20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Jón Þorláksson:

Af því að hv. 1. þm. Reykv. á ekki kost á að taka oftar til máls, vil ég benda á það, að hæstv. dómsmrh. er í hinum mestu fjarstæðum, þegar hann heldur því fram, að bankaeftirlitsmaðurinn hafi átt að aðvara þingið eða gefa skýrslu til Alþingis viðvíkjandi starfi sínu. Eftirlitsmanninum ber auðvitað sem öðrum embættismönnum að snúa sér til yfirmanns síns, sem er sá ráðh., sem með þessi mál fer, með allar skýrslur út af starfi sínu, og það er ráðh. að taka ákvörðun um það, hvort ástæða sé til að bera slík mál undir þingið. Hitt þekkist hvorki hér í okkar þjóðfélagi né annarsstaðar, að embættismenn fari að snúa sér beint til þingsins út af starfi sínu, og því síður, að þeir fari að snúa sér til almennings með því að skrifa í blöðin o. s. frv. Sýnir þetta almennari vanþekkingu á öllum almennum stjórnarháttum en ætti að þurfa að gera ráð fyrir hjá manni, sem búinn er að sitja jafnlengi í stj. og hæstv. dómsmrh.

Ég hefi þá tilhneigingu til að snúa þar að aftur, sem fyrr var frá horfið, eða því máli, sem hér liggur fyrir á dagskrá, en eins og vitað er, fer jafnan svo, þegar hæstv. dómsmrh. kemur hér í umr., að hann ræður ekki betur við orð sín og hugsanir en svo, að hann fer um allt með hraðlestarferð eftir einhverjum hliðarsporum, sem af leiðinni liggja, og fjarlægist hann þannig meira og meira það mál, sem fyrir liggur, unz hann að lokum endar á Stefáni Th. og Sæmundi, því að þar er endastöðin fyrir hugsanir hæstv. ráðh. á þessu ári.

Hæstv. dómsmrh. byrjaði sína fyrstu ræðu með því, að við þrír, sem á undan honum höfðum talað og allir hofum verið fjmrh., legðum til, að þetta lán væri tekið. Í þessu upphafi á ræðu hæstv. dómsmrh. kom fram hin venjulega ónákvæmni hans í hugsun og frásögn, og hann virðist ekki geta við því gert, því að þetta er alltaf svona hjá honum.

Hér liggur ekki fyrir að taka ákvörðun um það, hvort taka skuli þetta lán, heldur er hér aðeins um það að ræða, hvort heimila skuli stj. að ábyrgjast £ 100000 rekstrarlán fyrir Útvegsbankann, ef stj. skyldi sýnast að gera svo og Útvegsbankinn telur sig þurfa slíkt lán. Hélt ég og, að það hefði komið sæmilega skýrt fram í minni ræðu, að ég vildi persónulega ráða frá því, að þetta lán væri tekið, þó að ég hinsvegar vilji ekki taka á mig þá ábyrgð að neita stj. um þessa heimild, þegar stj. sjálf fer fram á að fá hana. Fjmrh. hverju sinni hefir betri aðstöðu en einstakir þm. til að meta allar ástæður með og móti slíkri framkvæmd og þessi lántaka er, og í viðurkenningunni um þetta vil ég ekki taka á mig þá ábyrgð að láta mína skoðun á lántökunni verða þess ef til vill valdandi, að fjmrh. sé neitað um þessa heimild, úr því að hann telur þörf á, að hún sé veitt. Það er því hreinn misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., að ég hafi lagt með því, að þetta lán yrði tekið, því að ég réði þvert á móti frá því, og ég held, að ég hafi líka tekið það fram í minni fyrri ræðu, að ég tel ekki rétt að neita um þessa heimild, því að það getur borið svo að eða verið svo ástatt, þótt við vitum það ekki nú, að það væri meiri ábyrgðarhluti, að þessi lántaka færist fyrir en rétt væri að leggja á nokkra stj.

