06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

364. mál, útflutningur á nýjum fiski

Jóhann Jósefsson:

Það er rétt, sem hv. frsm. segir, að n. er öll sammála um það, að það sé ekki hægt að sleppa hendinni af þeim útflutningi á nýjum fiski, sem hafinn var í fyrra fyrir tilstyrk ríkisins að nokkru leyti. Ég áleit í fyrra ekki rétt þá að leggjast á móti því, að skipaútgerð ríkisins færi af stað til að reyna að greiða fyrir þessum útflutningi á fiski, a. m. k. reyna, hversu henni tækjust afskipti af þeim málum. En ég verð nú að segja það, að þó búast mætti við talsverðum mistökum á þessari fyrstu tilraun, þá eru þau miklu meiri en mig og marga aðra óraði fyrir. Það er svo, eins og hv. frsm. tók fram, að í sjálfu sér var verð það, sem fékkst fyrir þann fisk, sem seldur var fyrir milligöngu Sölusambands Austfjarða og Skipaútgerðar ríkisins, ekkert fráfarandi. En fyrir mistök og þekkingarleysi þeirra manna, sem þessum málum áttu að stjórna, fengu þeir, sem lögðu fram vinnu sína til að veiða þennan fisk, þ. e. a. s. sjómennirnir, enga peninga útborgaða. Orsökin var sú, að veiðarfærakostnaður og kassakostnaður var svo mikill umfram það, sem vera þurfti.

Eins og hv. frsm. og flm. (SvÓ) tók fram, var útflutningurinn rúmlega 12000 kassar, og brúttóverð það, sem fékkst fyrir hvern kassa, kr. 16,10. Nú, en svo sem vitað er samkvæmt þeirri skýrslu, sem ríkisútgerðin hefir gefið, voru keypt veiðarfæri fyrir mikið af þessu fé, og eftir því, sem einn helzti útgerðarmaður þar fyrir austan segir í grein, sem hann hefir ritað í Ægi um þetta mál, þá á sölusamlagið nú veiðarfæri og kassa fyrir um samtals 80 þús. kr. Það er því sýnt, að ef ekki hefði verið keypt óvarlega mikið af kossum og veiðarfærum, þá hefðu þessar 80 þús. kr. komið til útborgunar til fiskeigenda, og það þá orðið um það bil hátt á sjöundu krónu fyrir hvern kassa, sem sjómennirnir hefðu fengið.

Í þessari sömu ritgerð, sem ég nefndi, eftir útgerðarmann og skipstjóra á Austurlandi, er þess getið, að þessi veiðarfæri muni hafa verið keypt í trausti þess, að ríkisstj. hlypi undir bagga með styrk til þeirra kaupa. Það segir ekki berum orðum í greininni, að ríkisstj. hafi ekki gert það, en ekki er hægt að skilja öðruvísi það, sem þar er sagt, en að heimild laganna nr. 37 frá 8. sept. 1931, um heimild fyrir ríkisstjórnina til ýmsra ráðstafana vegna útflutnings á nýjum fiski, hafi ekki komið til framkvæmda, með öðrum orðum, að öll veiðarfærakaupin hafi lent á framleiðendunum, án þess að þeir hafi fengið nokkurn styrk til þeirra.

Þegar nú þess er gætt, að svona hefir farið, og að það er sennilegt, að heimildarlögin hafi beinlínis ýtt undir þessi veiðarfærakaup, sem urðu þess valdandi, að fiskimennirnir báru ekkert úr býtum fyrir ómak sitt, þá er ég þó sem sagt ekki þeirrar skoðunar, að þessi niðurstaða eigi að verða þess valdandi, að ekki verði meira lítið í þessa átt, því ég er sannfærður um það, eins og hv. frsm., að við eigum að halda áfram að reyna að koma einhverjum hluta af íslenzkri framleiðslu á ísfisksmarkað. En það er aðeins meiningamunur hjá okkur um aðferðina. Og hvorki get ég, né heldur hefir hv. frsm. haldið því fram, að við vitum hvor um sig til hlítar það, sem réttast sé í þessu máli. Það megnar reynslan eingöngu að sýna fram á, hvað réttast er. En svo mikið höfum við lært af reynslu síðastl. árs, að við vitum, að það er ekki heppilegt að láta Skipaútgerð ríkisins hafa eins mikla íhlutun um þessi mál og verið hefir. Svo gersamlega hefir henni mistekizt það, sem hún átti að gera. Því það er vitað, að annarsstaðar hafa líkar tilraunir verið gerðar og þetta. Þær hafa að vísu gefizt misjafnlega, betur á einum staðnum, en verr á öðrum, þó hvergi hafi þær komið eins hart niður á sjálfum sjómönnunum eins og þessi tilraun hins opinbera. Þær hafa hvergi farið svo illa, að sjómenn og útgerðarmenn hafi ekki borið neitt úr býtum, nema þar.

