18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

62. mál, kirkjugarðar

Vilmundur Jónsson:

Ég held, að hér sé gott frv. á ferð, eða a. m. k. mörg ákvæði þess. En ég stóð þó einkum upp til þess að vekja athygli á því, að með þessu frv. og ræðu hv. frsm. er stigið spor til móts við mig á þeirri braut að draga ýms veraldleg mál undan kirkjunni. Hér á að taka kirkjugarðana undan valdi sóknarnefnda, og það er spor í þá réttu átt, að draga verulegar athafnir undan kirkjuvaldinu. Þetta er nú gott og blessað. En það mun vera fleira en kirkjugarðarnir, sem er í vanhirðu og fer í handaskolum hjá þessari stofnun. Ég hefi verið að lesa prófarkir af heilbrigðisskýrslum og langar til að lesa hér upp nokkrar aths. og upplýsingar mætra lækna um kirkjuhúsin sjálf í héruðum þeirra.

Héraðlæknirinn í Skipaskagahéraði segir: „Um sveitakirkjurnar tvær er lítið að segja. Þær munu hafa verið notaðar eitthvað í sumar, en frá því í október hefir aðeins verið messað einu sinni í Leirárkirkju, en aldrei í Saurbæ. Presturinn í Saurbæ situr suður í Reykjavík og hefir ekki sézt í vetur“. Þessi læknir getur ekki um, hvernig að kirkjugörðunum er búið. Það getur auðvitað verið í góðu lagi.

Læknirinn í Borgarnesi segir m. a.: „Kirkjur eru nokkuð margar, en smáar í héraði mínu og munu vera lítt notaðar — sumar ekki hitaðar á vetrum, af því að ofn vantar eða þá eldivið; veit ég, að prestar lesa oft ræður yfir heimafólki og nokkrum öðrum af næstu bæjum inni í baðstofu á kirkjustaðnum, þegar kalt er. Kirkjunum þyrfti að fækka og flytja þær í samræmi við nýlegar vegagerðir. Viðtækjum útvarps er óðum og fjölga, og býst ég við .... að kirkjuferðir leggist smátt og smátt niður í sveitum“.

Læknirinn í Ólafsvík segir m. a.: „Kirkjur eru 6 í héraðinu, flestar óhitaðar og því óvistlegar og miður hollar á vetrum“.

Læknirinn á Vopnafirði talar um kirkjugarðana, og þau ummæli koma auðvitað beint við það mál, sem hér liggur fyrir, og sýnir, hvílíkri fádæma vanhirðu kirkjugarðarnir eru í sumstaðar. Hann segir: „Kirkjugarðar eru í hinni megnustu vanhirðu og alveg skipulagslausir. Leiði eru oft ekki hlaðin upp fyrr en eftir mörg ár, afar stór og klunnaleg. Umgengni öll hin hörmulegasta. Allskonar rusl, svo sem visnaðir kransar o. þ. h., liggur um allt. Lítil eða engin rækt synd með því að girða leiðin og gróðursetja á þeim blóm eða tré. Blómsturpottum og krukkum, sem sett eru á leiðin með blómum í, er venjulega stolið“.

Í Mýrdalshéraði getur læknirinn þess, að ein kirkja, Skeiðflatarkirkja, hafi verið hresst við, en svo segir hann: „Hinar tvær eru ofnlausar og hrörlegar, önnur svo, að prestur er hættur með öllu að messa í henni á vetrum“.

Þetta sýnir, að fleiru er ábótavant en kirkjugörðunum hjá þeirri helgu stofnun, en engu að síður er ég sammála hv. frsm. um, að þetta sé gott mál. Ég lít svo á, að fleira hljóti að fara á eftir, svo að kirkjan verði losuð við allar veraldlegar athafnir. Ætti hún þá á eftir að hafa óbundnari hendur til hinna andlegu starfa.