20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hæstv. dómsmrh. sagði, að ég hefði átt þátt í undirbúningi lántökunnar 1921. Frásögn hans var byggð á misskilningi, og skal ég skýra þetta nánar.

Ég hélt því fram árið 1921, að það væri rétt að taka gjaldeyrislán til að hindra verðfall krónunnar, þegar að því var komið, að hún felli. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að það lán var á engan hátt sambærilegt við það, sem hér er verið að ræða um að taka. Það var fast lán, en þetta er aðeins viðskiptalan. — En mínar till. náðu þá ekki fram að ganga. Gengi krónunnar fell og síðan var tekið lán í allt öðrum tilgangi. Ég vonast ekki til þess, að hæstv. dómsmrh. geti greint þetta í sundur og skilið mismuninn. En ég veit, að aðrir hv. þdm. munu skilja það.

Ég get bent á það, að síðar var þessi stefna tekin upp: að verjast gengisfalli með því að styrkja bankana með viðskiptalánum. Ég get því miklazt af því, að það, sem ég hélt fram 1921, hefir náð viðurkenningu síðar, þó að eftir því væri í ekki farið þá.

Annars get ég minnt hæstv. ráðh. á það, úr því hann fór að ræða afstöðu manna til þessa máls, að blað hans hélt því þá eindregið fram, að það bæri að kaupa forgangshlutabréf í Íslandsbanka þá, í stað þess að veita honum lán. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. stendur ennþá í þeirri meiningu.

Hæstv. ráðh. þykist ekki skilja það, þegar ég held því fram, að hann eigi drýgstan þátt í óförum Íslandsbanka. En hann skilur samt vel, hvað ég á við. Hann hefir unnið þar vitandi vits að ákveðnu marki, og það dylst ekki, að hann á drýgstan þáttinn í því öngþveiti, sem bankamál vor eru nú komin í. Hann hefir unnið að því með sífelldum rógi um atvinnurekendur og bankastofnanirnar árum saman. Það hefði mátt búast við, að hann færi nú að sjá að sér, þegar búið er að leggja Íslandsbanka niður. En það lítur ekki út fyrir, að hann hafi breytt um stefnu. Honum er eins farið og nauti, sem ekki þolir að sjá rauða dulu, því hann heldur enn áfram sömu starfseminni gagnvart stofnun þeirri, sem tekið hefir við af Íslandsbanka.

Um starf bankaeftirlitsmannsins skal ég ekki deila við hæstv. ráðh. Ég hefi oft orðið var við það, að hann skilur lítið, í hverju það er fólgið. En allir aðrir vita, að ég hefi engin afskipti haft eða átt að hafa af stjórn bankanna og ber því ekki ábyrgð á fé því, er þeir hafa raðstafað. Ef hæstv. ráðh. nennti að hafa fyrir því að kynna sér, hvernig starfið er rækt annarsstaðar, þá mundi hann sjá, að það er eins þar. Annars á ég engar skýrslur að gefa honum um það starf og hirði því ekki um að ræða það hér.