25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

65. mál, raforkuvirki

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Meiri hl. allshn. mælir með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Í því eru ákvæði, sem fyrirskipa nauðsynlegt eftirlit með raforkuvirkjum í landinu, loftnetum og uppsetningu útvarpstækja, til þess að afstýra hættu af raforkutækjum og leiðslum og truflunum við útsendingu loftskeyta og útvarps.

Auk þessa eru ákvæði í 1. gr. frv. um að ákveða gjald á raforku í gjaldskrá, ef einstakir menn eða félög hafa fengið leyfi til að starfrækja raforkuveitu til almenningsþarfa, og skal hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarstj. samþ. gjaldskrána. Og í 2. gr. er sveitar- og bæjarstjórnum, sem starfrækja raforkuveitu til almenningsþarfa í umdæmi sínu, áskilinn einkaréttur til sölu í umdæminu á rafmagnstækjum og öðrum hlutum til raforkuvirkja. Með þessu er það tryggt, að verzlun með þessa hluti verði hjá réttum hlutaðeigendum, auk þess sem því mun nú þannig háttað á flestum stöðum, þar sem bæjarfélög reka raforkuveitur.

Minni hl. allshn. hefir ekki skilað neinu nál., en mér er kunnugt um, að hv. 2. þm. Reykv. setti ekki annað fyrir sig í frv. en ákvæðið í b-lið 4. gr., að eigendur orkuvera skuli greiða árlegt gjald til eftirlits ríkisins með raforkuvirkjum, 2 kr. af hverju kílóvatti málraun þeirra. Nú hefir hann flutt brtt. um að lækka niður í 1 kr. þetta gjald, sem eigendur raforkuvirkja eiga að greiða. Ég býst við, að af því megi ráða, að hann sé ekki á móti frv. að öðru leyti. Fyrir mitt leyti tel ég þessa brtt. ekki til bóta, og álít óþarft að ákveða gjaldið. Það ætti að fara nokkuð eftir því, hvað eftirlitið reynist dýrt, og ég tel ekki miklar líkur til, að það verði tekið hærra gjald en ástæða þykir til.

Hv. 1. þm. Rang. mun sérstaklega vera mótfallinn 1. og 2. gr. frv., og mun hann að öðru leyti gera sjálfur grein fyrir afstöðu sinni.