Ég hafði í upphafi töluvert að athuga við þennan kassaflutning á fiskinum, og reynslan sýnir, að það er óheppilegt að flytja út fisk í kössum og demba honum á togaramarkaðinn þar, sem veiðiskipin koma sjálf með fisk, sem ekki er í kössum. En nú er ekki tími til að fara út í það frekar, en sú reynsla, sem fengin er, ætti að geta orðið til þess, að það opnist augu manna fyrir þessu. Og það er áreiðanlegt líka, að ef flutningarnir eiga að halda áfram að fara fram í kössum, þá verða kassarnir að halda áfram á sölustaðina inni í landinu, an þess að vera opnaðir í Grimsby eða öðrum lendingarstöðum.

Við þá tilraun, sem gerð var um útflutning á nýjum fiski í vetur frá Vestmannaeyjum, var ekki leitað til ríkisins um styrk, þó þess hefði verið full þörf. Og þó það hafi ekki verið nema tilraun, þá hefir hún þó sýnt, að ef heppni er með og laglega er á haldið, þá geta sjómennirnir og útgerðarmennirnir haft talsvert og viðunandi verð upp úr fiskinum með þessu móti. Flestir fiskfarmarnir voru sendir frá því seint í nóvember þangað til í febrúar, og þó fiskurinn væri ekki mikill að magni, af því að veðráttan var erfið til sjósóknar og fiskveiðar fremur litlar í Eyjum á þeim tíma árs, þá varð söluverð fiskjarins þó samtals rúmlega £6700, eða um £2000 lægra en allur Austfjarðafiskurinn seldist fyrir, en magn þess fiskjar, er Austfirðingar sendu út, var margfalt á við Vestmannaeyjafiskinn. Í stuttu máli: í Vestmannaeyjum fór það svo, að í hlut fiskimanna komu, þegar dreginn var frá allur kostnaður, um 17 aurar fyrir hvert kg. af öllum fiski, ýsu, flatfiski og þorski, sem þeir fengu, sem öfluðu hans. En þar voru ekki notaðir kassar, heldur var fiskurinn látinn laus í útflutningsskipið. Ég skal að vísu játa, að það verður að hafa allt aðrar framkvæmdir á þessu og allt aðrar aðgerðir eftir því, hvaðan fiskútflutningurinn fer fram.

Nú virðist okkur minni hl. — og því komum við fram með okkar brtt. — það litla þýðingu hafa, að ríkisstj. hafi heimild til að lána fisksölufélögum fé til undirbúnings þessara framkvæmda, eins og segir í 1. gr. laganna — þar er nú ekki nánar tiltekið, hver sá undirbúningur sé —, ef þessi heimild er svo ekki notuð. En hinsvegar má telja víst, að ákvæðið verði til þess að koma fiskútflytjendum af stað til að leggja í ýmsan óþarfan kostnað, og að þeir hagi sér nokkuð á annan veg, þegar gefið er til kynna í lögunum, að þeir verði styrktir til áhaldakaupa og veiðarfærakaupa, eins og komið hefir í ljós á Austfjörðum, en ella. En það er varla hægt að hugsa sér, að ríkið sjái sér fært að lána fé til að kaupa fyrir veiðarfæri, kassa, efni til geymsluhúsa o. s. frv., ef þess væri óskað víða um landið, því það yrði algerlega ofviða getu ríkissjóðs. Og sé ekki hægt að koma því svo fyrir, að þessar framkvæmdir eigi sér stoð í veruleikanum, þá sé ég ekki, að það hafi neina þýðingu að hafa slíkt ákvæði í lögum. Svo er hins að gæta við þennan fiskútflutning, að það er fyrsta skilyrðið fyrir honum, að til séu menn og bátar á staðnum, sem hafa dug og getu til að afla fiskjarins. Það er frumskilyrðið fyrir því, að í slíkt fyrirtæki sé ráðizt. Það er ekki hægt að kalla, að það sé með neinni fyrirhyggju af stað farið út í þennan útflutning, ef menn þurfa að leita til ríkisstj. um styrk til að koma veiðiskapnum af stað, til að kaupa fyrir veiðarfæri og annan útbúnað. Ég lít svo á, að það, sem ríkið á að styrkja, sé að hjálpa viðkomandi félögum sjómanna og útvegsmanna til að afla sér flutningstækja til að koma fiskinum á ísfisksmarkaðinn. Það er í samræmi við það, sem aðrar þjóðir gera. Danir styrkja þannig sinn fiskútflutning, og Norðmenn raunar líka, þó það sé að vísu í öðru formi, sem sé með niðursettum járnbrautarfarmgjöldum. Það álít ég vera skynsamlegast af hinu opinbera, að styrkja útflutninginn á þann hátt, að það veiti sinn stuðning þeim mönnum, sem vilja efla félagsskap til þess að fá heppilegan og hæfilegan skipakost til útflutningsins, í von um, að það fari þó aldrei svo, að fiskurinn seljist svo illa, að það fáist ekki fyrir hann það, sem það kostar að flytja hann á markaðinn. Og brtt. okkar hv. þm. Ak. miðar þess vegna að því að hækka upphæðina, sem ríkisstj. leyfist að ábyrgjast fyrir skipaleigu, en nema burt heimild hennar til lánveitinga til fisksölufélaga samkv. 1. gr. laganna — ég meina lán til að kaupa fyrir kassa og veiðarfæri. (SvÓ: Ekki veiðarfæri). Hv. frsm. segir: „Ekki veiðarfæri“. En þannig hafa nú sjómenn á Austfjörðum samt skilið þetta ákvæði 1. gr. laganna, eða a. m. k. virðist í Ægis-ritgerðinni, sem ég nefndi áðan, vera gengið út frá því. Til að sanna þetta skal ég lesa fáein orð úr nefndri ritgerð, sem er í apríl-hefti Ægis, þar sem talað er um útflutning á nýjum fiski. Það hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrstu dagana í september var byrjað að veiða fisk til útflutnings í ís. Leigði Skipaútgerð ríkisins tvö skip til flutninganna, samkv. heimildarlögum frá síðasta Alþingi. Samkv. sömu lögum var ríkisstj. heimilt að verja allt að 200 þús. kr. til útlána handa samvinnufélögum til veiðarfærakaupa og til umbúðakaupa um ísvarinn fisk. Munu samlögin hér eystra hafa treyst því, að þau ættu vísan stuðning frá ríkisstj., ef með þyrfti“.

