06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

364. mál, útflutningur á nýjum fiski

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég hefi raunar fáu að svara þeim hv. tveimur þm., sem talað hafa í þessu máli. Þeir hafa báðir í raun og veru stutt mitt mál. Ræður þeirra hafa einkum lotið að því að benda á, hvað varast þurfi og hvers gæta beri í sambandi við framhaldssölu og flutninga ísfiskjar. Og get ég fallizt á mörg réttmæt rök hjá þeim.

Ég skal taka það fram út af orðum, sem ég hygg, að hv. þm. Vestm. hafi óvart látið falla, að austfirzka sölusamlagið hafi ekkert fengið fyrir seldan ísfisk, að það er auðvitað ekki rétt, enda upplýsist hér í hv. d., að samlagið fékk fulla greiðslu, þótt í öðrum verðmætum væri en peningum, svo sem auk skipaleigu í áhöldum, veiðarfærum o. fl., um 80 þús. kr. Hitt er annað mál, að sú greiðsla var ekki á þann hatt, sem þurft hefði að vera, af því svo fór, að þessi veiðarfæri, kassar og fleira var aldrei notað á því ári. Það skal viðurkennt, að þessi óþörfu kaup voru miður haldkvæmar ráðstafanir fyrir samlagið, enda bættist þar við, að þriðjungur af leigutíma skipanna fór til ónýtis, vegna þess hve áliðið var þegar byrjað var á útflutningi. Þetta tvennt olli þeirri útkomu hjá samlaginu, sem raun varð á.

Þó þótti mér ekki hæfa hrakspá eða tilgáta hv. þm. um það, að þær 36 þús. kr., sem samlagið skuldar ríkisútgerðinni, verði aldrei greiddar, enda er hún ekki á neinum rökum byggð. Ég veit, að gerðar hafa verið ráðstafanir til greiðslu skuldarinnar á þessu ári.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkið taki baktryggingu hjá útgerðarfélögunum fyrir ábyrgð á leigu skipanna, og er ríkinu vitanlega innan handar að heimta þær tryggingar. Á síðastl. ári var ekki gert ráð fyrir ríkisábyrgð, heldur ríkisláni til samlaganna, sem þó var aldrei veitt. En sú 36 þús. kr. skuld, sem Sölusamlag Austfjarða komst í við ríkisskip, var eðlileg afleiðing þess, að samlagið réðst í kaup dýrra veiðarfæra, sem að engu liði urðu í það sinn, og hinsvegar af því, að skipin voru leigð um þriðjungi lengri tíma en hægt var að hafa þeirra not.

Út af skírskotun hv. þm. til greinar í Ægi um veiðarfærakaup Fiskisamlags Austfjarða skal ég taka það fram til leiðréttingar, að undir meðferð þessa máls á síðasta þingi var í þessari hv. deild felld till. um lán úr ríkissjóði til veiðarfærakaupa. Það er þess vegna hastarlegur misskilningur hjá greinarhöf., að veiðarfærin hafi verið keypt í þeirri von, að ríkissjóður lánaði andvirðið. Nei, sannleikurinn er sá, að þau voru keypt í þeirri góðu trú, að þau kæmu í tæka tíð, sem eigi varð, og að veiðin gengi betur en raun varð á.

Um aths. hv. þm. N.-Ísf. viðvíkjandi því, að kassaflutningur á fiski sé óheppilegri en að flytja fiskinn umbúðalausan í skipunum, skal ég taka það fram, að ég veit, að það getur verið rétt þar, sem um stórar verstöðvar er að ræða, en þar, sem smáar fiskistöðvar eru og flutningaferðir strjálar, þar er ekki hægt að komast hjá því að safna fiskinum saman í kassa, vegna þess að ekki er hægt að geyma hann öðruvísi. Það hefir sýnt sig, að þessi aðferð heppnaðist vel á Austfjörðum og mistókst ekki nema lítillega eitt sinn, og þó ekki neitt verulega. Þetta er áreiðanlega bezta aðferðin þar, sem verstöðvarnar eru smáar, og sú eina, sem tiltækileg er. Ég skil vel, að í Vestmannaeyjum og á Ísafirði sé hægt að koma því við að flytja fiskinn út umbúðalaust, af því að á þeim stöðum eru svo stórar verstöðvar, að fylla má skip á stuttum tíma, en á Austurlandi getur það tæplega átt við. Á Austfjörðum var hinsvegar einhver tilraun gerð með að flytja fiskinn milli hafna og safna honum þannig á einn stað, en sú tilraun þótti ekki gefast vel, og var því horfið frá þeirri aðferð.

Hitt reyndist aftur betur, að safna fiskinum saman ísuðum í kassa á hverri höfn milli ferða. Sú aðferð á þar við. Þar er stutt milli góðra hafna og því auðvelt og fljótlegt að ferma skipin. Þar getur oft staðið svo á, að á einum sólarhring megi skip ferma kassafiski, þótt farmur sé tekinn á 6 eða 7 höfnum.

Annars hygg ég óþarft að ræða hér um einstök fyrirkomulagsatriði; reynslan mun smám saman sýna, hvað bezt hentar í þessum efnum, bæði fyrir austan og vestan, og það er engin hætta á því, að þeir, sem hlut eiga að máli, muni brenna sig á því oftar að fylgja þeim aðferðum, sem hættulegar hafa reynzt. Það gefur mér von um betri árangur í þessum efnum í framtíðinni, að nú hefir reynslan þegar kennt margt af því, sem nauðsynlegt var að kynnast fyrirfram. Sú reynsla hefir máske verið nokkuð dýrkeypt fyrir suma brautryðjendur, en borgar sig þó.

Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, þar sem fundartími er nú næstum liðinn og margir hv. dm. eru fjarverandi, að atkvgr. um frv. verði frestað til betri tíma. Ég býst ekki við löngum umr. um málið úr þessu, og hér virðist aðeins vera um smáatriði að ræða, er skoðanir skiptast um. Um brtt. hv. minni hl. n. skal ég taka það fram, að ég get ómögulega fallizt á brtt. við 2. gr., en aftur á móti get ég fallizt á, að rétt sé að hækka heimild fyrir ríkisábyrgð úr 200 þús. kr. í 400 þús., þótt sú heimild verði máske ekki notuð nema að nokkru leyti. Ábyrgð þessi er ætluð til þess, að sölusamlögin komist að betri kjörum með skipaleigu, og er einsætt, að búa verður um tryggingar og samninga svo, að hættulaust sé.