05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

1. mál, fjárlög 1933

Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. tilheyrendur nær og fjær!

Ég verð að láta það bíða þangað til síðar að gera aths. við ræður tveggja hv. síðustu ræðumanna. Ég mun á þessum hálftíma. eftir því sem hann hrekkur til, svara þeirri ræðu, sem ég komst ekki yfir að svara í gær, ræðu hv. 2. þm. Skagf., sem eldhúsumr. hófust með.

Hv. þm. flutti mjög rækilega ræðu, enda mun hann hafa lagt í hana mikla vinnu og undirbúning. Hann hefir líka alla aðstöðu til þess. Hann hefir langa tið verið ráðh. og setið í öllum ráðuneytunum, og þar af leiðandi er hann kunnugur öllum málum í þjóðlífi okkar. Hann hefir verið endurskoðandi landsreikninganna um langan tíma og sér því hvern reikning, sem fer til endurskoðendanna. Hv. þm. er duglegur maður, og þori ég því að fullyrða, að ekkert hefir farið fram hjá honum. Hann hefir þess vegna tínt allt það til í ræðu sinni, sem einhverju máli skiptir — a. m. k. allt það, sem hann telur styðja sinn niðurrifsmálstað.

Loks vil ég benda á það raunverulega atriði, að hv. 2. þm. Skagf. flutti ræðu sína sem þaulæfður málaflutningsmaður, enda er það nú atvinna hans. Hélt hann mjög rækilega fram öllu því, er studdi og fegraði málstað hans sjálfs. Það er venja málaflutningsmannsins að benda eingöngu á þau atriði, sem eru máli hans til stuðnings, og túlka þau eftir föngum, alveg án tillits til þess, hvað rétt er í málinu; það lætur hann sig ekki varða neitt um. Hina hlið málsins á sá málaflutningsmaðurinn að skýra, sem á móti stendur. Ræða hv. 2. þm. Skagf. var einhliða túlkun málaflutningsmannsins, flutt frá einstrengingslegasta sjónarmiði stjórnmálaandstæðings.

Til samanburðar þessu vil ég rifja það upp, þegar ég var í andstöðuflokki íhaldsstjórnarinnar hér á Alþingi, og bera þessa framkomu saman við mína aðferð þá. Ég hafði þá þann starfa, fyrir hönd mins flokks, að gegna eldhúsverkunum á eldhúsdaginn, en hv. 2. þm. Skagf. var í stjórnarsæti. Ég var þá svo barnalegur að fara daginn áður til ráðh. og tilkynna þeim, hvaða málefni og aðfinnslur ég ætlaði að bera fram á eldhúsdegi, til þess að þeir gætu verið viðbúnir að svara fyrir sig. Þetta var vitanlega gott til þess að fá sem fyllstar upplýsingar viðkomandi hinum einstöku málum og leiða hið sanna í ljós, en þetta var ekki aðferð málaflutningsmannsnis. Að sjálfsögðu ræður hver sínum aðferðum og uppsker svo eftir því.

Hv. 2. þm. Skagf. taldi upp mýmörg einstök atriði, eftir margra vikna vinnu við endurskoðun landsreikninganna, og tíndi fram svo mörg atriði, og að mér alveg óviðbúnum, að ég hefi ekki fullan viðbúnað til bess að svara þeim öllum út í yztu æsar. Ég man að vísu eftir mörgu, og ýmsu, sem hv. þm. minntist ekki á, en það er ómögulegt að komast yfir að svara því öllu, og það þó að ræðutími minn væri helmingi lengri, hvað þá nú, þegar stj. hefir helmingi styttri tíma til andsvara en andstöðuflokkar hennar. Hv. 2. þm. Skagf. hugsar sem svo: ég tíni allt fram frá sjónarmiði málaflutningsmannsins, sem orkað getur tvímælis eða vakið grun. Hvað kemur mér það við, þó að ömögulegt sé að koma við andsvörum eða skýringum; ráðh. um það, þó að eitthvað verði eftir ósvarað. Fólkið, sem á hlustar, verður að meta þessar aðferðir eftir föngum og draga sínar ályktanir af þeim.

