26.05.1932
Neðri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Haraldur Guðmundsson:

Hv. Ed. hefir gert þá breyt. á frv. frá því þessi hv. deild samþ. það, að 2. gr. hefir verið felld burt og Fyrirsögn breytt í samræmi við það.

Efni 2. gr. var að veita nokkrum erlendum veiðiskipum heimild til að landsetja og verka síld á Seyðisfirði í sumar. Var þetta samþ. hér með nokkrum atkvæðamun, en hv. Ed. felldi þetta úr frv. með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. Mér þykir því sýnt, þó að frv. væri breytt í sama horf og það var, er það fór héðan til hv. Ed., að hún muni ekki fallast á það, og kannske fella það alveg. Ég mun því sætta mig við, að frv. gangi fram eins og það er. Þó tel ég frv. lakara en það var flutt af mér í upphafi, og jafnvel enn lakara en það var þegar það fór héðan úr deildinni.