20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hygg, að hæstv. fjmrh. hafi á það minnzt, að ég hafi verið í stj., þegar ríkið tók fyrst ábyrgð á útlánum vegna Útvegsbankans. En hæstv. ráðh. veit það líka, að það var ekki af mínum toga spunnið, að svo var gert.

Það er nokkuð erfitt að geta sér þess til, hvernig forsvarsmenn slíkra lána og hér um ræðir hugsa sér, að slíkt muni enda. Annars er það rangt að leita fyrirmynda um þetta til nágrannalandanna, vegna þess, að okkar bankastarfsemi er rekin allt öðruvísi en þar tíðkast. Ég hygg, að slíkt þekkist hvergi annarsstaðar en her, að allir bankarnir séu reknir á ábyrgð ríkisins og að mestu sem eign þess, nema þá ef vera kynni í Rússlandi. Þetta hefir færzt í þetta horf hér vegna þess, að hin frjálsa hlutafélagsstarfsemi Íslandsbanka gat ekki blessazt. Ábyrgð á bankanum var því laumað yfir á landið smátt og smátt fyrir tilstilli hv. 1. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. og annara flokksbræðra þeirra, sem þó allir telja sig mjög andvíga ríkisrekstri. En í þessu tilfelli brutu þeir þó regluna, vegna þess, að ráaðamenn bankans höfðu svo illa að honum búið, að hann hafði tapað stórfé. Þess vegna þótti heppilegt, að ríkið tæki ábyrgð á veltufé bankans. Mér þætti því gott, ef hæstv. fjmrh. gæti bent mér á nokkurt annað land en Rússland og Ísland, þar sem íhaldið hefir skipað þetta sócialistafyrirkomulag í bankamálunum, að veltufé bankanna sé algerlega á ábyrgð skattþegnanna. — Ég skal játa, að ég nefni Rússland ekki vegna þess, að ég sé nægilega kunnugur, hvernig þessu er komið fyrir þar, heldur vegna þeirrar stjórnmálastefnu, sem þar er ríkjandi. En frá þeim löndum, er hæstv. fjmrh. nefndi, er ekkert fordæmi fyrir því, að áhætta atvinnulífsins sé dregin yfir á þjóðarheildina, svo sem hér er gert.

Það hefði mátt búast við því, að reynslan, sem fengizt hefir um það, hvernig þetta hefir gengið undanfarið, gerði það að verkum, að þingið athugaði sig vel áður en gengið er lengra á þeirri braut. Þess hefði mátt vænta, að sú hjálp, sem veitt var 1930, hefði getað bjargað. En þegar þetta ástand heldur áfram, þá verður að svara því nú eða síðar, hve langt verður gengið á þessari braut. Ef 26 togarar, sem hér eru, halda áfram að tapa 30 þús. kr. á ári hver þeirra, þá festist féð fljótlega, og þessar 2 millj. þá líka. Og þá verður enn á ný að velja um það, hvort taka skal lán og skjóta afleiðingunum á frest eða velja aðrar leiðir til þess að togaraútgerðin geti borið sig.