Ég tel mér skylt að benda á þessa aðstöðu áður en ég svara. Reglurnar um útvörpun þingræðna á eldhúsdegi eru þessar, og þýðir ekki um þær að fast. Hv. 2. þm. Skagf. notar málaflutningsmannsaðstöðu sína út í æsar frá sjónarmiði hins harðvítugasta málafl.manns. Það er hann sjálfráður um, en fólkið, sem á hlustar, á að vita, að svona er aðstaðan.

Ég vil enn benda á eitt almennt atriði. Á eldhúsdögum á að bera fram aths. og ádeilur út af þeim gerðum stj., sem fram hafa farið frá því að síðasti eldhúsdagur var háður. Að vísu mætt teygja þetta nokkru lengra, þannig, að eldhúsræður megi ná yfir þáverandi kjörtímabil. En þegar almennar kosningar fara fram, þá eru þær allsherjareldhúsdagur eða dómsdagur yfir þeirri stj., sem með völdin fer; þá verður hún að standa frammi fyrir kjósendum með allsherjarreikningsskap gerða sinna. Ég lít svo á, að eldhúsdagsræða hv. 2. þm. Skagf. og annara stjórnarandstæðinga hefði aðeins átt að ná yfir það, sem gerzt hefir síðan um síðustu kosningar. En í ræðu hv. 2. þm. Skagf. eru dregnir fram atburðir að langmestu leyti frá fyrra kjörtímabili, frá árunum 1928–1930, aths. um margrædda og marghrakta hluti. Um þá hluti er genginn dómur þjóðarinnar í síðustu kosningum,— hæstaréttardómur,— dómur kjósendanna. Vitanlega bannar enginn hv. 2. þm. Skagf. að rifja þetta upp, —en ég lít svo á, að það sé glöggur vottur um veikleikamerki hjá hv. þm. Þetta er uppsoðinn, sangur og gamall matur úr síðustu kosningum, af því að hv. þm. hefði svo lítinn eldivið frá því, að þær fóru fram. Gamla Morgunbl.dálka varð hann að nota til uppkveikju í eldhúsinu að þessu sinni, og kynda undir katlinum með gömlum, mygluðum pappír úr prentsmiðjunni við Austurstræti. — Þá kem ég að síðasta atriðinu almenns eðlis, sem ég nefndi, til þess að sýna enn betur hann blæ, sem var á ræðu hv. 2. þm. Skagf. — Ég ætla að taka dæmi úr athafnalífi þjóðarinnar, af minna sviði en ríkisreksturinn er, dæmi af samvinnufélagi bænda — vaxandi, öflugu félagi. Það ganga yfir góðæri, afurðir seljast ágætlega, reksturinn gefur mikinn að, bændnr hafa töluvert fé banda á milli, félagið hefir mikla veltu og gott lánstraust, þannig, að nægilegt fé stendur því til boða til að starfa með. Stórhugur og framfaraþrá grípur alla félagsmenn; það er yfirleitt eðli okkar flestra Íslendinga, þegar vel árar. Menn trúa og treysta á jarðir sínar og héruðin. Menn trúa því, að framfarirnar gefi þeim öruggasta arðinn. Einstaklingarnir ráðast í ræktunar- og byggingarframkvæmdir, og þess vegna fer félagið líka að ráðast í nýjar framkvæmdir. Sláturhúsið, sem var gamalt, er stækkað: komið er upp nýju frystihúsi til tryggingar afurðasölu bænda, og til þess að brynja þá gegn kreppunni. Mjólkurbú er stofnað meðal bænda héraðsins; það er önnur brynjan. Stuðningur er veittur til þess að leggja nauðsynlegan veg, brýr o. fl., og til þess að halda uppi örari samgöngum innanhéraðs. Félagið lánar bændum fé til verkfærakaupa og til kaupa á útlendum áburði. Það er jafnvel gengið svo langt að fremja það ódæði að hlynna að forstjóra kaupfélagsins og forgöngumanni framfaranna á hann hátt að ívilna honum í launum, bæta íbúðarhús hans, eða að honum eru jafnvel veitt þau hlunnindi að fá frían eldivið og upphitun sem launauppbót. Svo kemur viðskiptakreppan, hörð og vægðarlaus, harðasta kreppan á öldinni. Verðhrun afurðanna er ógurlegt. Allir lánardrottnar kalla að í einu um innheimtu á sínum lanum. Engin lán eru fáanleg. Þeir, sem félagið á hjá, geta illa staðið í skilum og sumir alls ekki. Það kreppir að félaginu og félagsmönnum. Viðbrigðin eru sár. Margir bíta á jaxlinn og herða að sér reimina. Aðrir þola ekki mótganginn, þeir sem þreklausastir eru til að breyta um lífsvenjur og láta nokkuð á móti sér. Félagsmenn fara að ásaka hverir aðra og bera hver aðra brigzlum; sumir halda því fram, að betur væri ógert það, sem þeir væru búnir að framkvæma. Flestir snúa sér að stj. og forstjóra félagsins og öðrum forgöngumönnum þess og segja: Þú festir fé í frystihúsinu og endurreistir sláturhúsið; betra hefði verið, að það fé væri nú í sparisjóði. Þú gerðir þetta. Rjómabússtofnunin er að mestu þér að kenna. Þú réðir því, að þessi jarðræktarverkfæri voru keypt. Þú festir féð í jarðrækt og afurðarkaupum. Þú kastaðir fé til aðgerða á íbúð forstjórans. Þú veittir honum þau hlunnindi að fá frían eldivið til hitunar og suðu. Nú væri munur að hafa allt þetta fé óeytt í sjóðum.

