18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

62. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er aðeins örstutt aths. út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði. Það er um það, að hann geti ekki skilið, að kirkjugörðunum yrði verr viðhaldið eða minni sómi sýndur, þótt heimagrafreitir yrðu upp teknir í stórum stíl, þar sem þeir, sem heimagrafreitina hafa, verða að greiða öll gjöld til kirkjugarða sókna sinna eftir sem áður. En í því sest honum yfir það, að það er ekki lítilsvert atriði fyrir hirðu og viðhald kirkjugarðanna, að sóknarmenn eigi þar látna ástvini sína og hafi því til að bera þá ræktarsemi til garðanna, sem að því leiðir. Hygg ég, að slíkt sé ekki minna um vert en gjöld þau, er þeir eru skyldaðir til að greiða í þessu skyni.

Ég álít, að það sé ekki lítils um það vert, að sóknarmenn sjálfir lati sig það skipta, hverju fram fer um kirkjugarða og hvernig um þá er hugsað. En ég lít svo á, að það verði til að draga úr áhuga sóknarmannanna fyrir þessu, ef heimagrafreitir eru almennt teknir upp í sókninni. Og það var einmitt með það fyrir augum, að ég og fleiri álitu, að það bæri að reisa skorður við því, að heimagrafreitir væru teknir upp í stórum stíl. Og mér er kunnugt um, að í löndum annarsstaðar þykir það sjálfsagt, að reynt sé að stemma stigu fyrir, að svo verði að miklum mun. Ég hygg líka, að upphæð sú, sem hér er um að ræða, 600 krónur, sem á að leggja í sjóð til þess, að hægt sé að hafa eftirlit með og hirðu á heimagrafreit, sé ekki of há í flestum tilfellum. Því það er vitanlegt, að viðhald og hirða á heimagrafreit, ef hún á að vera sæmileg, hlýtur að kosta nokkuð, og rentur af 600 krónum, sem verja má árlega til þessa, er ekki stór upphæð.