20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hygg, að það sé rétt hjá hv. l. þm. Reykv. að fara ekki út í afskipti sín af lántökunni 1921, því að það er mála sannast, að hann hélt því þá fram statt og stöðugt, að það væri ekkert vit í öðru en að ríkið tæki þá lán handa bönkunum. Ég get ekki tekið á móti hinu mikla hóli hans um mig í sambandi við Íslandsbanka öðruvísi en að endurgjalda það að nokkru. Ég tel hann hafa verið einna áhrifamesta manninn í því, að lánið var tekið 1921. Hann skapaði það álit með blaði sínu, sem varð til þess, að Magnús Guðmundsson tók lánið, þrátt fyrir það, að hann barðist á móti því á þinginu áður. Það var krafa þeirra, er skulduðu og vildu fá fé til að geta lifað áfram meira eyðslulífi en efni leyfðu, sem olli því, að lánið var tekið, að fjmrh. nauðugum.

Það skýtur heldur skökku við, þegar hv. þm. heldur því fram, að ég hafi sett Íslandsbanka á höfuðið. Ef ég hefði verið bankastjóri og lánað hinum prýðilegu viðskiptamönnum bankans 25 millj. kr. og látið þær allar tapast, þá hefði mátt fá menn til að trúa þessu. Eða ef ég hefði verið bankaeftirlitsmaður og átt að líta eftir því, að bankanum væri vel stjórnað, en ekki gert það með meiri giftu en hv. þm. hefir gert. En það er svo langt frá þessu, að ég hefi einu sinni aldrei átt þar smávíxil, svo að ekki hefir bankinn tapað á mér. Ég hefi heldur aldrei haft þar neina ábyrgðarstöðu. Því verður þess vegna ekki neitað, að þetta er ákaflega röng skýrsla hjá hv. þm. Það, sem hefir sett bankann á höfuðið, er einskonar samspil viðskiptamanna hans, bankastjóranna og bankaeftirlitsmannsins, þar sem allir þessir aðiljar hafa reynt að standa sem allra verst í stoðunni og hegða sér þannig í starfinu, að sem öruggust vissa væri fyrir því, að bankinn færi á höfuðið.