Þetta er smækkuð, en þó nákvæm mynd af því, sem gerzt hefir á þjóðarbúinu síðustu missirin. Öll þjóðin hefir viljað framfarir, allir hafa dregizt þar með; jafnvel íhaldsmenn og aðrir andstæðingar stj. hafa oft langsamlega yfirboðið stjórnarflokkinn og heimtað miklu meiri framfarir en stjórnin hefir viljað ganga inn á, og mun ég nefna glögg dæmi þessa síðar. Núna í kreppunni kemur svo afturkastið. Ásakanirnar eru byrjaðar. Öllu á að dengja á stj. Nú á hún ein að bera ábyrgð á eyðslunni. Andstæðingar stj. mála fjandann á vegginn. Nú vaða þeir fram á rit- og ræðuvöllinn, telja allt ómögulegt og tala um ríkisgjaldþrot, og þetta láta þeir sér sæma á sjálfu Alþingi. Nú eru allar framfarirnar einskis virði í þeirra augum, ekkert er gott og til gagns nema sparifé í bönkum. Svona er andinn í ræðum þeirra, eins og heyra mátti á hv. 2. þm. Skagf.

Þetta jafnvægisleysi í kröfum og framkomu í þjóðmálum er engum til soma. Það er blátt áfram ósæmilegt, í fyrsta lagi að yfirbjóða stjórnmálaandstæðinga sína í kröfum um framfarir og til fjár úr ríkissjóði og koma síðan á eftir með þyngstu ásakanir fyrir, að þeir skyldu nota fé ríkissj. til framfarafyrirtækja. Við alþm. erum allir samsekir í þessu efni, að svo miklu leyti, sem um sekt er að ræða. En höfuðabyrgðina á stefnunni í ríkisbúskapnum, á framsókninni og athöfnunum undanfarin missiri, ber vitanlega stj. og þar næst framsóknarflokkurinn. Og allir höfum við verið gagnteknir af þeim áformum að nota góðærið til þess að gera sem mestar umbætur á sem flestum sviðum þjóðlífsins.

