20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það er ekki álitlegt að tala um þetta mál í andstæðum tón við þá 3 síðustu hv. ræðumenn, sem hér hafa talað, því að það eru þeir menn, sem verið hafa fjmrh. um mörg undanfarin ár. Þeir leggja allir til, að þetta frv. verði samþ. og að þetta lau sé tekið.

Ég verð að segja það, að mér þykir það mikil furða, að margir þeirra manna bæði í þessari d. og eins í hv. Nd., sem allra sparsamastir eru og deila kannske um það, hvort þessi eða hinn skuli fá 500 kr. meira eða minna til að svelta af, að einmitt þeir menn skuli vera fúsastir allra til að styðja heimild til slíkrar lántöku.

Það er með þessa lántöku eins og vant er að segja, þegar verið er að leita samþykkis þingsins um slíka heimild. Bæði hæstv. fjmrh. og hv. fyrirrennari hans gera sér von um, að allt gangi vel og lánið verði borgað upp á einu ári, eins og gert er ráð fyrir í frv. En ég vil benda þessum hv. þm. á það, að þannig hefir þetta ekki gengið til áður. Til að sannfæra sig um það þarf ekki annað en að athuga sögu þessa banka, þótt ekki væri nema hvernig það gekk til í kreppunni 1920–1921. Þá mælti hv. 1. þm. Reykv. meðal annara með því, að tekið væri lán handa Íslandsbanka, sem þá var. Þá var það auðvitað meiningin, að lánið yrði borgað aftur eftir stuttan tíma og að ríkið þyrfti á engan hátt að skaðast á sinni ábyrgð. Við vitum, hvernig fór. Það varð tap á atvinnurekstri þeim, er bankinn lánaði fé til. Þetta lánsfé varð eyðslueyrir; svo þegar bankinn komst í þrot, var helmingurinn af þessu láni færður yfir á ríkissjóð. Sú vaxtabyrði ein, sem af þeim parti leiðir, slagar hátt upp í það, sem þykir vel forsvaranlegt fyrir ríkissjóð að leggja í nýja vegi og brýr á einu ári. Þetta kostaði sú bjartsýni, sem menn höfðu í þessum efnum árið 1921.

Nú skilst okkur það, að erfiðleikar Útvegsbankans stafi í raun og veru að mestu leyti frá fyrirrennara hans, Íslandsbanka, og nú eru litlar líkur til annars en að ríkið verði að taka á sig alla þá erfiðleika, sem Útvegsbankinn hefir haft af Íslandsbanka og hafa sogið merg og mátt úr honum allt frá því, að hann tók til starfa.

En þessi saga er því miður ekki búin enn. þegar Íslandsbanki komst í þrot, þrátt fyrir þessa stóru hjálp, sem hann fékk, var það ekki nóg að leggja þessar milljónir úr enska láninu þar inn. Það var líka tekið lán, sem mun hafa numið 11/2 millj. kr., til að leggja við stofnfé bankans, svo að hann hefði þó einhverja aura. Þetta lán var tekið sem bráðabirgðalán, og er það ennþá. Þetta lán var fyrst tekið hjá Hambrosbanka, en síðan var það fært yfir á annan banka, því að ýmsir erfiðleikar voru á því að fá það framlengt hjá Hambrosbanka. Af þessu láni hefir ekki verið borgað nema lítið eitt.

Svo bætist það við, að á síðasta sumri bíður Útvegsbankinn um 3 millj. kr. lán og ríkisábyrgð fyrir því. Fylgdu þeirri beiðni nokkuð þær sömu forsendur og nú. Alþingi gekk inn á þetta umræðulitið, eins og um mjög lítilfjörlegan hlut væri að ræða að samþ. ríkisábyrgð fyrir þessu láni. Við vitum allir, hvernig svo fór með þetta í atvinnulífinu, sem hv. síðasti ræðumaður lítur svo björtum augum á. Nú er ekki betur ástatt en svo, að hver einasti eyrir af þessu láni hefir orðið fastur í atvinnuvegunum, og þó var þetta lán, sem tekið var hjá þessum útlenda banka, tekið með sömu forsendum og á nú að taka þetta lán og á sama grundvelli og í sama skyni, og heyrir eftir lögum þess lands, sem það var tekið hjá, undir þá tegund lána, sem verða að borgast upp á hverju ári. Enskir bankar hafa ekki leyfi til að semja um lán eins og hetta til margra ára.

