr., held ég, að það sé aðeins fyrsta sporið í þessa átt. Hæstv. ráðh. gat um það, að Landsbankinn vildi ekki lengur endurkaupa víxla í stórum stíl af Útvegsbankanum. Er ástæðan sú, að þótt þessir víxlar ættu að borgast upp við hver áramót, hafa þeir ekki verið greiddir og skuldin þannig vaxið ár frá ári. Þá á ríkissjóður að taka til sinna ráða.

Ef þarf á hjálp ríkissjóðs að halda til viðhalds atvinnuvegunum,þá held ég, að það sé ráðlegra að gera það fyrir milligöngu Landsbankans. Í öðru lagi er það ljóst, að ef taka á stórkostlega nýja ábyrgð fyrir Útvegsbankann, þá getur hann ekki haldið sama fyrirkomulagi og nú er. Ætti þá að strika út hlutafé bankans, því að þá er hann kominn alveg á náðir ríkissjóð. Þetta liggur í augum uppi.

Fyrir hæstv. fjmrh. hefir vakað sem ein lausnin á málinu, að bankinn haldi áfram þeirri ólöglegu seðlaútgáfu, sem hann hefir haft upp á síðkastið. En það er nú viðurkennt í öllum löndum, að seðlaútgáfan er bezt komin á einum stað, sem sé í þjóðbankanum. Var ákveðið við stofnun Landsbankans, að hann skyldi hafa alla seðlaútgáfu. Ef farið er inn á þessa braut, þá er það afturför í peningamálum landsins. Virðist það ekki eðlileg fjármálaráðstöfun að taka þann bankann, sem verr er stæður, og efla hann sem mest að fjármagni og seðlum, en ekki hinn, sem betur er stæður.

Ég legg til, að málinu sé vísað til fjhn.