13.05.1932
Efri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Pétur Magnússon:

Mér var fullkunnugt um það áður, en þetta frv. er ekki borið fram af stj., og þurfti því ekki að spyrja um það. frá því fiskveiðalöggjöfin fyrst var sett hefir Alþingi haldið fast við hana og ekki veitt undanþágur frá henni nema í einu tilfelli, svo mér sé kunnugt. Skal ég ekki halda neinu fram um það að svo stöddu, hvort rétt sé að fara inn á þessa braut, sem þetta frv. markar. Má vel vera, að ástæða sé til að breyta fiskveiðalöggjöfinni og opna landið aftur að meira eða minna leyti, en hér er um svo mikilsvert atriði að ræða, að mér finnst, að stj. hljóti að láta það til sín taka, og vona ég, að það hafi ekki verið álitin óþingleg framkoma af mér, þótt ég mæltist til þess, að stj. léti uppi álit sitt á málinu, því að stj. er sá rétti aðili í þessu máli gagnvart d. Ef ég man rétt, er engin smuga fyrir slíkar undanþágur í fiskveiðalöggjöfinni eins og hún er, og orkar því ekki tvímælis, að hér er verið að fara inn á nýja braut, og vil ég segja það, an þess þó að leggja dóm á, hvort hér sé stefnt í rétta att, að það er ekki næg ástæða til að fara að breyta fiskveiðalöggjöfinni, þótt örðugleikar þrengi nú að í einum kaupstað landsins, og jafnvel þótt um heilan landsfjóðung sé að ræða. Þegar um er að ræða jafnstórt mál og þetta, þá má ekki hrapa að neinu um afgreiðslu þess, og vil ég því beina þeirri áskorun til sjútvn., sem málið fær til meðferðar, að hún taki það til rækilegrar yfirvegunar áður en það kemur fyrir d. aftur.