Hæstv. dómsmrh. var svo ákveðinn þeirrar skoðunar, að þessi lántaka væri ekki réttmæt, að hann vill neita um heimildina, og færði hann þær ástæður til, að atvinnureksturinn í landinu hefði verið rekinn með tapi í ár, eins og verið hefir að einhverju leyti 2 undanfarin ár, og lægi því beint við, að féð festist, ef það væri lánað út, eða tapaðist með öllu, og væri því ekki rétt að leggja út í þetta vegna áhættunnar fyrir ríkissjóð. Eru það mikið til þessar sömu ástæður, sem valda því, að ég legg á móti því, að þetta lán sé tekið. Ég er hræddur við það að veita meiru lánsfé í atvinnuvegi, sem ekki bera sig, ofan á það, sem búið er að veita undanfarin ár. En í sambandi við þetta fór hæstv. ráðh. að gera grein fyrir því, hve eðlilegt það væri, að Útvegsbankinn hefði fest það lánsfé, sem hann hefir fengið, og ef til vill tapað því að einhverju leyti, og gerði hæstv. ráðh. þá grein fyrir þessu, að svo hefði farið af því, að atvinnuvegirnir væru reknir með tapi. Ætla ég ekki að fara út í neinar rökræður um þetta, né heldur láta mig inn á það, hvort benda mætti á einhverjar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið viðvíkjandi bankanum af bankastj. eða landstj. og fyrirsjáanlegt var um, að ekki voru nægilega gætilegar. Ég tek þessi ummæli hæstv. dómsmrh. og lýsingu hans á orsökunum til fjárfestingar og tapa Útvegsbankans eins og þau voru töluð af honum. En ég vil í þessu sambandi benda hæstv. dómsmrh. enn einu sinni á það, þótt ég hinsvegar viti, að það hafi ekki mikla þýðingu, að eftir að hæstv. ráðh. hefir gefið þessa skyringu viðvíkjandi starfsemi Útvegsbankans, getur hann ekki vænzt þess lengur, að hann verði tekinn trúanlegur um það, að fjárfesting hafi eingöngu stafað af „óstjórn, eyðslu og eftirlitsleysi“, svo að ég hafi þetta orðrétt eftir hæstv. ráðh., enda er sannanlegt, að svo var frá 1920 allt fram í byrjun ársins 1924, að atvinnuvegirnir voru reknir með tapi, og var þar um mikinn taprekstur að ræða, sérstaklega þó árið 1920. Varð þá gífurlegt verðfall á afurðunum, þannig, að fiskur, sem keyptur var til útflutnings fyrir 300 kr. skpd., seldist ekki nema á 100 kr. skpd. upp og ofan, og er þetta taprekstur, sem munar um. En hæstv. dómsmrh. er samur við sig í garð Íslandsbanka. Allt hans tal um Íslandsbanka og stj. hans er á þá leið, að í stað þess að viðurkenna, hve mikinn þátt ástand atvinnuveganna átti í töpum og erfiðleikum stofnunarinnar, hefir hann aldrei getað séð eða talað um annað en „óstjórn, eyðslu og eftirlitsleysi“. Þetta tal er ekki nýtt. Það glumdi hér í þinginu og í blaði hæstv. ráðh. allar stundir frá 1921, þar til bankinn, meðfram fyrir þennan rógburð og ofsóknir, leið undir lok. Enginn hefði haft við það að athuga, þótt fram hefðu komið aðfinnslur og gagnrýni í garð Íslandsbanka sem annara fyrirtækja, ef þetta hefði verið gert af þeim hug að bæta úr ágöllunum og halda uppi jafnnauðsynlegri stofnun og Íslandsbanki var fyrir atvinnulíf þjóðarinnar. En ef nokkursstaðar hefir komið fram það, sem hér um daginn var kallað animus nocendi — vilji til að skaða —, í slíkum aðfinnslum, er það einmitt auðkennandi fyrir alla afstöðu hæstv. dómsmrh. í garð Íslandsbanka.

Þegar Íslandsbanki var lagður niður og Útvegsbankinn stofnaður, var stillt svo til af þeim þingmeirihl., sem þessu réði, að enda þótt talsvert einkafé hefði verið lagt fram sem hlutafé handa bankanum, bæði innlent og útlent, voru þó öll umráð yfir stofnuninni í höndum ríkisvaldsins. Get ég sagt það fyrir mig, og mér er sjálfsagt óhætt að fullyrða það um alla okkur sjálfstæðismenn, að við erum þeirrar trúar, að nokkru betur hefði tekizt til með afkomu Útvegsbankans, ef umrað bankans hefðu fengið að vera að einhverju leyti í höndum þeirra einstaklinga, sem höfðu sérstaklega hagsmuna að gæta um það, að bankanum yrði varlega stjórnað. Við beygðum okkur fyrir vilja meiri hl. í þessum efnum, enda var ekki annars kostur, og bankinn var gerður að hreinum ríkisbanka, en við vonuðumst þó eftir, að sú breyting mundi koma að gagni að einu leyti. Við vonuðumst eftir því, að þeirri hatrammlegu rógsherferð, sem staðið hafði í 10 ár gegn Íslandsbanka og átti rætur sínar að rekja til þess annarsvegar, að hér var um einkafyrirtæki að ræða, og hinsvegar, að fjármagn þessa einkafyrirtækis var að nokkru leyti frá útlöndum, mundi linna, þegar fyrirtækið algerlega var komið yfir á herðar ríkisins. Skoða ég ummæli hæstv. dómsmrh. um fjárfestingu og töp Útvegsbankans sem hofleg og ádeilulaus í garð stofnunarinnar, og skoða það því svo, sem vonir okkar hafi að þessu leyti rætzt, að Útvegsbankinn þurfi ekki að verða fyrir rógi og ofsóknum misindismanns, sem þó finnur sig sem borgara í ríkinu. Skal ég hreinskilnislega segja það sem mína skoðun, að stj. Útvegsbankans er ekki hóti betri en stj. Íslandsbanka var á sinni tíð, en þar sem þannig er minni hætta á því, að Útvegsbankinn verði fyrir traustspjöllum af óvönduðu umtali, eins og Íslandsbanki varð fyrir, álít ég, að það sé gerlegt að ganga lengra en áður í þá átt að skaffa Útvegsbankanum rekstrarfé með áhættu ríkissjóðs. Útvegsbankinn hefir að þessu eina leyti sterkari aðstöðu en Íslandsbanki, að hann getur haft von um það að vera í friði fyrir ofsóknum professionellra rógbera.