Ég þarf ekki að lesa meira; þetta nægir til að sýna, að ég fer með rétt mál að því er snertir skilning manna eystra á þessu lagaákvæði. Hinsvegar eru ekki nefnd í 1. gr. laganna veiðarfæri né heldur kassar sérstaklega, heldur bara talað um lánveitingar til undirbúnings framkvæmda. En það er bert, að slíkar lánveitingar geta varla verið aðrar en lánveitingar til umbúðakaupa, lánveitingar til geymsluhúsabygginga eða lánveitingar til veiðarfærakaupa. Og þannig hafa Austfirðingar skilið lagaákvæðið, og í trausti þess ráðizt í þessi ógætilegu veiðarfærakaup, sem hirtu allt andvirði fiskjarins, sem átti að falla fiskimönnunum sjálfum í skaut. Skal ég svo ekki vera að orðlengja þetta meira.

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að við viljum hvorttveggja, styðja að því, að þessum fiskútflutningi verði haldið áfram og að hann blómgist og þróist, og viljum við, sem berum fram brtt., engu síður styðja að því að hjálpa þeim, sem hjálpa sér sjálfir. En þar til heyrir líka, að það er líklegt, að þeir menn, sem ekki þurfa að leita til ríkisins með alla hluti í byrjun, hafi meiri skilyrði til, að geta „drifið“ ef ég má nota það orð — veiðarnar og útflutninginn betur en hinir, og að það sé af meira viti gert að hjálpa þeim.

Að því er snertir ríkissjóðsábyrgðina á leigu á skipum, þá höfum við farið fram á, að í stað þess, að ríkissjóður má nú ábyrgjast allt að 200 þús. kr. í þessu skyni, þá megi hann ábyrgjast allt að 400 þús. kr. Og það virðist heppilegri leið að ábyrgjast skipsleigu fyrir efnilega menn, sem gætu sett einhverja baktryggingu og sýnt, að fyrirtækið væri frá stofni byggt á skynsamlegum grundvelli, heldur en að lata ríkisútgerðina vera að baxa í þessu, því eins og sest á yfirliti því, sem sjútvn. hefir fengið frá ríkisútgerðinni um útgerð þessara skipa og fisksölu, sem flestir hv. þm. hafa væntanlega séð, þá er þetta allmikill baggi á Skipaútgerð ríkisins. Af þessu plaggi sest, að skuld sölusamlags Austfjarða við Skipaútgerð ríkisins er nú 35000 kr., og eigi hún að halda fiskflutningunum áfram, þá er það bersýnilegt, að það endar á skuld, sem torvelt mun reynast að innheimta hjá þessum félögum.

Annars þýðir ekki um þetta að deila, en við höfum álitið rétt, með tilliti til þess, hvernig þetta hefir gengið á Austfjörðum í sumar, að breyta nú til með fyrirkomulag á þessu fisksölumáli og leggja nú alla áherzlu á það að styðja flutninginn á fiskinum, en lata sjómennina og útgerðarmennina sjálfa annast um undirbúninginn, eins og t. d. að afla bata og veiðarfæra, því það verður að vera þeirra verk.