25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

65. mál, raforkuvirki

Jónas Þorbergsson:

Ég get verið þakklatur hv. meiri hl. allshn. fyrir afgreiðslu hans á þessu máli. Jafnframt skal ég geta þess í sambandi við brtt. á þskj. 411, að mér er kunnugt um, að hv. 2. þm. Reykv. er í raun og veru hlynntur málinu, að öðru leyti en þessu eina atriði, sem hann hefir hér flutt brtt. um. Ég leitaðist við að gera mér grein fyrir nauðsyn þessa máls í framsöguræðu minni við 1. umr. og álit ekki þörf á að endurtaka það nú. Hv. 1. þm. Rang. hefir að vísu gert grein fyrir nokkrum mótbárum gegn frv., en þær aths. hans snerta aðallega tvær fyrstu greinar þess og efni þeirra, sem vitanlega eru meira áhugamál hv. þm. Ísaf. heldur en mín, og eftirlæt ég honum því að svara þeim kafla í ræðu hv. 1. þm. Rang., eftir því sem honum þykir ástæða til.

Ég skal geta þess til almennrar skýringar á frv., að það er samið og flutt í samráði við Steingrím Jónsson, rafveitustjóra í Rvík, og hv. 2. þm. Reykv. bar sig saman við hann um þá brtt., er hann flytur. Steingrími Jónssyni þótti þar að vísu nokkuð langt gengið í brtt. og taldi það til skemmda, en að öðru leyti voru þeir sammála um frv.

Mér er kunnugt um, að rafvirkjafræðingur útvarpsins hefir mikinn áhuga fyrir því, að þetta frv. verði að lögum, einkum vegna ákvarðana þess um eftirlit með útvarps- og loftskeytatækjum.

Það hafa verið gerðar nokkrar tilraunir og varið talsverðu fé til þess að koma í veg fyrir útvarpstruflanir, en komið hefir í ljós, að það er ekki hægt á fullnægjandi hátt samkv. núg. lagaákvæðum, og verður því að lögskipa fullkomið eftirlit.

Ég skal ennfremur gefa þær upplýsingar, að það hefir orðið að samkomulagi milli útvarpsins og rafmagnsstjórans í Rvík, að hann tæki að sér eftirlit með útvarpstruflunum hér, sem þó aðeins er einn þáttur í eftirlitinu, en getur ekki komið til framkvæmda, nema lögfest verði þau ákvæði, sem felast í þessu frv.

Að því er snertir eina mótbáru hv. 1. þm. Rang., að hér sé um að ræða stofnun nýs embættis, þá vil ég gefa þá skýringu, að það mun að líkindum vera hægt að semja við þann mann, sem þegar hefir embætti á þessu sviði, um að taka þetta að sér; ætti það þá síður að vaxa mönnum í augum. Það er að vísu rétt, að eftirlit með raforkutækjum er allgott hér í Rvík, en úti á landi er það mjög lítið og sumstaðar ekki neitt. Eins og nú er komið, er enn meiri ástæða til þess en áður hefir verið að lagfæra þetta, vegna þess að nú eru fjölbreyttari tæki í sambandi við raforkuverin, og láta eftirlitið á öllu landinu heyra undir stjórn eins manns, á svo ódýran hátt sem unnt er. Þannig er hægt að fá allgóða úrlausn á þessu máli.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði hóflega um þetta mál frá sínu sjónarmiði, og ég get tekið undir það, sem hann gerði kost á, og er tilleiðanlegur að ganga til samvinnu við hann um einhverjar smábreyt., ef þær raska ekki þeim atriðum, sem ég ber mest fyrir brjósti og koma ekki í bága við málið að öðru leyti.