Ég kem þá að sérstöku dæmi. Hv. 2. þm. Skagf. varð langtíðræddast um fjárhagsmálin árið 1930, og vitnaði hann sérstaklega í tölur frá því ári. Það er vitanlega mesta fjáreyðsluárið. Hv. þm. talaði um hina óheyrilegu fjárbruðlun á því ári, benti á tölurnar á einstökum liðum til samanburðar því, sem áður hefði verið greitt á sömu liðum, og sagði við áheyrendurna: „Athugið tölurnar. Þær tala“. En þetta er mjög einhliða fordæminu hjá hv. þm. Ég vil minna á, að það, sem veldur mestu um að flestir útgjaldal. eru hærri þetta ár en áður, er, að þá var stofnað til hinnar miklu þjóðarsamkomu, Alþingishátíðarinnar. En slík samkoma verður ef til vilj ekki haldin aftur fyrr en árið 2000, og okkar kynslóð lifir það ekki, að haldin verði aftur slík hátíð. Þetta er langmesta, merkilegasta, glæsilegasta og gagnlegasta hátið, sem þjóðin hefir haldið. Voru það við framsóknarmenn einir, sem réðu því, að hátíðin var haldin? Nei, þóðin öll vildi halda hana; allir flokkar réðu því og stóðu að þeirri framkvæmd. Þessu máli fylgdi sú gæfa, að allir flokkar voru sammála um það. Fulltr. stjórnmálaflokkanna unnu kauplaust í hátíðarn. og lögðu á sig mikið erfiði. Um það hefir ekkert verið talað. En ég vil hér nota þetta tækifæri gagnstætt því, sem hv. 2. þm. Skagf. gerði, og lýsa því yfir, að þátttaka andstöðuflokka stj. í þessu máli hafi verið þeim til sóma. Nm. eiga allir fyllstu þakkir skyldar; þeir störfuðu hlutlaust (loyalt) og gengust undir vandann og ábyrgðina af starfinu, allra helzt formaður nefndarinnar, og er það honum til mestu sæmdar. Þess vegna vil ég flytja honum sérstakar þakkir. En Alþingishátiðin kostaði mikið fé, og miklu meira en tölurnar svona beinlínis á pappírnum, enda þótt það sé geysimikið. Fé var lagt í allskonar endurnýjanir og viðgerðir, og er það fært á við og dreif í landsreikningnum fyrir árið 1930. Aðgerð og ýmiskonar útbúnaður fór fram á Alþingishúsinu, ráðherrabústaðnum og á Þingvöllum vegna hátíðahaldanna; ennfremur var mikið fé lagt í nýjan veg til Þingvalla, aðgerðir á ýmsum vegum, til brúargerða og ótal margs annars, sem of langt er upp að telja.

En hver er svo útkoman og árangurinn af Alþingishátíðinni? Almenn þjóðarvakning, auk þess sem hún hefir orðið okkur til hins mesta sóma inn á við og ekki sízt út á við. Þjóðin mun búa að áhrifum Alþingishátíðarinnar um áratugi, bæði beint og óbeint, einstaklingarnir og heildin. Og þjóðin er stóranægð með það, hvernig hátíðin fór fram. Hún setti sinn svip á þjóðina í augum erlendu gestanna. Það er ekki undarlegt, þó að hátið eins og þessi, sem haldin er einu sinni á hverjum þúsund árum í sögu þjóðarinnar kosti þjóðina bæði fjármuni og fyrirhöfn. Og þegar allt var svo í garðinn búið, eins og ég hefi áður lýst, þá er það ljóst, að enginn veit það betur en málaflutningsmaðurinn og endurskoðandi landsreikinganna, Magnús Guðm., hvað Alþingishátíðarkostnaðurinn kemur víða við. Það er ekki drengilegt af málaflutningsmanninum að draga fram jafneinstrengislega mynd og hann gerði af ríkisrekstrinum 1930, og nota sér af því, að engin er jafnkunnugur og hann landsreikningunum fyrir það ár, nema hv. þm. V.-H.

Það vita fáir aðrir en endurskoðendur landsreikninganna, hvað kostnaður við Alþingishátiðina kemur þar víða fram. Ég verð því að segja, að það er hvorki fallegar eða stórmannlegar eftirtölur hv. 2. þm. Skagf. út af hátíðarkostnaðinum, eða að hann skuli aðeins ásaka stj. og Framsóknarflokkinn fyrir þau útgjöld. Þessu stóra og einstaka atriði, að því er snertir kostnaðinn við Alþingishátíðina, vil ég sérstaklega skjóta undir dóm þjóðarinnar. Ég vil skjóta því undir dóm þjóðarinnar, hvort henni sýnist réttlátt, að stjórnin sé ásökuð fyrir þau útgjöld, sem urðu á því ári í sambandi við hátíðina og stofnað var til með einróma vilja þjóðarinnar.

