11.05.1932
Neðri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég hefi nú ekki getað borið þessa brtt. undir sjútvn. á fundi, en ég hefi talað um hana við nefndarmennina, og það er mjög skiptar skoðanir um hana, svo segja má, að þeir hafi um hana óbundin atkv.

Því er nú ekki að neita, að þessi brtt. brýtur algerlega í bága við þá löggjöf, sem nú gildir hér um aðgang erlendra veiðiskipa að því að leggja hér afla á land. Það kann vel að vera, að það sé ýmislegt, sem mæli með því að gera þessa undantekningu fyrir Seyðisfjörð, en ég efast þó mjög um, að það sé rétt að opna þannig landið að þessu leyti fyrir einn stað, því þá er sennilegt, að aðrir muni koma á eftir og gera sömu kröfu, þegar þeir af atvinnuástæðum telja það heppilegt að leyfa erlendum skipum að leggja hér upp afla sinn.

Mig undrar það ekki, sem hv. þm. sagði, að það mundu fást útlendingar til að leggja hér á land afla og salta hann hér. En því meira, sem gert er að því að leyfa útlendingum að leggja hér á land síld og salta hana, því meira minnka sölumöguleikarnir á íslenzkri síldarframleiðslu. Því má ekki gleyma.

En sem sagt, n. hefir óbundin atkv. um þetta mál. En að því er sjálfan mig snertir, þá treysti ég mér ekki til að greiða atkv. með því að upphefja fiskveiðalöggjöfina á þennan hátt fyrir eitt pláss á landinu, eins og nú standa sakir, aðallega vegna fordæmisins. Hinsvegar mundi ég fylgja því, að fiskveiðalöggjöfin í heild væri endurskoðuð, eins og ég drap á við 2. umr.