28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Dal. hefði getað spurzt fyrir um þetta á fundi þess flokks, sem hann heyrir til. En úr því hann hefir fremur kosið að koma með fyrirspurnina hér, þá skal henni líka svarað á sama vettvangi.

Reglugerð bankans er ekki hægt að breyta fyrr en á aðalfundi, sem haldinn er í júlí í sumar. Bankinn heyrir ekki undir fjármálaráðuneytið, heldur bankaráð, sem kosið er af öðrum — og betri mönnum, býst ég við. Þegar það er kosið, ræður það úrslitum um þær ráðstafanir, sem hv. þm. Dal. spurði um.

Á þessum tveim lánsheimildum er sá munur, að ekki er jafnvíst, að Landsbankinn þurfi að nota féð að öllu leyti, eins og Útvegsbankinn. En við mig hefir Landsbankinn látið í ljós, að brýn nauðsyn bæri til þessarar ábyrgðarheimildar, og þegar við Magnús Sigurðsson bankastjóri vorum staddir í London í vetur, var útlitið svo, að brýn nauðsyn var á hjálp ríkisins í þessu efni. Nú stendur svo sérstaklega á, að við höfum losnað við miklar fiskbirgðir og síðan um áramót léttari róður, en hann getur orðið þungur aftur, og þá engra kraftaverka að vænta eins og 1924, enda var kreppan ekki eins brött þá eins og hún er nú. Hins er að vænta, að úr þessu rætist, að ástandið fari batnandi hægt og sígandi, en komi ekki allt í einu eins og þá.

Það, sem ég sagði um seðlaútgáfuna, var enginn útúrsnúningur, enda sagði hv. 3. þm. Reykv. og játaði, að seðlana ætti að draga inn á hann hátt, sem kleift er. Þetta hefir að vísu gengið treglega ennþá, en getur lagazt.

Um það, að ríkisstj. geti betur komið vilja sínum fram við Útvegsbankann en Landsbankann, skipti ég mér ekki af. Það er landsnauðsyn, að báðir bankarnir geti starfað og lifað, og þó að þeir eigi í mikilli baráttu, þá er sú barátta leifar af gömlum tímum, en ekki af því, sem nú er.