20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla aðeins að segja fæin orð, til þess að leiðrétta sögulega skekkju hjá hv. 1. landsk. Hann veit það, að Íslandsbanki var stofnaður sem hlutafélag. En það breytir engu, að eitt af því lævísa við þetta hlutafélag var það, að það bjó til tyllistöður, sem kallað var bankaráð, en var áhrifalaust með öllu. Bankaráðsmennirnir sátu norður á Hólmavík eða á Akureyri og gerðu ekkert fyrir bankann annað en það, að þeir fengu dálitla peninga fyrir það að skrifa einhvernveginn nöfn sín undir. Þetta var ekkert annað en málalið, sem bankinn fékk. Og það sýnir einmitt, að bankinn var hlutafélag, að hann hafði frá byrjun útlendan bankastjóra, þangað til hann var orðinn svo aumur af sinni eigin óstjórn, kringum 1920, að menn, sem hv. 1. landsk. veit, hverjir eru, keyptu Tofte bankastjóra út fyrir 100 þús. kr., og hann hvarf svo af landi burt frá bankanum á hausnum. Og þá getur maður sagt, að hlutafélagið hafi verið sett undir eftirlit. Það var náttúrlega hlutafélag fyrir því, þó að það væri orðið ósjálfbjarga.