06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

364. mál, útflutningur á nýjum fiski

Jóhann Jósefsson:

Hv. 1. þm. S.-M. taldi, að ég mundi hafa sagt það óvart, að þeir, sem létu fisk á síðastl. sumri, hefðu enga greiðslu fengið fyrir hann. Ég sný ekki aftur með það — og það var ekki sagt óvart —, að þeir fengu enga útborgun. Afganginn, sem varð, fengu þeir í veiðarfærum og kössum, sem ekki eru neinir peningar í lofa þeirra, er seldu fiskinn. Hér er ekki um neinar deilur að ræða, og þarf ég því ekki miklu að svara hv. frsm. Ég taldi ólíklegt, að skuld sú, sem er við skip ríkisins, fáist inn. En það getur nú verið, að eitthvað sé verið að gera í þá átt að greiða þetta, og þá líklega með styrk ríkisins, og ber þá allt að sama brunni. Maður hefir orðið var við það, að tilraun hefir verið gerð í sambandi við fjárlögin að fá ábyrgð ríkissjóðs fyrir láni í þessu skyni.

Aðalatriðið í þessu máli er það að gera aðstöðuna hægari um að fá skip. En í því sambandi vil ég minna á, að ekki er óhugsanlegt, að þá verði kostur innlendra skipa og manna. Og stjórninni eða ríkinu er á engan hátt hægara með að veita stuðning til þess en að vera á einhvern hátt bakhjarl fyrir því, að þessi skip verði notuð.

Ég skal taka undir það með hv. þm. N.-Ísf., að það er sízt hagur að því að byrja snemma sumars á þessum útflutningi.

Ég vil ekki herða neitt á því, að atkvgr. fari fram í kvöld, enda eru fáir þm. viðstaddir. Hér er heldur ekki um neitt kapp að ræða, þar sem ágreiningurinn er ekki mikill, þó hann sé nokkur. Ég vil a. m. k. ekki, að gefnar séu neinar lagaheimildir, sem svo reynast hillingar.