En þetta á einnig við um mestan hl. þeirra stóru útgjaldapósta, sem hv. 2. þm. Skagf. nefndi, t. d. allt það, sem hann taldi upp í sambandi við lántökur ríkisins og stærri framkvæmdir. Þetta lagði hv. 2. þm. Skagf. allt á bak stj. og Framsóknarflokksins, en þeir, sem kunnugir eru þingmálunum, vita, að þingflokkarnir bera sameiginlega ábyrgð á þessu. Ég skal nefna nokkur atriði, aðeins þó þau stærstu:

Fjárframlag til Landsbankans 3 millj. 400 þús. kr., til Búnaðarbankans 3 millj. 600 þús. kr., til Útvegsbankans 7 millj. kr., til Fiskiveiðasjóðs Í millj. 250 þús. kr. Þetta nemur samtals um 151/4 millj. kr. Um það hafa allir flokkar verið sammála og talið sjálfsagt að greiða þannig fyrir þessum lánsstofnunum. Þá vil ég ennfremur nefna landssímastöðina í Rvík, ásamt lóð og viðbótarbygging í Hafnarfirði, kr. 890 þús., sjálfvirka stöðin með streng til Hafnarfjarðar kr. 1110 þús., samtals 2 millj. kr.; landspítalann, framlag á árunum 1927–31 ca. 11/2 millj. kr.; strandvarnarskipin tvö — Ægi og Þór —– ca. 1200 þús. kr.; útvarpsstöðina í Rvík ca. 800 þús. kr.; síldarverksmiðjuríkisins á Siglufirði ca. 11/2 mjllj. kr.; samtals 7 millj. króna. Ég hefi hér talið upp nokkra liði, sem eru samtals 22–23 millj. kr. og allir flokkar hafa staðið að. Má á því marka, hvað ádeila hv. 2. þm. Skagf. er hlutdræg.

Ótalmargt fleira mætti nefna, en ég læt þetta nægja. Þá kem ég að því, sem meira er í þessu sambandi. Það mætti nefna fjölmörg dæmi þess, að Sjálfstæðisfl. hefir yfirboðið Framsóknarfl. gífurlega í fjárkröfum á mörgum sviðum, og þá sumpart fengið að ráða. Það er alls ekki rétt, að við framsóknarmenn höfum ráðið öllu í þinginu. Þegar allir þm., sem stóðu utan Framsóknarflokksins, sameinuðust, þá höfðu þeir, á síðasta kjörtímabili, meira hl. í báðum d. þingsins. Framsóknarfl. hafði þá aðeins 6 menn í Ed. og 13 í Nd., og gat flokkurinn því ekki af eigin rammleik komið fram sínum málum í þinginu, en andstöðuflokkarnir, sameinaðir, gátu hinsvegar komið vilja sínum fram. Ég skal t. d. nefna eitt mal, sem þeir þröngvuðu upp á stj., en það var um kaup á þriðja strandvarnarskipinu, „Þór“. Þeir heimtuðu sömuleiðis, að komið væri á þráðlausu skeytasambandi við útlönd, sem hefði kostað ríkissjóð c. 500000 kr. Þeir (Íhaldsmennirnir) heimtuðu, að Íslandsbanki yrði endurreistur og að ríkið tæki á sig alla áhættuna af því, og ef þeir hefðu mátt ráða, þá hefði verið hafnað þeim 6 millj. kr. í hlutafé og áhættufé, sem Útvegsb. hlaut innanlands og utan, og sú upphæð verið lögð beinlínis á bak þjóðarinnar eða ríkisstj. Loks vil ég minnast á hin gífurlegu yfirboð Íhaldsmanna í rafveitumálunum og í sambandi við Sogsvirkjunina. Hvílík yfirboð og fjárkröfur frá þeirra hálfu til ríkisins og almennings í landinu, alveg út í bláinn. Það mun nú vera öllum ljóst, hvað framkoma þeirra í þessum málum ber vott um mikið ábyrgðarleysi, og þess gætti líka á fleiri sviðum.

