20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég verð að leiðrétta þann misskilning hjá hæstv. dómsmrh., að ég hefði sagt, að ríkin bæru almennt ábyrgð á bönkunum. Það er víða svo, að ríkið ber ekki ábyrgð á veltufé þjóðbankanna, hvað þá annara banka. Ég sagði aðeins, að ríkin teldu sér skylt að forða stórbönkunum frá hruni, þótt þau kynnu sjálf að bíða við það fjárhagslegan halla. Þetta er venjulega gert á þann hatt, að lagt er inn í bankann forgangshlutafé eða innskotsfé frá ríkinu, líkt og hér hefir verið gert, og fylgir þá einnig venjulega íhlutunarréttur um stjórn bankans. Ef Íslandsbanki hefði átt að velta, þá hefði það átt að gerast 1921, áður en lagt var fram fé í hann og íhlutunarvald um stjórn á honum tekið af hálfu ríkisins. En er þetta hvorttveggja hafði verið gert, var of seint að láta bankann velta.

Ég hygg, að það sé ekki neinum sérstökum manni að kenna, að hér er orðinn allmikill ríkisrekstur á bönkum. Ef hæstv. dómsmrh. hefði fengið vilja sínum framgengt 1930, þá hefði Landsbankinn orðið einn eftir og hefði orðið að taka við öllum viðskiptunum. Hér hefir ekki verið um aðra möguleika að ræða á seinni árum en að ríkið kæmi til aðstoðar, þegar bankana hefir borið upp á sker. Og það er nú svo um Landsbankann, að hann hefir ríkisábyrgð á öllu erlendu starfsfé, er hann fær að láni, og þarf að sækja um það í hvert skipti. Þetta stafar af því, að landið er ókunnugt og smátt í augum annara, og þykir því ótryggt að veita bönkum hér lán nema ríkisábyrgð sé á því. í þessum sporum stöndum vér; vér komumst ekki úr þeim og verðum að taka því, sem er.

Það kann að vera, að ég þyki nokkuð bjartsýnn um afkomu atvinnuveganna. þegar ég býst við, að þeir rétti við. Viðvíkjandi togurunum verð ég að játa, að það hefir komið fyrir, að þeir hafa tapað 30 þús. kr. á ári, og það upp undir 100 þús. kr. En það verður líka að færa hina hliðina á reikninginn. Þeir hafa oft skilað stórfé í ríkissjóðinn og til almennings. Útkoman hefir því orðið mikill ágóði fyrir þjóðina. Tekjuhalli atvinnuveganna hefir að vísu verið mikill á sumum tímum, en hann er þá borgaður upp aftur af atvinnuvegunum, og engum öðrum. Hann er borgaður með vaxtamun og auknum sköttum. Það eru sjálfir hinir óseðjandi atvinnuvegir, sem undir því standa. Þar er uppsprettan, sem þingi og stjórn má ekki standa á sama um, og getur ekki látið sér standa á sama um.