21.05.1932
Efri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Jón Baldvinsson:

Ég hefði kosið, að hv. sjútvn. hefði mælt með frv. óbreyttu. En hún gerir nokkuð mikla breyt. á því, þar sem hún leggur til að fella niður 2. gr., sem er um það að heimila ríkisstj. að veita nokkrum erlendum veiðiskipum leyfi til að landsetja og verka nokkurn hluta afla síns nú í sumar eða árið 1932, og á þessi undanþága að miðast við lögsagnarumdæmi Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Það hefir ekki verið minnzt á það mjög mikið í þessari hv. d., en það hefir komið fram annarsstaðar, að ástandið í bæjunum á Austurlandi, einkanlega þó á Seyðisfirði, er mjög alvarlegt og atvinnuleysi alltaf að aukast. Þar hefir alltaf verið að draga saman síðstl. ár, eins og yfirleitt í kauptúnunum á Austurlandi. Eins og bent hefir verið á, er það ekkert efamál, að fiskveiðalöggjöfin frá 1922 veldur þessu, og að ástandið og atvinnuleysið á Austfjörðum má rekja beint til hennar. Því er ekki undarlegt, þó að kröfur um að breyta fiskveiðalöggjöfinni komi þaðan. Þetta var líka gert einu sinni til að bæta afkomu kaupstaðar nálægt Rvík. Að vísu skal ég játa það, að þó að slík ráðstöfun bjargi einhverjum kaupstað í bili, þá er ekki varanlegt að tryggja áframhaldandi starfsemi erlendra manna.

Það, sem hv. sjútvn. vill þá sérstaklega gera við frv., er að fella niður heimildina handa Seyðisfjarðarkaupstað. Og hv. frsm. var að tala um, að heimildin mundi ekki koma að neinu gagni, því að óvíst væri, hvort norsk síldveiðiskip mundu á þessu ári landsetja nokkuð af afla sínum til verkunar á Seyðisfirði. En ég sé ekki, að þetta þurfi að vera bundið við þessa einu þjóð, því að í frvgr. er talað um erlend veiðiskip, en ekkert gefið í skyn um það, að þau þurfi endilega að vera norsk. Mér hefir líka verið sagt af heim, sem um frv. hafa fjallað, að gert sé ráð fyrir, að ef bæjarstj. veitir leyfið ein, og talað er um í niðurlagi 2. gr., þá muni hún að öðru leyti setja þau skilyrði, að keyptur verði afli af innlendum skipum í hlutfalli við það, sem þau erlendu láta verka. hér er því ekki einungis um að ræða atvinnubót í landi, heldur og stuðning fyrir sjómenn, og ekki bundið við bata á Seyðisfirði, heldur öll íslenzk skip, sem sækja til veiða á þessar slóðir.

Það hefir verið mikið talað um, að með slíkri undanþágu væri gengið inn á hættulega braut, því að þegar einn staður hefði fengið heimildina, þá mundu margir koma á eftir. En ég held menn hljóti fyrst að sannfærast um, að fiskveiðalöggjöf okkar hefir gengið of langt, og þegar þarf að breyta henni, megi það ekki gerast í stórum stíl og allt í einu, heldur verði undanþágurnar að koma smátt og smátt og hægfara. hér er í frv. þessu farið fram á að veita tvær undanþágur, en hvorttveggja er það í smáum stíl, og má þ sjá, hvernig það gefst.

Ég gef ekki tvo aura fyrir lofgerðarrollu um innlenda framleiðendur og löggjafarvernd þeim til handa, ef það sýnir sig, að slík löggjöf er fjölda manna til bölvunar og eykur atvinnuleysi í landinu, og ég er ekki í efa um, að það hefir fiskveiðalöggjöfin frá 1922 verið. Landsmenn tóku í einu lagi í sínar hendur verzlun landsins, en sýndu, að þeir voru ekki jafnfærir að taka að sér fiskverzlun og síldarsöltun eins og útlendingarnir, sem höfðu haft þetta með höndum í mörg ár. Ég held, að kominn sé tími til að liðka svo til í lögum þessum, að við ættum að gera þessa litlu tilraun og vita, hvernig hann gefst. Það er ekki víst nema einhverjir útlendingar vildu nú í kreppunni koma og reyna þetta, en ég skoða þetta sem tilraun til að hjálpa stöðum, sem verst eru settir og fiskveiðalöggjöfin hefir bitnað á. Og af því að Alþingi vill ekki og ríkissjóður getur ekki veitt peningalegan stuðning í þessu efni, þá finnst mér rétt og sanngjarnt að fara þá leið, sem frv. bendir á.

Hv. 2. þm. Eyf. flytur brtt. við 2. gr., þess efnis, að verði þessi heimild veitt, þá gildi sama um Siglufjörð og Seyðisfjörð. En þar finnst mér ólíku saman að jafna, því að sú síldveiði, sem fram fer, er hnitmiðuð við Siglufjörð og þar er mest flutt á land. Það eru því miklar líkur til, ef síldveiði verður á annað borð, að Siglufjarðarbúar fái atvinnu við hana. En öðru máli er að gegna um Seyðisfjörð; íbúar hans hafa ekki nema örlitla von um, að eitthvað kunni að verða verkað þar af síld, en Siglufjörður alla von, því að þar eru verksmiðjurnar og þangað sækja skipin með síldina. Ég sé ekki, að rétt sé að reyna að tengja saman svo ólíkt og hér er um að ræða, enda get ég ekki fylgt þessari brtt., sem hv. 2. þm. Eyf. ber fram. Ég vil ekki fara lengra en frv. gerir ráð fyrir, því eins og ég hefi áður tekið fram, vil ég byrja smátt og smátt að veita slíkar undanþágur og bíða þess svo, hvort ekki komi á daginn, að slíkar breyt. verði landsmönnum að gagni.