Lítum svo á þessa einhliða málafærslu hv. 2. bm. Skagf., með fortið Íhaldsfl. að baki sér, þar sem hann leyfir sér að saka stj. um allar misfellur á meðferð ríkisfjár undanfarið kjörtímabil. Ég skýt því aftur til allra, sem heyra mál mitt: Svona flytur einhliða málaflutningsm. mál sitt. þess vegna beini ég til áheyrendanna hinni fornu aðvörun: „Trúið honum vart“. Út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði um nýjársræðu mína, og hinum mörgu og margendurteknu ummælum hans og annara um, að stj. hefði átt að leggja feð fyrir í sjóði, vil ég segja þetta: Vitanlega er það alveg rétt, að fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið er það fyrsta skyldan, að sjá borgið hinu fjárhagslega sjálfstæði, reisa sér ekki hurðarás um öxl og hafa jafnan forsjá samfara kappi um framfarirnar, og einnig um hina allra gagnlegustu hluti. En ég segi hitt jafnhiklaust, að ég fordæmi ekki hinn hjartsýna, stórhuga mann, sem er mikilvirkur á góðu árunum, og ég virði hann tvöfalt, ef hann er líka stórtækur um að þrengja fast að sér, þegar blæs á móti. — Stórhugur og bjartsýni á góðu árunum, mikið þrek og sjálfsafneitun á hörðu árunum, það eru eiginleikar sannrar mannslundar. Ef að stranglega væri lifað eftir andanum í kenningum hv. 2. þm. Skagf., þá yrðu engar framkvæmdir á þjóðarbúinu, skuldir, ef til vill, eitthvað minni, en aðalútkoman yrði sú, að minna fé kæmi í ríkissjóðinn. Engri stj. mundi haldast það uppi að liggja með millj. kr. í sjóði; þá kæmu ýmist fram kröfur um skattalækkun eða um fjárveitingar til brýnna nauðsynja. Afleiðingarnar af kenningum hv. 2. þm. Skagf. eru í fáum orðum þessar:

1. miklu minni framfarir. Færri brýr og vegir, nálega enginn styrkur til samgöngubóta, skóla, rjómabúa, frystihúsa og jarðræktar.

2. Meiri fé hefði að vísu orðið eftir í vösum skattþegnanna. Sumt af því hefði komið atvinnnvegunum að gagni, sumt máske verið í sparisjóðsbókum, en langmestur hl. þessa fjár hefði farið í aukin lífsþægindi og aukna eyðslu.

Hvort er betra, þessi stefna, eða framkvæmdirnar og verðmætin, sem hið opinbera hefir skapað? Hvor stefnan veitir þjóðinni farsælli brynju fyrir framtíðina?

Ég er sammála hv. 2. þm. Skagf. um hað grundvallaratriði, að fyrst verði að sjá borgið hinu fjárhagslega sjálfstæði þjóðarinnar og lífsþörfum einstaklinganna, en svo skiljast leiðir; þá mætast tvær lífsskoðanir og hver hefir sína trú á því, hvað það er, sem tryggir bezt hið fjárhagslega sjálfstæði; hvort heldur framfarirnar eða spariféð. Mín lífsskoðun er innan þessa ramma: Heilbrigðar og skynsamlegar framfarir eru bezti sparisjóðurinn. Mín trú á landið er sú, að umbætur á landinu og þau fyrirtæki, sem bæta lífsmöguleikana í landinu, gefi hæsta og tryggasta vexti og veiti þjóðinni sterkasta brynju. Í styztu máli verður gert upp á milli okkar hv. 2. þm. Skagf. á þann hátt að svara spurningunni um það, hvort sé betra framsókn eða íhald. — Það er gamla eilífa deilumálið, og út af því höfum við skipað okkur hvor í sinn þjóðmálaflokkinn. Vera má, að hv. 2. þm. Skagf. hafi meiri líkur fyrir að laða menn til sín nú í kreppunni, en ég trúi bezt á styrkan framsóknarhug Íslendinga, jafnvel nú í kreppunni.

