21.05.1932
Efri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Einar Árnason:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 2. landsk. sagði, að rétt væri að gera upp á milli Seyðisfjarðar og Siglufjarðar um þetta leyfi. En ég get ekki fallizt á, að það sé rétt. Eins og allir vita, er Siglufjarðarkaupstaður byggður upp af síldveiðunum, en svo er ekki um Seyðisfjörð. (JBald: Hann var það). Þess vegna er það tilfinnanlegt fyrir Siglufjörð, ef ekki verður þar nema um litla síldarútgerð að ræða, en hinsvegar nær slíkt ekki til Seyðisfjarðar, af því hann hefir aldrei getað byggt á síldveiði til neinna muna. Ef það yrði ofan á, að þetta leyfi yrði aðeins veitt fyrir Seyðisfjarðarbæ, en næði ekki til Siglufjarðar, þá mundi það raska heim atvinnumöguleikum, sem gilt hafa: fólkið þyrptist til Seyðisfjarðar, en atvinnuleysi skapaðist á Siglufirði. Ég get alls ekki fallizt á þá skoðun hv. 2. landsk., að ef veita á undanþágu frá fiskveiðalöggjöfinni, þá eigi einstakir staðir aðeins að verða slíkra hlunninda aðnjótandi. Ég fæ ekki betur séð en að með þessu sé framið ranglæti, sem ekki er unandi við.