20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Jón Þorláksson:

Skyldu það ekki hafa verið atvinnuvegir landsins, sem töpuðu þessum 25 millj. kr.? Ég hefi komizt að þeirri niðurstöðu í rannsókn, sem gerð var í öðrum tilgangi, að 1920 töpuðu atvinnuvegir landsins 80 millj. kr. eftir þá. laga gengi ísl. kr. Það þarf því engan að furða, þó að eitthvað af þessu tapi hafi skollið á bönkunum. Annars stóð ég upp til að leiðrétta tvennt í ræðu hæstv. dómsmrh. Hann gat þess, að ég hefði hækkað ísl. kr, bönkunum til tjóns, og það hefði lamað þá mest. Hækkunin, sem fram fór 1924–1925, var gerð af þriggja manna nefnd, er svo var skipuð, að einn var úr Landsbankanum, annar úr Íslandsbanka og sá þriðji stjórnskipaður. Landsstj. greip aðeins einu sinni inn í starfsemi þessarar n., og þá var það ekki til þess að ýta undir hækkunina, heldur til þess að hindra hana.

Hitt, sem ég ætlaði að leiðrétta, þó það sé leiðinlegt að þurfa að leiðrétta söguleg atriði hjá þeim eina sagnaritara, sem við eigum hér í d., var það, að hæstv. ráðh. sagði, að meirihlutavald Íslandsbanka hefði áður verið hjá hluthöfunum. Veit hæstv. ráðh. það virkilega ekki, að meirihlutavaldið í Íslandsbanka var að forminu til hjá íslenzka ríkinu frá upphafi, af því að 4 af 7 bankaráðsmönnum voru skipaðir af íslenzka ríkisvaldinu ? Og í reyndinni var það einnig frá 1921, því að þar í frá skipaði stj. líka 2 af 3 bankastjórunum. Svo kemur hæstv. ráðh. og segir, að meirihlutavaldið hafi verið hjá hluthöfunum og þeir hafi stjórnað svo illa. En allan þann tíma, sem þessi styrr stóð um það, hvort bankinn yrði að velli lagður eða ekki, var meirihlutavald bankaráðs og framkvæmdarstjórnar í höndum ríkisins. Ég held því, að hæstv. ráðh. geti ekki vísað í þá tilhögun til stuðning kenningu sinni, að það fram gangi svo sérstaklega góð bankastjórn, ef meirihlutavaldið er í höndum ríkisins, því að mér hefir ekki fundizt á honum, að honum fyndist Íslandsbanka hafa verið stjórnað svo vel þau árin, sem ríkið hafði meirihlutavaldið bæði í bankaráði og framkvæmdarstjórn.