Þá kem ég að síðasta atriðinu í ræðu hv. 2. þm. Skagf., um sparnað í ýmsum smærri útgjaldaliðum ríkissj., en hann lagði sérstaka áherzlu á hina smærri liði. Hv. þm. spurði: Vill stj. spara þetta eða hitt. Er nokkur sparnaðarhugur hjá stjórninni? Ég marka hug stjórnarinnar á svörum hennar við þessum spurningum mínum, sagði hv. þm. Og svar mitt er þetta: Allar einlægar bendingar um sparnað, hvaðan sem þær koma, eru teknar vel upp af mer. Ég játa afdráttarlaust, að nú er það höfuðnauðsyn að spara allt, sem hægt er að spara, og stöðva óþarfa eyðslu. Ég hefi þegar látið athuga margt í því efni, og er fús til samvinnu við alla þá, sem ekki nota orðið sparnað aðeins til þess að flagga með því. Ég vil benda hv. 2. þm. Skagf. og oðrum áheyrendum mínum á, að ég er þegar búinn að ganga miklu lengra en hv. þm. spurði um, til að prófa sparnaðarhug minn. Ég vil benda á nokkur dæmi þessu til sönnunar, sem öll eru um sparnað í starfsmannahaldi:

1. Tryggingarmálastarfsins. Það hefir verið lagt niður.

2. Rafmagnseftirlitið sömuleiðis.

3. Vélaeftirlitið; það er falið mönnum á þann veg, að ríkið ber engan kostnað af.

4. hjá vitamálastjóra hefir verið farkkað mönnum.

Hjá vegamálastjóra sömuleiðis tveimur mönnum.

6. Í yfirstjórn landssímans. Þar var landssímastjóri, símaverkfræðingur og forstjóri landssímans. Þegar Gísli Ólafson dó, og Guðmundur Hlíðdal tók við, var hans starfi skipt á milli hans og stöðvarstjórans í Rvík.

Ég get nefnt miklu fleira, en bæti því aðeins við, að lækkuð hafa verið laun allra starfsmanna ríkisins um 15%, þeirra sem starfa utan launalaga.

Ef maður svo ber þetta saman við það, sem er gert annarsstaðar, — hver verður útkoman þá? Tökum Reykjavík, sem er alveg sambærileg fyrir þá sök, að flestir starfsmenn ríkisins eru hér. Í Reykjavík er engin launalækkun og sama dýrtíðaruppbót og áður var. Svo er það hjá bænum. Svo er það hjá Landsbankanum og Útvegsbankanum. Hjá útgerðarmönnunum hefir engin lækkun átt sér stað, hvorki hjá þeim sem vinna á sjó eða landi. Enn má nefna Eimskipafélagið, sem ekki hefir heldur lækkað við sína starfsmenn. Enginn hefir lækkað hann nema ríkisstj. Og þó er því haldið fram, að þar sé engin sparnaðarviðleitni. Beðið var um heimild á síðasta þingi um að lækka öll ólögboðin gjöld í fjárlögum um 25%. Sameinaðir sjálfstæðismenn oft jafnaðarmenn felldu þetta í Ed., en í þessari deild var það samþ. Hvernig getur svo hv. 2. þm. Skagf. og flokksmenn hans sagt, að okkur framsóknarmenn vanti allan sparnaðarhug. Getur jafnvel hv. 2. þm. Skagf. efast lengur um sparnaðarviðleitni okkar?

Ég vil að lokum beina þeirri ósk og áskorun til hv. 2. þm. Skagf., að hann fari nú úr skikkju málaflutningsmannsins og líti á þessi mál af sanngirni. Ef hann gerir það, þá mun hann, sem hinn kunnugi maður, játa það, að af hálfu ríkisstj. er um hina mestu sparnaðarviðleitni að ræða.