11.05.1932
Neðri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Vegna þess að hv. þm. Seyðf. fór ekki rétt með orð mín, vildi ég leiðrétta, svo sæist í þingtíðindunum það, sem hann fór rangt með. Ég sagði, að þar sem Seyðfirðingar óskuðu aðeins eftir svo litlu vörumagni, þá liti ég svo á, að stj. gæti leyft þessa undanþágu með tilliti til þeirrar heimildar, sem hún hefir til að semja við norsk síldveiðiskip um undanþágu frá fiskveiðalögunum, og stendur í sambandi við samninga þá, er gerðir voru út af kjöttollsmálinu. Það þýðir ekki hið sama og að þetta eigi að vera heimilt skv. fiskveiðalöggjöfinni.

Það er vitanlegt, að við Norðmenn var gerður sérstakur samningur. Lofuðu Íslendingar að framkvæma ýms atriði laganna með sérstöku tilliti og sérstökum velvilja gagnvart Norðmönnum, gegn lækkun kjöttollsins. Að mínu áliti er hægt að framkvæma þetta þannig, og það mun hafa verið gert fyrir norðan. Tel ég, að innan þessa ramma geti komið sú framkvæmd, að ríkisstj. geti leyft að selja til landsins nokkuð af síld af erlendum skipum, en ekki, eins og hv. þm. fer fram á, leyfi til að verka í landi. Það er ekki nauðsynlegt. Það er hægðarleikur fyrir bæjarstj. Seyðisfjarðarkaupstaðar að koma því þannig fyrir með þessa söltun, að hægt verði að framkvæma hana skv. þeim skilningi, sem ég hefi áður látið í ljósi.