11.05.1932
Neðri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Haraldur Guðmundsson:

Ég gerði nokkra grein fyrir þessari brtt, minni hér við 2. umr. málsins. Ástæðan til þess, að hún er flutt, er í fyrsta lagi sú, að hingað hefir borizt til hv. Alþ. áskorun og beiðni frá Seyðisfirði um að veita erlendum skipum leyfi til að leggja þar síld á land til verkunar í sumar. Mér þótti fara vel á því að flytja það mál sem brtt. við þetta frv. um heimild til að leyfa erlendu félagi að setja upp síldarbræðslu, sérstaklega ef hún yrði sett á Seyðisfirði, þó búið sé nú að breyta frv. í það horf, að heimila megi að setja hana á hvaða stað sem er á Austfjörðum. Með þessu væri það tryggt, að síldveiðar yrðu reknar af Austurlandi í sumar og að það fengist reynsla fyrir því, hvernig það gefst að reka síldveiðar frá þeim stað. Ég fyrir mitt leyti tel, að það sé enginn vafi á því, að það sé sannað, að það sé heppilegur staður fyrir síldarbræðslu á Seyðisfirði, en reynslan í sumar ætti að árétta það, og þætti mér þá líklegt, að erlendir menn mundu líklegri eftir en áður til að setja fé í að koma þar upp bræðslustöð.

Ég fæ ekki séð, að það sé neitt, sem mælir gegn því að samþ. þessa brtt. Ríkisstj. hefir það í hendi sér að setja þessu leyfi svo þröngar skorður sem henni lízt. Bæði getur hún takmarkað þann skipafjölda, sem megi leggja síld á land til verkunar, og eins aflann, sem leggja með á land alls.

Ennfremur drap ég á það við 2. umr., að það ætti að vera skilyrði fyrir því, að leyfið yrði veitt, að menn sömu þjóðar eða helzt félagið, sem fengi leyfi til að leggja síld á land til verkunar, skuldbindi sig til að kaupa síld af bátum innan héraðs eða öðrum innlendum bátum í einhverju ákveðnu hlutfalli við þá síld, sem það legði á land til verkunar. Með þessu ynnist tvennt í sumar fyrir héraðsmenn; í fyrsta lagi yrði bætt úr atvinnuleysi í landi, sem mjög er tilfinnanlegt á Seyðisfirði og í öðru lagi væru með því skapaðir möguleikar fyrir bátaútveginn þar til þess að selja síldina, sem nú, eins og ástandið er, getur ekki selt síldina an þess að fá einhversstaðar lánað fé til að kaupa salt og tunnur, en til þess eru litlar líkur, að útgerðarmenn geti af eigin rammleik gert það, eins og nú er ástatt.

Þetta ætti að geta nægt til að skýra þessa brtt. mína fyrir hv. dm., til viðbótar þeim skýringum, sem ég gaf á henni við 2. umr. Og þess er að vænta, að þó hv. d. fellist á að veita þessa mjög svo takmörkuðu heimild þetta eina sumar, að það drægi ekki neinn dilk á eftir sér.

Ég hefi ástæðu til að ætla, að útlendir menn mundu vilja nota þessa heimild, ef hún fengist, þó af skornum skammti yrði veitt, t. d. fyrir 10000 tunnur, eins og til orða hefir komið.