05.03.1932
Efri deild: 21. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

62. mál, kirkjugarðar

Flm. (Jón Jónsson):

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv.; það lá fyrir vetrarþinginu 1931 og var þá samþ. hér í þessari hv. þd. nú er það flutt samkv. heiðni formanns mþn. í kirkjumálum.

Eins og flestum mun kunnugt, þá eru kirkjugarðar víða illa hirtir og lítt til sóma. Þetta frv. á að ráða bót í þessu efni og tryggja sæmilega umgengni þeirra samkv. ákvæðum, sem þar að lúta. Jafnframt eru í frv. ákvæði um það, að kirkjugarðsstæði séu vel og tryggilega valin frá heilbrigðissjónarmiði, þannig að eigi stafi hætta af þeim. Þá eru í frv. lagðar ýmsar skyldur og kvaðir á sveitarfélög og bæjarfélög umfram það, sem nú hvílir á þeim. Kostnaði og gjöldum vegna kirkjugarða er nú jafnað niður sem nefsköttum á safnaðarmenn. En samkv. ákvæðum þessa frv. eiga sveitar- og bæjarfélög að leggja til hæfilegt kirkjugarðsstæði ókeypis, svo og hleðslu- eða steypuefni í girðingu um grafreitinn, en þær kvaðir, er þegar eru á jörðum og lóðum, þar sem kirkjugarðar standa, haldast óbreyttar. Sömuleiðis er sveitar- og bæjarfélögum skylt að leggja veg frá kirkju að kirkjugarði og halda honum akfærum. Ef tekjur kirkjugarðs hrökkva ekki fyrir útgjöldum, skal sóknarnefndin jafna því, er á vantar, á útsvarsgreiðendur eftir efnum og ástæðum sem hundraðsgjaldi af útsvörum, en eigi sem persónugjöldum. Loks eru í frv. ákvæði um heimagrafreiti o. fl., og stjórninni er ætlað að gefa út reglugerð um kirkjugarða, með nánari ákvæðum og leiðbeiningum um ýms atriði.

Yfirleitt virðist þessu öllu stefnt til bóta frá því, sem nú er, og vona ég, að hv. þd. greiði fyrir frv. þessu. Ég veit ekki, hvort ástæða er til að vísa því til nefndar; á þinginu í fyrra hafði mennt mn. frv. til meðferðar, og nú eru flm. þess allir þar, svo að ég læt hv. þd. um það, hvað hún gerir við frv., og geri enga till. um það.