23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

2292Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. er flutt til að bæta úr atvinnuleysi og fyrirsjáanlegum vandræðum austanlands. Við 2. og 3. umr. fjárl. flutti ég brtt. um það, að ríkissjóður legði fram 200 þús. kr. til þess að innlent félag gæti sett upp síldarverksmiðju á Seyðisfirði. Þessi brtt. mín hlaut þá ekki betri viðtökur en svo, að hún fékk aðeins 3 atkv. Skilyrði fyrir síldarverksmiðju á Seyðisfirði eru hin ákjósanlegustu og þörfin brýnni en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. Niðurlæging sjávarútvegsins á Austfjörðum hin síðari ár hefir m. a. stafað af því, að ekki hefir verið hægt að hagnýta sér síldina. Mönnum hefir ekki verið unnt að gera út skip til að veiða síld til söltunar, þegar ekkert var hægt að gera við þann hluta síldarinnar, sem ekki varð saltaður. Firðirnir eru oft og iðulega fullir af síld bæði sumar og vor. Í haust fylltist Seyðisfjörður af síld í nóvembermánuði og hefir verið fullur af síld síðan allt fram á þennan dag.

Ég hafði ástæðu til að ætla, að ef ríkissjóður hefði lagt fram 200 þús. kr. til innlendrar síldarverksmiðju, hefði verið hægt að fá lán og framlög nægileg til viðbótar. Þótt frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ., get ég því miður ekki bent á neitt erlent félag eða mann, sem vissa er fyrir, að vilji nota sér leyfið. Ég skal játa, að þetta er mikill galli, en þörfin er svo mikil á aðgerðum í þessu efni og líkur svo miklar til þess, að einhver vildi nota sér slíkt leyfi, að ég flyt frv. allt að einu.

Ég fæ ekki séð, að frv. þetta geti haft neina hættu í fór með sér. í fyrsta lagi er hér aðeins um heimild að ræða, sem ríkisstj. á að nota, og í öðru lagi er gert að skilyrði, að bæjarstj. Seyðisfjarðar mæli með beiðninni. Hér er ekki neitt frá neinum tekið eða við neinn keppt, þar sem engin slík verksmiðja er austanlands. Hinsvegar er augljóst, að slík verksmiðja myndi létta stórkostlega undir með útgerðinni og auka atvinnu á Seyðisfirði. Auk þess má benda á það, að allmiklar tekjur myndu renna til ríkissjóðs frá þessu fyrirtæki, ef það kæmist upp, bæði innflutningsgjöld af vélum og byggingarefnum og fleiru og útflutningsgjöld af síldarafurðum. Ég vil því vænta þess, að úr því hv. Alþingi hefir neitað um stuðning sinn til að innlend síldarverksmiðja gæti risið upp á Seyðisfirði, taki það þessu máli vel, og óska ég, að því verði að lokinni umr. vísað til sjútvn.