18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

62. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. þm. Ísaf. þurfti að nota tækifærið til að hnýta í presta og kirkjur, eins og hann þættist ekki hafa náð sér nægilega niðri áður í þeim efnum eða farið halloka á þeim vettvangi. Yfirleitt talaði hann um allt annað en mál það, sem fyrir liggur. Hann talaði einkum um kirkjuhúsin. Ég skal fúslega játa, að umhirða þeirra mætti vera betri. Vil ég skora á hv. þm. sem landlækni að beita sér fyrir því, að hitunartæki verði sett í allar kirkjur, svo að þær verði betri guðshús. Hann las töluvert um lélegt ástand kirknanna upp úr heilbrigðisskýrslum og vildi kenna prestum og sóknarnefndum um. Það er nú svo um alla einstaklinga og stofnanir, að henda má á sitthvað, sem betur mætti fara, og svo mun vera um læknana líka. Hversu sanngjarn skyldi hv. þm. Ísaf. finnast sá dómur um læknisstörf hans, ef einungis væri talað um þá sjúklinga, sem hefðu dáið í höndum hans, en hinna að engu getið, er hann hefir bjargað, þótt þeir hefðu sjálfsagt verið miklu fleiri?

Það á við allar starfsgreinir og einstaklinga, að þegar um það eru felldir dómar, ber ekki síður að líta á það, sem vel er gert, en hitt, sem miður fer. Og í þessum efnum ana minnast þess, að margir söfnuðir hafa innt fornfúst sjálfboðastarf af höndum með því að prýða og bæta kirkjur sínar. En um slíkt vildi hv. þm. Ísaf. sem minnst tala, og er hann kom að einni kirkju í skýrslu læknisins í Mýrdal, sem söfnuðurinn hafði gert mjög myndarlega við og sett í miðstöð, gekk hann framhjá henni og vildi fátt um tala. hér mun þó söfnuðurinn hafa lag fram 1000 kr. í þessu skyni. Á þetta er ekki minnzt, þótt hið opinbera geri ekkert í þessa átt. Og hvað hefir hið opinbera gert fyrir kirkjugarðana ? Lítið eða ekki neitt. því er undirstrikað í frv., að veitt sé sérstöku fjármagni til þeirra, svo að viðhald og hirða geti orðið sæmileg.

Hv. 1. þm. Skagf. fannst ákvæðin um heimagrafreitina vera of ströng. Ég skal játa, að svo er, og það er beinlínis gert til að takmarka tölu þeirra og til að sjá um, að þeir grafreitir, sem upp verða teknir, séu í góðri hirðu. Vera má, að umgengnin í heimagrafreitum sé góð þar, sem hv. 1. þm. Skagf. þekkir til, en ég veit dæmi þess, að hún er engu betri en í kirkjugörðum, þar sem ættir þær, sem notað hafa grafreitinn, hafa horfið frá jörðinni, og ekkert fé er veitt reitunum til viðhalds og engin skylda um viðhald. Því auðveldara sem sem mönnum er gert fyrir um heimagrafreiti, því minni sómi myndi kirkjugörðunum vera sýndur. Ég verð því að álíta, að rétt stefna hafi verið tekin upp í þetta frv. gagnvart heimagrafreitunum, enda veit ég það, að svipuð ákvæði hafa verið sett í lög annarsstaðar, þar sem þessi mál eru í beztu lagi.

Ég held, að allir geti verið sammála um það, að ekki sé æskilegt, á heimagrafreitum fjölgi mikið. Ég skil tæpast þá hv. þm., sem leggja áherzlu á að halda við mannamun, eftir að líkaminn er lagður í gröfina. Og auðvitað er sjálfsagt, eins og frv. gerir ráð fyrir, að tryggt sé, að þeim verði haldið við, þó að ábúendaskipti verði á jörðum. En til þess þarf fé, og til þess hofum við áætlað, að 600 kr. í legstaðasjóð væri hæfilegi. Hvað heimildina til ráðuneytisins áhrærir, ætla ég, að heimildarlögum sé jafnan beitt þannig, að eigi sé neitað um leyfi, ef öll skilyrði eru fyrir hendi. En ef svo er ekki, er ástæða til að setja hömlur.

Kirkjumálanefnd ræddi nokkuð um veðsetningaraðferðina, sem hv. 1. þm. Skagf. drap á, en taldi óheppilegt, að menn gætu þannig lagt kvöð á jörð sína um aldur og æfi, og sé eðlilegra, að þeir leggi sjálfir fram upphæðina, en að binda eftirkomendunum bagga.

Um eftirlitið er það að segja, að sóknarprestar reyna alstaðar að líta eftir heimagrafreitum og kirkjugörðum og hvetja til góðrar umgengni. En við töldum betra aðhafa eftirlitið þriðja til fjórða hvert ár. Það getur orðið til að hjálpa prestinum til að fá umbætur, ef von er á prófasti. Í þessu er fólgið aðhald eins og í visitazíuferðum um kirkjur og kirkjugarða. Prestar geta haft misjafna getu til að koma umbótum fram, en prófasturinn venjulega vinsæll og laginn á að miðla málum.