Það er því ljóst, að hættulaust er það ekki að veita þessa ábyrgðarheimild. Það er því einkennilegt, að mestu sparsemdarmenn þingsins skuli nú vera svo bjartsýnir, að þeir álíta, að það sé hættulaust fyrir ríkið, þó að þessi heimild verði gefin. Það vita allir, að Útvegsbankinn hefir neyðzt til þess, vegna þess, hvernig ástatt er fyrir atvinnuvegunum, að festa þetta 3 millj. kr. lán, og samt var bankinn í svo miklum erfiðleikum nú snemma á þingtímanum, að ríkið varð að taka ábyrgð á öllu hans sparisjóðsfé. Ég hygg því, að ef það er allt tekið saman, sem Alþingi hefir tekið ríkisábyrgð á fyrir þennan banka, þá verði það samtals 7–8 millj., ef frv. þetta nær fram að ganga, og það allt á einu einasta ári. Þetta hefir ríkið orðið að taka allt á sig fyrir banka, sem á við þessa sérstöku erfiðleika að stríða og stafa af þeirri byrði, sem hann hefir orðið að taka á sig vegna annars banka, sem fór á höfuðið vegna þess, að hann lánaði mikið fé til atvinnufyrirtækja, sem voru ekki sterkari en það, sem raun ber nú vitni um.

Nú er það svo, eins og hæstv. fjmrh. sveigði að í sinni ræðu, að þótt hér eigi nú að fara varlega í sakirnar, þá er síður en svo, að það sé tryggt, að í þetta sinn fari betur en áður. Ég vil t. d. benda á það, að mjög mikið af þeim fjárútlátum, sem Útvegsbankinn varð fyrir á síðasta hausti, stóð í sambandi við úttekt á sparisjóðsfé. Þetta getur verið af þeim eðlilegu ástæðum, að menn þurfi á fé sínu að halda í kreppunni, og það getur líka stafað af hræðslu. Þó er ríkisábyrgð á Útvegsbankanum eins og á Landsbankanum, en samt kom þetta fyrir. Einnig varð nokkur órói um Landsbankann, og var dálítið tekið þar út snemma í vetur, en kom samt aftur, af því að menn sáu sig um hönd.

Útvegsbankinn getur ekki fyrirbyggt það, þrátt fyrir bezta vilja bankastjóranna, að þetta fé verði fest, vegna þessa útdráttar úr bankanum af sparisjóðsfé og vegna þess, hve erfiðir þessir tímar eru fyrir atvinnuvegina.

Í þeirri gagnrýni, sem nú hefir komið frá minni hálfu á þessu frv., felst engin tortrygging á þeim mönnum, sem eiga að fá þetta fé til ráðstöfunar, bankastjórum Útvegsbankans. Ég efast ekki um, að þeir geri sitt ýtrasta til að fara vel með þessa fjármuni, en þeir raða ekki við straum viðskiptanna né gamlar syndir fyrirrennaranna. Nú á að fara að veita ríkisábyrgð fyrir þessu láni ofan á 11/2 millj. kr. lánið, ofan á 3 millj. kr. lánið, sem fraus á síðasta ári, og ofan á ábyrgð sparisjóðsfjárins, sem veitt var nú á öndverðu þingi. Þetta lán á að taka þrátt fyrir aðvörun stjórnar Landsbankans, sem á að vera ráðunautur þings og stj. í þessum efnum. Bankastj. Landsbankans telur sig munu komast af án þess að nota þá heimild, sem honum var nú gefin, og gerir því ekki ráð fyrir því að nota það til hjálpar heim atvinnurekstri, er hann styður. Sú lánsheimild mundi því meira verða til öryggis fyrir þing og stj. Hinsvegar er það áform Útvegsbankans að taka lánið, ef þessi heimild fæst og ábyrgð samkv. henni. En þá blasir sú hætta við, að lánið festist og að landið fái á sig nýja hengingarvíxla, sem ekki verður hægt að greiða upp árlega, eins og þó er til ætlazt samkv. l. þess lands, sem sennilegast mundi verða leitað til um þetta lán. En einmitt af slíkum lausum lánum, sem ekki er hægt að standa í fullkomnum skilum með, stafar mest fjárhagsleg og pólitísk hætta fyrir þjóðina. Og hvað lántökur yfirleitt snertir, þá verður að gera sér það ljóst, að einhverntíma kemur sá dagur, að stemma verður á að ósi. Framtíðin verður að greiða slík lán. En það verður erfitt, ef því heldur áfram, að atvinnuvegirnir beri sig ekki hér á landi. En því verður ekki neitað, að margt, sem gerzt hefir á síðustu áratugum, gefur bendingu um, að það geti orðið nokkuð örðugt. Kröfur þær, sem margir gera til sinna lífshátta, og fjárfrekar aðstæður manna gera það að verkum, að atvinnureksturinn verður að ganga mjög vel, ef hann á að skila heim arði, að hann geti greitt upp þunga skuldabagga. Ég skal þessu til skýringar benda á dæmi, sem sýnir eitt af því marga, sem þjakar atvinnulífinu hér í þessum bæ og er að nokkru leyti víðar til staðar. Þegar ég settist hér að fyrir 20 árum, þekkti ég mann, er borgaði fyrir sæmilega íbúð í timburhúsi 30 kr. á mánuði. Nú er þessi sama íbúð leigð fyrir 200 kr. á mánuði. Svona gífurlega hefir dýrtíðin vaxið hér á þessu sviði á síðastl. 20 árum. Og á mörgum sviðum öðrum hefir útgjaldaþörf manna, nauðsynleg og ónauðsynleg, aukizt stórlega. En undir þessu verða atvinnuvegirnir að standa. En til þess þarf hvorttveggja, mikla framleiðslu og sæmilegt verð á útflutningsvörum okkar. Svo að fiskurinn sé nefndur í þessu sambandi, þá er þess að gæta, að hann er verðlægri nú en hann var fyrir 20 árum, enda er útgerðin rekin með tapi nú. Síðastl. ár er talið, að tapið á togaraútgerðinni hafi numið að meðaltali 30 þús. kr. á hvern togara. Ef svo heldur áfram, þá verður vitanlega atvinnurekstrinum ekki haldið uppi á annan hátt en þann, að mynda sífellt ný eyðslulán á meðan þau fást.

Þannig er þá ástandið, og á því er engin sýnileg breyting til hins betra. Hið eina, sem er gert, er það, að krefjast meira starfsfjár. Þingið hefir tekið og virðist taka þeim kröfum vel og er nú í þann veginn að ljúka við að samþ. að taka ábyrgð á nýjum lánum upp á 4 millj. kr. — En þetta sama þing virðist ekkert annað vilja gera til að draga úr þeirri kreppu, sem nú þjakar mest. Það vill ekki samþ. frv. um lækkun á húsaleigu með skyldumati né neitt annað, sem létt getur á atvinnuvegunum. Það sýnist vilja taka þá einu stefnu að verjast kreppunni með sífelldum lánum. En einhverntíma kemur þó að öðru hvoru, því, að þjóðin sannfærist um, að ekki dugir sífellt að taka meiri og meiri lán, sem frjósa jafnóðum í atvinnuvegum, sem eru reknir með tapi, eða þá að lánin hætta að fást. Þá kemur að því, að þjóðin verður að fara að lifa fátæklegar en nú, eða sá hluti hennar, réttara sagt, sem nú lifir svo mjög yfir efni fram og sannar þarfir, og verður á þann hátt fær um að borga skuldirnar. Ég held, að sú reynsla, sem fengin er, bendi ótvírætt til þess, að betra sé fyrr en síðar að hætta lántökum. Þau lán, sem hafa verið tekin síðan 1921, hafa öll frosið á þennan hátt. Og að því kemur fyrr eða síðar, að hætta verður slíkum lántökum, sem jafnóðum festast. Er þá betra að gera það fyrr en síðar. Af framansögðum ástæðum get ég ekki greitt atkv. með þessu frv.